Guðmundur H. Garðarsson fv. alþingismaður fæddist í Hafnarfirði 17. október 1928. Hann lést á Hjúkunarheimilinu Sóltúni aðfaranótt 18. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Garðar Svavar Gíslason kaupmaður og Matthildur Guðmundsdóttir húsmóðir.

Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1950 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1954. Hann stundaði framhaldsnám í hagfræði í Kiel í Þýskalandi 1954-1955. Var í námi í endurtryggingum hjá Lloyd's í London árið 1955 og nam markaðsfræði hjá International Marketing Institute við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum árið 1965.

Guðmundur var skrifstofustjóri hjá Iðnaðarmálastofnun Íslands 1955-1961, fulltrúi og ritari stjórnar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna árin 1961-1987 og sinnti síðar ýmsum sérverkefnum fyrir sama fyrirtæki. Hann vann lengi að verkalýðsmálum, var formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur 1957-1979 og sat í miðstjórn ASÍ 1966-1976.

Guðmundur var kjörinn á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík árið 1974 en hafði áður tekið sæti sem varaþingmaður. Hann var þingmaður allt til 1991 og kom í tvígang eftir það inn á þing sem varaþingmaður; í nóvember 1992 og nóvember 1994.

Hann átti lengi sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, bankaráði Verzlunarbanka Íslands og Íslandsbanka. Þá var hann í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna um árabil. Sat lengi í stjórn Fjárfestingarfélags Íslands, þar af formaður frá 1986 til 1992. Einnig var Guðmundur í stjórn Íslenskrar endurtryggingar, sat í tryggingaráði 1979-1983 og var fulltrúi í Þingmannasamtökum NATO. Þá var Guðmundur fyrsti formaður Varðbergs, félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu, við stofnun þess 1961.

Eiginkona Guðmundar var Ragnheiður Guðrún Ásgeirsdóttir læknaritari, f. 1931, d. 2008. Synir þeirra eru Guðmundur Ragnar, f. 1956, og Ragnar Hannes, f. 1969. Barnabörnin eru fjögur.

Útför Guðmundar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 3. maí 2024, klukkan 13.

Elsku frændi minn!

Mig langar að þakka þér í nokkrum fátæklegum orðum fyrir þær góðu samverustundir sem við áttum saman og þá sérstaklega eftir að þú fluttir á Sóltún.

Þú gladdist yfir hverri heimsókn, Matta mín, ert þú komin, mikið þakkaðir þú mér fyrir, eftir okkar ánægjulega spjall ásamt kaffisopa, köku og oft smá nammi.

Við töluðum oft um hvað þú hafir verið gæfusamur að komast í öruggt skjól sem Sóltún er og þá góðu umönnun sem þar er. Oft spurðir þú mig hvort mér fyndist vistarverur þínar ekki fínar, hér hefðir þú allt, skrifborð þitt, stóla, borð, skápa og ekki síst hvíldarstólinn góða. Umræðuefnið var oft myndirnar á veggjunum, myndir af fjölskyldu og samferðafólki úr pólitíkinni, margar mjög merkilegar, viðurkenningar eins og æðstu orðu Íslands og frá Þýska ríkinu. Hann sagði mér líka sögu myndanna sem voru oftar en ekki þakklætisgjafir fyrir vel unnin störf, og svo leyndist líka mynd sem hann málaði sjálfur, falleg mynd.

Oft fórum við yfir farinn veg, það sem betur hefði mátt fara og líka það skemmtilega. Við gátum hlegið saman en eitt vorum við mjög sammála um að Sjálfstæðisflokkurinn væri bestur þó við værum ekki alltaf ánægð með okkar menn.

Það var svo skrítið að sitja hjá þér eftir að þú skildir við þennan heim, mér fannst þú bara vera að leggja þig, það var gott að sjá og finna friðinn sem ríkti yfir þér en úrið á handlegg þínum hélt áfram að ganga.

Hvíldu í friði, elsku Mummi minn.

Þín frænka,

Matthildur.

Með Guðmundi H. Garðarssyni er genginn merkur maður sem setti sterkan svip á þjóðlífið hér á landi í áratugi. Hann gegndi mörgum ábyrgðarstörfum á langri ævi. Guðmundur var formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur í 22 ár, sat í miðstjórn ASÍ í áratug, var formaður eða varaformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna í 24 ár, átti sæti í bankaráðum um árabil og var alþingismaður í átta ár fyrir Sjálfstæðisflokkinn og gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Þá var Guðmundur stjórnandi hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í nær 30 ár. Ég kynntist Guðmundi vel þegar ég kom nýr inn í bankaráð Íslandsbanka árið 1997 en hann hafði þá átt sæti í bankaráðum allt frá árinu 1973 og var því hokinn af reynslu. Hann reyndist mér ákaflega vel þegar ég kom inn í stjórn þessa öfluga banka og ég naut þá góðs af reynslu hans og velvilja. Síðar átti ég eftir að kynnast Guðmundi á vettvangi Lífeyrissjóðs verslunarmanna en óhætt er að segja að hann hafi ásamt fleiri góðum mönnum lagt grunninn að því stórveldi sem sjóðurinn varð og er enn í vaxandi mæli.

