Besta deildin
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Íslandsmeistarar Vals fóru illa með nýliða og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík þegar liðin áttust við í 3. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í gærkvöldi. Lauk leiknum með stórsigri Vals, 7:2.
Valur er því með fullt hús stiga, níu talsins, á toppi deildarinnar. Víkingur er í fimmta sæti með fjögur stig.
Það blés ekki byrlega fyrir Valskonum í upphafi leiks þar sem Hafdís Bára Höskuldsdóttir kom gestunum í forystu eftir aðeins 41 sekúndu leik.
Valur var hins vegar fljótur að jafna metin og raðaði í kjölfarið inn mörkunum. Þar á meðal komst varamaðurinn Nadía Atladóttir á blað með sínu fyrsta marki fyrir Val gegn sínum gömlu liðsfélögum, en hún kom frá Víkingi stuttu fyrir mót.
Amanda Andradóttir skoraði sitt fjórða deildarmark á tímabilinu og lagði upp tvö mörk til viðbótar. Er hún næstmarkahæst í deildinni. Jasmín Erla Ingadóttir skoraði tvívegis og er komin með þrjú mörk.
Hin 16 ára gamla Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði þá sitt fyrsta mark í efstu deild, en hún kom til Vals frá Haukum fyrir tímabilið.
Söndru halda engin bönd
Sandra María Jessen skoraði bæði mörk Þórs/KA í 2:1-sigri á Þrótti úr Reykjavík í Boganum á Akureyri.
Þór/KA er nú í þriðja sæti með sex stig. Þróttur er í áttunda sæti með eitt.
Sandra María er langmarkahæst í deildinni með sjö mörk í aðeins þremur leikjum og hefur raunar skorað öll mörk Þórs/KA á tímabilinu.
Nýliðar Fylkis fengu Keflavík í heimsókn í Árbæinn og unnu þægilegan sigur, 4:2. Fylkir er taplaust eftir fyrstu þrjá leikina og er í fjórða sæti deildarinnar með fimm stig. Keflavík er á botninum án stiga.
Fyrirliðinn Eva Rut Ásþórsdóttir skoraði tvívegis fyrir Fylki og er með þrjú mörk í deildinni.