Mike Gorman Rödd Boston Celtics í 43 ár.
Mike Gorman Rödd Boston Celtics í 43 ár. — AFP/Brian Fluharty
Úrslitakeppnin er hafin í NBA og liðin byrjuð að detta út eitt af öðru og önnur að mjakast yfir í næstu umferð. Í fyrrinótt lauk einnig ferli þular, sem lýst hefur leikjum Boston Celtics í 43 ár við það að liðið sló út Miami Heat

Karl Blöndal

Úrslitakeppnin er hafin í NBA og liðin byrjuð að detta út eitt af öðru og önnur að mjakast yfir í næstu umferð. Í fyrrinótt lauk einnig ferli þular, sem lýst hefur leikjum Boston Celtics í 43 ár við það að liðið sló út Miami Heat.

Mike Gorman byrjaði sem sagt að lýsa leikjum Celtics í sjónvarpi í upphafi níunda áratugarins þegar Larry Bird var að byrja að leiða liðið til afreka. Lengst af lýsti hann við hlið Toms Heinsohns, eins sigursælasta leikmanns Boston og um tíma þjálfara. Heinsohn hafði allt á hornum sér þegar liðið varð fyrir mótlæti, en Gorman var alltaf sama prúðmennið þótt ekki færi á milli mála með hverjum hann héldi.

Ég bjó í Boston í sjö ár og fylgdist allan þann tíma með leikjum Celtics. Það fylgdi því ekkert síður stemning að hlýða á rödd Gormans en að sjá liðið spila og heyra hann hrópa „Got it!“ þegar erfitt skot skilaði sér í körfuna.

Leikjaveitan League Pass býður upp á að fylgjast með öllum leikjum í NBA og að auki má velja á milli útsendinga eftir úti- og heimaleikjum. Þegar hún kom til sögunnar var hægt að taka upp þráðinn aftur og hlusta á lýsingar hins dagfarsprúða Gormans. Hann lýsti í síðasta sinn í fyrrinótt, en Celtics eru líklegir til frekari afreka í úrslitakeppninni þetta árið.

Höf.: Karl Blöndal