Á þeim langa tíma sem Guðmundur H. Garðarsson var einn helsti forystumaður launþegahreyfingarinnar á Íslandi unnu hann og félagar hans af heilindum með fulltrúum vinnuveitenda og tókst þeim í sameiningu að koma mörgum framfaramálum í höfn með faglegu og öflugu starfi. Framlag hans og annarra sem komu þá að þessum málum á vettvangi vinnumarkaðarins verður seint fullþakkað. Með framsýni og heilindum lögðu þeir meðal annars grunn að því öfluga lífeyrissjóðakerfi landsmanna sem nú er kjölfesta í sparnaði þjóðarinnar.

Ég á einungis góðar minningar frá samstarfi mínu við Guðmund. Hann var hafsjór af fróðleik um atvinnulífið á Íslandi og þjóðlífið allt sem hann miðlaði óhikað til yngra fólks. Gott var að leita ráða hjá honum. Guðmundur H. Garðarsson var velviljaður og ráðhollur, sannur vinur og góður samstarfsmaður. Ég mun sakna hans þegar hann kveður nú í hárri elli eftir merkilegt og mikilvægt lífsstarf.

Nánustu ættingjum Guðmundar sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Guðmundar H. Garðarssonar.

Helgi Magnússon.

Í dag verður borinn til grafar Guðmundur H. Garðarsson fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem lést í hárri elli 95 ára.

Guðmundur sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1974-1978 og 1987-1991 og tók auk þess alloft sæti sem varaþingmaður á alls 18 löggjafarþingum. Við vorum ekki samtíða á þingi, en ekki fór hann fram hjá mér fremur en öðrum ungum sjálfstæðismönnum á sínum tíma.

Rökfastur stjórnmálamaður, baráttumaður fyrir frelsi einstaklingsins, verslunarfrelsi og ekki síst vestrænni samvinnu. Stjórnmálamaður sem lét hag launþega sig varða og fór fyrir hagsmunabaráttu þeirra. Bæði innan Sjálfstæðisflokksins sem og innan samtaka launþega. Ég var svo heppinn að kynnast Guðmundi vel og tókst með okkur góð vinátta.

Guðmundur var öflugur félagsmálamaður. Hann var prúður í framkomu en jafnframt fylginn sér. Hann starfaði að bættum kjörum launafólks sem formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur um langt árabil. Hann var fyrsti sjálfstæðismaðurinn sem tók sæti í miðstjórn ASÍ eftir að hafa ásamt öðrum lagt mikla baráttu í að VR yrði aðili að sambandinu. Guðmundur var einn þeirra brautryðjenda sem lögðu grunninn að Lífeyrissjóði verslunarmanna og uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins á Íslandi. Í hans formannstíð varð VR að einum öflugustu launþegasamtökum landsins. Guðmundur þekkti atvinnulífið vel og starfaði m.a. í um 40 ár hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Sú reynsla nýttist vel í hans störfum, hvort sem var á þingi eða í baráttu fyrir launafólk.

Auk þingmennsku var Guðmundur lengi virkur í grasrótarstarfi Sjálfstæðisflokksins. Hann sat um árabil í miðstjórn flokksins, var formaður Varðar – fulltrúaráðsins í Reykjavík og virkur á vettvangi Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, svo fátt eitt sé nefnt. Störf hans voru vel metin af samflokksmönnum hans og leituðu margir til hans um góð ráð.

Guðmundur var afar vel liðinn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Á Alþingi hafði hann forystu í umræðum um lífeyrismál og mikilvæg mál sem sneru að vinnumarkaðnum. Hann barðist einnig fyrir afnámi einokunar ríkisins á rekstri ljósvakamiðla og átti jafnframt töluverðan þátt í lausn landhelgisdeilunnar. Þá sat hann í þingmannasamtökum NATO og var fyrsti formaður Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál.

Guðmundur naut mikils trausts samferðafólks síns og var valinn til trúnaðarstarfa víða. Í störfum sínum kom hann mörgu í verk og var farsæll. Hann var einarður fylgismaður grunngilda Sjálfstæðisflokksins og lá ekki á liði sínu í baráttunni fyrir framgangi þeirra.

Skömmu eftir að ég tók fyrst þingsæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn, árið 2003, kom Guðmundur að máli við mig við Austurvöll mjög áhugasamur um þingstörfin og vildi leggja gott til málanna. Hann hvatti mig einnig til að gerast áskrifandi að The Sunday Times í Eymundsson í Austurstræti. Það væri gagnlegt til að fylgjast vel með straumum og stefnum í bresku þjóðlífi og á alþjóðavísu. Ég fylgdi þessum ráðum og mun ávallt hugsa til Guðmundar með hlýhug fyrir fjölmörg uppbyggileg samtöl og skemmtilegar sögur úr stjórnmála- og atvinnulífi síðustu aldar.

Fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins þakka ég Guðmundi gott ævistarf í þágu sjálfstæðisstefnunnar og votta fjölskyldu hans innilega samúð við fráfall hans.

Bjarni
Benediktsson.