Hnupl Tjón vegna þjófnaðar í verslunum hleypur á milljörðum.
Hnupl Tjón vegna þjófnaðar í verslunum hleypur á milljörðum. — Morgunblaðið/Eggert
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer í 700-800 útköll ári vegna þjófnaðar í verslunum ef skoðaðar eru skráningar í kerfi lögreglunnar frá 2018. Á síðasta ári voru tilfellin heldur færri en árin á undan en þá voru 691 skipti þar sem óskað var eftir afskiptum lögreglu vegna þjófnaðar í verslunum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer í 700-800 útköll ári vegna þjófnaðar í verslunum ef skoðaðar eru skráningar í kerfi lögreglunnar frá 2018.

Á síðasta ári voru tilfellin heldur færri en árin á undan en þá voru 691 skipti þar sem óskað var eftir afskiptum lögreglu vegna þjófnaðar í verslunum.

Útköllin voru 868 árið 2019 og 864 árið 2021 sem er það mesta frá 2018. Það sem af er þessu ári eru útköllin 356 talsins.

Milljarðatjón

Þjófnaður í verslunum hérlendis hefur verið mjög til umfjöllunar síðustu mánuðina. Fram kom í viðtali við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra verslunar og þjónustu, hér í blaðinu 30. mars að tjón vegna þjófnaðar í verslunum á Íslandi, sem tengdist alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi, hlypi á 6-8 milljörðum króna á ári.

Fremur sjaldgæft er að öryggisverðir séu í verslunum á Íslandi. Viðmælendur blaðsins úr verslunargeiranum og lögreglunni segja að glæpahringir undirbúi sig vel og hnupli dýrustu vörunum þegar látið sé til skarar skríða.

Sem dæmi má nefna að þjófarnir fari út úr matvörubúðum með nautalundir og fleira verðmætt. Þótt vitni séu að því taka þjófarnir áhættuna og treysta því að vera á bak og burt þegar lögreglan bregst við útkallinu.

Viðmælendur blaðsins nefna einnig að þjófar fylgist með hvenær fámennt sé í starfsliðinu. Tökum verslun með útivistarfatnað sem dæmi. Þegar þeir sjá að einungis einn starfsmaður er á vaktinni í versluninni þá er einhver sendur inn til að halda athygli starfsmannsins. Á meðan geti aðrir úr glæpahringnum verið eldsnöggir að hnupla dýrum útivistarfatnaði.

91 númeraplötu stolið

Í stóru ráni í Hamraborg á dögunum notuðu þjófarnir stolnar númeraplötur. Tilkynnt hefur verið um 45 númeraplötur sem stolið hefur verið af bifreiðum hérlendis það sem af er árinu. Í fyrra var tilkynnt um þjófnað á 91 númeraplötu.

Höf.: Kristján Jónsson