Kjarval Koma milljón ferðamenn til að skoða Fjallamjólk?
Kjarval Koma milljón ferðamenn til að skoða Fjallamjólk?
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víðsýni, umburðarlyndi og frjálslyndi vex með ferðalögum ef ekki leggjast á menn drykkjumannsórar flækings.

Vilhjálmur Bjarnason

„Við erum öll næturgestir í ókunnum stað. En það er yndislegt að hafa farið þessa ferð.“ Svo segir organistinn. Hann hefur nokkuð til síns máls. Flestir koma glaðir í bragði úr ferðalagi. Enda er ferðalag afþreying og á að vera til gleði.

Ferðaþjónusta er um margt lík víngerjun í ámu eða gerjun í sultukrukku. Útreikningar í gerjun og fjölgun ferðamanna byggjast á sömu aðferðafræði og útreikningar á helmingatíma geislavirkra efna og frásogstíma lyfja í líkamanum. Veldisvísaútreikningar með töluna e (grunntölu náttúrulegs lógaritma, Euler's number) lýsa best væntanlegri þróun ef um samfelldan vöxt er að ræða. Slíkir útreikningar henta vel við spádóma í ferðaþjónustu.

23 ára gömul spá

Árið 2001, eða fyrir 23 árum, var starfsmaður Þjóðhagstofnunar beðinn að svara spurningunni hvenær ferðamenn á Íslandi yrðu 1.000.000.

Árinu áður hafði fjöldi ferðamanna verið meiri en fólksfjöldi í landinu.

Árið 2001 byrjaði með svipaðri þróun og árið 2000, þokkalegri fjölgun ferðamanna, en í maí virtist sem samdráttur hefði hafist í greininni.

Eftir maí fylgdi 11. september. Ekki var sýnilegur samdráttur eftir 11. september, umfram þann samdrátt sem hófst í maí fyrr á árinu.

En hver var spáin? Spá starfsmannsins var sú að ferðamönnum á Íslandi myndi fjölga um 8% á ári og þeir yrðu ein milljón í lok spátímabilsins árið 2016. Spá alþjóðaferðamálaráðsins, ITO, var að ferðamönnum í heiminum myndi fjölga um 4,3% á ári á komandi árum og flugvélaframleiðendur voru með svipaðar spár. Spá um 8% árlega aukningu miðaðist því við að fjölgun ferðamanna á Íslandi yrði ávallt vel umfram fjölgun annars staðar í heiminum.

Í raun varð fjöldi ferðamanna ein milljón árið 2014. Það er mjög líklegt að náttúruhamfarir í Eyjafjallajökli hafi haft þau áhrif að ofurvöxtur hljóp í greinina. Tveimur árum síðar, árið 2016, var fjöldi ferðamanna á Íslandi kominn í 1,8 milljónir.

Spámaðurinn hjá Þjóðhagsstofnun sá ekki fyrir eldgos í Eyjafjallajökli, en ósagt skal látið hvort hrun fjármálakerfis á Íslandi hafi haft áhrif á komu ferðamanna.

Hverju spáir starfsmaðurinn núna?

Spámenn setja sig í stellingar þegar um er beðið. Nú er spámaðurinn beðinn að spá fyrir um fjölda ferðamanna á Íslandi árið 2040. Spátímabilið er sem næst jafn langt og fyrir 23 árum. Spámaðurinn telur að ferðamenn á Íslandi verði sem næst 5,5 milljónir árið 2040. Það er um tvöfaldur sá fjöldi sem kemur í Louvre-safnið í París til að skoða Mónu Lísu.

Er hægt að fá eina milljón ferðamanna til að skoða „Fjallamjólk“ eftir Kjarval? Eru til þeir útlendingar sem eiga þá ósk heitasta að sjá „Fjallamjólk“ og geta síðan dáið?

Hagspádómar byggjast ekki á kristal. Miklu fremur á því að lesa í aðstæður, hvernig mun ferðamaður framtíðarinnar líta út?

