Herdís Sópransöngkonan knáa syngur öll hlutverk kammeróperunnar, hér er hún í hlutverki drottningarinnar.
Herdís Sópransöngkonan knáa syngur öll hlutverk kammeróperunnar, hér er hún í hlutverki drottningarinnar. — Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er samtímaópera unnin út frá Grimmsævintýrinu um spunakonurnar, en það tók á sig alveg nýja mynd þegar Kristín fór að skrifa textann. Hún skrifaði sögu þriggja nútímakvenna,“ segir Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, leikstýra nýrrar…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þetta er samtímaópera unnin út frá Grimmsævintýrinu um spunakonurnar, en það tók á sig alveg nýja mynd þegar Kristín fór að skrifa textann. Hún skrifaði sögu þriggja nútímakvenna,“ segir Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, leikstýra nýrrar íslenskrar kammeróperu, Óperan hundrað þúsund, sem frumsýnd verður í kvöld í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Uppfærslan er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og leikhópsins Svartur jakki, en verkið er kynnt sem „ögrandi ópera um stúlku með verkstol og drottningu sem leiðist.“ Tónlistina samdi Þórunn Gréta Sigurðardóttir og óperutextann skrifaði Kristín Eiríksdóttir rithöfundur, en þær tvær hafa unnið saman áður, m.a. að óperunni Kok.

„Í Grimmsævintýrinu um spunakonurnar segir frá stúlku sem er mjög löt og nennir ekki að spinna ull. Móðir hennar reiðist og lemur hana og drottningin í ríkinu heyrir stúlkuna emja og spyr hvað sé að. Móðirin skammast sín og segir að stúlkan sé leið að hafa enga ull til að spinna, því hún sé svo dugleg. Drottning fær stúlkuna til að spinna úr allri ullinni sem til sé í höllinni og lofar henni í staðinn að giftast prinsinum syni hennar. Lata stúlkan segir já, en kemur sér undan verkinu og fær þrjár spunakonur til að vinna það fyrir sig. Við vinnum lauslega með þetta ævintýri og kröfuna um iðjusemi í okkar nútímasamfélagi. Við mannfólkið eigum helst að verða iðjusöm vél, alltaf tilbúin í næsta verkefni og vera hamhleypur til verka, rosalega duglegar, sérstaklega konur. Samt vitum við að þetta jaskar okkur út. Kristín nær alltaf í sínum skrifum inn að einhverjum kjarna, og í þessari nýju óperu skrifar hún texta sem talar sterkt inn í samtímann, þó verkið byggist á gömlu Grimmsævintýri. Í staðinn fyrir ull erum við í sýningunni með kandífloss og hljóðfæraleikararnir búa til einskonar vél sem heldur stöðugt áfram og má ekki stoppa. Við erum í þessu verki að skoða hvaða áhrif letin hefur og hversu mikil ögrun leti er við okkar samfélag. Fátt ögrar meira okkar samfélagsgerð og viðhorfum, en einhver sem vill ekki vinna. Okkur finnst það algerlega óhugsandi í samfélagi þar sem allir hreykja sér af því að vera síuppteknir. Við lítum enn á það sem mikla dyggð að það sé „brjálað að gera“ þó svo að það valdi því að fólk fari yfir um og lendi í kulnun. Okkur finnst líka áhugavert að pæla í framleiðslubrjálæðinu sem neysla okkar krefst. Drottningin vill að stúlkan „framleiði“ fyrir sig úr ullinni, en henni er alveg sama þó stúlkan fái aðrar manneskjur til að sinna þeirri vinnu fyrir lítið. Kristín fer þar í textanum út í pælingar um að við lokum augunum fyrir því hvaðan hlutirnir koma sem við kaupum úti í búð og af hverju þeir eru svona ódýrir.“

Túlka tónlist sjónrænt

Salvör segir að uppsetning óperunnar sé unnin í ferlinu og mikið til í samtali við sviðsetninguna.

„Uppsetningin er á mörkum tilraunaleikhúss og gjörningalistar. Okkur langaði að nálgast þetta á tilraunakenndan hátt og leita í minni tilraunakennds músíkleikhúss, því mér finnst textinn svo skýr að það megi ekki sviðsetja hann bókstaflega. Mér fannst við þurfa að fara abstrakt leið til að túlka textann, þess vegna leyfðum við allskonar hugmyndum að koma til okkar í ferlinu, við prófuðum ýmislegt. Þetta er fyrsta óperan sem ég leikstýri, sem er mikill heiður, en þó ég sé sviðslistakona, þá hefur mér alltaf fundist tónlist vera listform sem ber höfuð og herðar yfir önnur. Þessi uppsetning er samsköpun sem verður til í samtali á milli tónlistar, texta og hins sjónræna. Við erum í raun að túlka tónlist sjónrænt, sem er ótrúlega spennandi, en líka pínulítið ógnvekjandi. Við ákváðum að búa til sjónrænan heim þar sem persónur verksins gætu mæst, drottningin, dóttirin og móðirin. Til að ná þessu fram vann ég náið með leikmyndahönnuðinum, Guðnýju Hrund Sigurðardóttur, og við bjuggum heiminn til áður en við ákváðum hvað gert yrði inni í honum. Við bjuggum til kandífloss-gerviheim og þar eru litlir plasthlutir sem við erum vön að sjá í draslbúðum og veltum fyrir okkur af hverju var verið að búa til, notaðir einu sinni og verða svo að drasli. Hljómsveitin spilar á þessa plasthluti, en í verkinu er harpa, slagverk og klarinett, sem Grímur Helgason, Katie Buckley og Frank Aarnink spila á.“

Sprengja upp hugmyndir

Í sögunni er mjög skýr stéttaskipting og Salvör segir að fyrir vikið hafi þau búið til sjónræna stéttaskiptingu í rými Kassa Þjóðleikhússins.

„Við gerðum það með því að snúa rýminu algjörlega við. Guðný er búin að gera tröppur yfir áhorfendabekkina og þar fer leikurinn fram, en áhorfendur eru niðri á sviðinu, þeir eru almúginn. Þar standa þeir og geta hreyft sig og virt fyrir sér frá mörgum sjónarhornum það sem fram fer í sýningunni. Áhorfendur eru alltaf fyrir neðan drottninguna, sem minnir kannski á skylmingaþrælana í hringleikahúsi fortíðar. Við ætlum semsagt að bjóða upp á óhefðbundna upplifun fyrir áhorfendur á því að njóta óperusýningar. Fólk þarf ekki að hafa þekkingu á óperusögu til að njóta þessarar sýningar, við erum að sprengja upp þær hugmyndir.

Við förum líka óhefðbundna leið með því að láta sópransöngkonuna Herdísi Önnu Jónasdóttur túlka allar þrjár persónur óperunnar. Hún syngur öll hlutverkin, enda er hún rosalega fær í því sem hún er að gera og algjör draumur að vinna með henni. Við leysum hennar hlutverkaskipti á ýmsan óvæntan hátt, en líta má á hlutverkin hennar þrjú sem þrjá mismunandi einleiki. Herdís tekur þrjár persónur léttilega í nefið á þeim tæpa klukkutíma sem tekur að sýna og syngja óperuna.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir