Níels Viðar Hjaltason fæddist á Akureyri 25. janúar 1952. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 20. apríl 2024.
Foreldrar Níelsar voru Dagmar Straumberg Karlsdóttir, f. 17.7. 1914 á Ljósavatni í Ljósavatnshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu, d. 17.1. 1996, og Hjalti Eymann, f. 21.8. 1918 á Rútsstöðum í Öngulsstaðahreppi í Eyjafirði, d. 6.7. 2014.
Hálfsystir Níelsar var Guðný Straumberg Sigurðardóttir, f. 10.11. 1933 á Akureyri, d. 1.12. 2013. Eiginmaður hennar var Björn Þórhallsson, f. 7.10. 1930, d. 25.12. 2007. Börn þeirra eru Þórhallur, f. 6.12. 1953, og Karl, f. 26.4. 1957.
Börn Níelsar og fyrrverandi eiginkonu hans, Lene Hjaltason, eru: 1) Lilja, f. 20.3. 1976, gift Guðmundi Kristni Birgissyni.
Börn þeirra eru Sara, Eva, Unnur og Jakob. 2) Úlf Viðar, f. 11.4. 1979, giftur Herdísi Steingrímsdóttur. Börn þeirra eru Edda Eymann og Sölvi Eymann.
Sambýliskona Níelsar var Natalía Nam Yin Chow. Börn hennar eru Guðný Hon Si Chow og Ósk Hoi Ning Chow.
Útför Níelsar fer fram frá Digraneskirkju í dag, 3. maí 2024, klukkan 13.
„Kalli minn, nú er ég ekki með góðar fréttir.“ Þannig hófst símtalið sem ég gleymi aldrei þegar Níels sagði mér að hann hefði greinst með illvígt krabbamein. Það vann hratt á honum og á ótrúlega skömmum tíma fjaraði máttur þessa kraftmikla náfrænda míns út. Níels var sannur vinur minn og uppeldisbróðir. Við ólumst saman upp á heimili foreldra minna í Eskihlíð í Reykjavík. Hann og amma Dagmar bjuggu með okkur öll mín æskuár, en Níels var hálfbróðir mömmu. Síðar fluttu þau í nýbyggða íbúð á Háaleitisbraut sem amma hafði fest kaup á. Hún var einstæð móðir og vann sem verkakona alla sína starfsævi. Það var sjaldnast úr miklu að spila. Sú aðhaldssemi og hagsýni sem því fylgdi markaði hugsunarhátt Níelsar alla hans ævi. Hann var ávallt mjög nægjusamur og sparsamur gagnvart sjálfum sér. Á hinn bóginn var hann afskaplega gjafmildur gagnvart öðrum og þá sérstaklega börnunum í fjölskyldunni. Auk þess að lauma reglulega að þeim vasapeningum gaf hann þeim alltaf vandaðar gjafir þegar merkisdagar voru í lífi þeirra. Öll elskuðum við Níels. Hann lagði sig fram við að leiða fjölskylduna saman. Hann hélt í áraraðir jólaboð þar sem skylda var að dansa í kringum jólatréð með börnunum og syngja jólalög. Jólatréð var skreytt með lifandi kertaljósum og gleði barnanna yfir ljósadýrðinni var ósvikin. Í áraraðir hélt Níels þorrablót fyrir fjölskyldu og vini. Þar svignuðu veisluborðin undan kræsingum frá SS. Níels var mikill höfðingi heim að sækja.
Níels vann alla sína starfsævi hjá Sláturfélagi Suðurlands, að undanskildum námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Níels var lærður kjötiðnaðarmaður, meistari í sínu fagi og nam matvælatækni í Danmörku. Hann starfaði sem gæðastjóri hjá SS við frábæran orðstír. Hann naut sín vel í starfi, var kröfuharður gangvart sjálfum sér og öðrum, vildi einungis það besta og sýndi vinnuveitanda sínum ævarandi hollustu og tryggð. Stundum fannst manni nóg um. Einu sinni datt mér í hug sú vitleysa að mati Níelsar að kaupa Goða-pylsur, sem ég hefði betur sleppt. Það voru mikil mistök, næstum ófyrirgefanleg að hans mati.
Níelsi féll sjaldan verk úr hendi. Ef hann var ekki að sinna starfi sínu var hann að framkvæma eitthvað. Byggja sumarbústað, sinna viðhaldi eigna eða að hjálpa örðum í framkvæmdum. Alltaf var hann boðinn og búinn að rétta hjálparhönd. Hann var drífandi og mjög hvetjandi ef einhver nákominn fékk hugmynd að einhverjum verkum. „Ég kem bara og hjálpa þér að gera þetta“ var viðkvæðið og svo benti hann á ýmsar leiðir til að gera hlutina á hagkvæman og skilvirkan hátt.
Við Kata, börnin okkar og barnabörn munum sakna Níelsar mikið. Við eigum þó allar góðu minningarnar um þennan yndislega mann. Þennan velviljaða, hlýja og frábæra einstakling sem einsetti sér í lífinu að gefa fremur en þiggja. Við vottum Lilju, Úlf og fjölskyldum þeirra og Natalíu og dætrum hennar innilega samúð. Við vitum að ljúfar minningar um Níels munu ylja okkur það sem eftir er. Fyrir það erum við þakklát.
Karl Björnsson.
Ég kveð kæran vin, sem fallinn er frá eftir tæplega tveggja ára baráttu við erfiðan sjúkdóm.
Ég þekkti Níels vel, þar sem við vorum kærustupar í tíu ár. Við höfðum reyndar vitað hvort af öðru frá því við vorum börn, því systir hans Dídí var gift náfrænda mínum Birni, sem var mikill vinur pabba. Svo vorum við Níels jafnaldrar í sama barnaskóla. Þótt okkur hafi ekki auðnast lengri tími saman slitnaði aldrei upp úr vináttunni. Eftir sem áður lét hann sér annt um foreldra mína þangað til þau féllu frá. Um svipað leyti og við hættum saman fékk mágur minn heilablóðfall og hafði Níels alltaf reglulega samband við hann og heimsótti heim og síðar á Droplaugarstaði eftir að hann var kominn þangað.
Níels var deildarstjóri gæðaeftirlits hjá SS. Hann sinnti því starfi af alúð. Ekki aðeins á vinnutíma heldur líka utan vinnu. Hvenær sem við fórum í matvörubúðir hvort sem var í höfuðborginni eða úti á landi var alltaf litið í kælinn og fylgst með að allt væri í lagi með SS-vörur og þær á réttum stað. Um tíma var hann formaður Meistarafélags kjötiðnaðarmanna. Hann tók þátt í fagkeppnum bæði hérlendis og erlendis og hlaut verðlaun.
En gæðin voru ekki bara í vinnunni. Hann var mikill fagurkeri og smekkmaður og vildi hafa flott í kringum sig, enda bar heimili hans vott um það. Þar var gæðastuðullinn hár. Hann vildi gegnheil húsgögn og fagra skrautmuni. Þegar við fórum eitt sinn til Prag sá hann þessa fínu rauðu kristallsljósakrónu, keypti hana í snarheitum og bar svo þennan stóra og þunga kassa léttilega heim á hótel og var mjög ánægður. Það var svo heilmikið púsl og tók langan tíma að koma henni saman, en það tókst og er hún glæsileg í borðstofunni hans.
Það er margt hægt að segja um Níels. Hann var sterkur, stórhuga, útsjónarsamur, handlaginn og boðinn og búinn að aðstoða aðra. Hann hafði gaman af að ferðast bæði innanlands og utan. Við fórum saman til nokkurra stórborga, en innanlands er eftirminnilegust ferðin þar sem við heimsóttum ættarslóðir föður hans í Skagafirði og síðan ættarslóðir foreldra minna í Þingeyjarsýslu.
Honum þótti gaman að dansa og syngja. Þegar hann frétti að í kórnum mínum, Árnesingakórnum, væri skemmtikór fyrir maka kórfélaga vildi hann vera með í honum og var vel tekið. Eiríkur Guðnason fyrrverandi seðlabankastjóri stjórnaði kórnum, gerði nýja skemmtilega texta við ýmis lög og spilaði undir á gítar. Níels naut sín vel í þessum félagsskap og tróð þessi kór upp sem skemmtiatriði við ýmis tækifæri.
Hann hafði gaman af að halda veislur og lagði mikið upp úr að hafa allt sem höfðinglegast og þá ekkert til sparað. Hin árlegu þorrablót sem hann hélt fyrir nánustu vini og vandamenn verða lengi í minnum höfð. Hann var mikill fjölskyldumaður og börnin hans Lilja og Úlf áttu hug hans allan og svo barnabörnin þegar þau komu í heiminn.
Þegar við Laufey systir mín heimsóttum Níels á spítalann um páska var hann ákveðinn í að vinna bug á þessum vágesti sem hann var að berjast við. En því miður varð hann að lúta í lægra haldi allt of fljótt. Hann sem var svo lífsglaður og átti eftir að gera svo margt.
Elsku Lilja, Úlf, fjölskylda og vinir, mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Margrét Barðadóttir.