Ferðamaður framtíðarinnar á Íslandi verður á eftirlaunum, með þokkalegan lífeyri.

Ferðamaðurinn á Íslandi verður viðskiptamaður eða ráðstefnugestur, velmegandi, sem borgar ekki sjálfur sinn kostnað.

Forsendan fyrir ráðstefnugestinum er góð aðstaða til ráðstefnuhalds og öflugt vísindasamfélag.

Ferðamaður framtíðarinnar kemur í auknum mæli frá Asíu. Velmegandi Asíubúar verða sennilega fleiri en velmegandi Evrópubúar eftir 16 ár.

Þessir velmegandi Asíubúar munu senda börn sín til mennta í Evrópu. Þau börn ferðast í skólafríum, á lágönn ferðaþjónustunnar. Foreldrarnir borga reikninginn.

Og hvað þarf til?

Spámaðurinn hefur aldrei litið á aukinn fiskafla sem vandamál. Aukinn fiskafli er tækifæri til verðmætasköpunar. Til þess að skapa verðmæti þarf aðstöðu.

Aðstöðu og innviðum svipar að mörgu leyti til þeirrar aðstöðu sem heimamenn þurfa. Heimamenn ferðast líka og þurfa flugstöð og flugvélar. Heimamaðurinn þarf akvegi og götur og önnur samgöngumannvirki. Með 5,5 milljónum ferðamanna má reikna með um 60 þúsund ferðamönnum í landinu hverju sinni.

Þeir ferðamenn borða ekki heima hjá sér. Til að brauðfæða þá þarf veitingahús.

Það er alls ekki víst að erlendir ferðamenn borði lambakjöt, en ef hver ferðamaður hefur efni á að borða eina máltíð af lambakjöti í heimsókn sinn er neysla sem næst 1.000 tonn. Auðvitað koma erlendir ferðamenn til Íslands að borða fisk.

Til viðbótar við þau 11.000 hótelherbergi sem hér eru þarf sem næst 19.000 herbergi í viðbót. Það eru 95 hótel með 200 herbergjum.

Einhver þessara hótela verða að hafa góða ráðstefnuaðstöðu til að geta tekið á móti velmegandi og velborgandi ráðstefnugestum, sem borga fyrir veitta þjónustu. Það er grundvallaratriði að geta veitt þjónustu fyrir samkeppnishæft verð.

Til að flytja þessa ferðamenn til landsins, til viðbótar við þann fjölda sem nú kemur, þarf um 30 Airbus A321-flugvélar eða um 40 Boeing 737MAX-vélar. Það svarar til hugmynda um framtíðarflugflota Icelandair. Að auki má búast við að önnur flugfélög fljúgi með ferðamenn til Íslands. Nú kemur um helmingur allra erlendra ferðamanna til landsins með erlendum flugfélögum.

Hvers á ekki að spyrja?

Því miður er það svo að þær atvinnugreinar sem falla undir ferðaþjónustu hafa mestan áhuga á þjóðarhag, sem greinarnar varðar ekkert um. Þó er vert að láta þess getið að greinarnar vaxa frá því að vera tæplega 8% af landsframleiðslu í 14% af landsframleiðslu. Gjaldeyristekjur eru marklaus tala, því á móti tekjum koma útgjöld og litur á seðlum skiptir ekki máli fyrir atvinnugreinar.

Það eina sem atvinnugreinar varðar um er afkoman. Stjórnmálamenn eiga að láta sér annt um þjóðarhag en atvinnurekanda varðar um sinn hag, til að geta greitt mannsæmandi laun og haft arð af sínum atvinnurekstri.

Um ferðalög

Það verður vonandi sagt um þann sem ferðast: „Sá sem kemur aftur er annar en sá sem fór“ („partir, c'est tue un peu“).

Víðsýni, umburðarlyndi og frjálslyndi vex með ferðalögum ef ekki leggjast á menn drykkjumannsórar flækings.

Höfundur var alþingismaður og lektor í fjármálum.