Það á ekki að velja mótorhjól út frá útlitinu einu saman. Unnar Már segir valið eiga að ráðast af því hvernig hjólið verður notað og hvort það fer vel um ökumanninn.
Það á ekki að velja mótorhjól út frá útlitinu einu saman. Unnar Már segir valið eiga að ráðast af því hvernig hjólið verður notað og hvort það fer vel um ökumanninn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar sólin tekur að hækka á lofti færist aukið líf í sýningarsalinn hjá Italis, umboðsaðila Ducati og Aprilia á Íslandi. Þar birtast forvitnir karlar og konur á öllum aldri, með fiðring í maga, blik í auga og draum um að spana inn í sumarið á fallegu mótorhjóli

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Þegar sólin tekur að hækka á lofti færist aukið líf í sýningarsalinn hjá Italis, umboðsaðila Ducati og Aprilia á Íslandi. Þar birtast forvitnir karlar og konur á öllum aldri, með fiðring í maga, blik í auga og draum um að spana inn í sumarið á fallegu mótorhjóli.

Unnar Már Magnússon er eigandi og framkvæmdastjóri Italis og segir hann að draumurinn um að aka mótorhjóli sé ekki eins fjarlægur og margir haldi. Þó er vissara að hafa nokkur góð ráð í huga þegar fólk stígur fyrstu skrefin.

„Mér sýnist sumir kvíða því að takast á við það verkefni að öðlast ökuréttindi fyrir mótorhjól, en vitaskuld er það grunnskilyrði að vera löglegur í umferðinni. Fólk má eiga von á því að námsefnið sé orðið meira krefjandi en það var fyrir 20 eða 30 árum og svo þarf að taka nokkra verklega tíma,“ segir Unnar Már og bætir við að kostnaðurinn við sjálft prófið þyki viðráðanlegur fyrir meðaltekjufólk.

Ekki byrja á dýru tryllitæki

En hvað á svo að gera með skírteinið í hendi? Hvers konar hjól á að kaupa og hvaða búnaður er ómissandi? Unnar Már segir það algeng mistök að fólk fari of djúpt í djúpu laugina þegar það kaupir sitt fyrsta mótorhjól og láti útlit og kraft ráða för frekar en notagildi og aksturseiginleika. „Þetta fólk situr uppi með allt of stórt mótorhjól sem erfitt er að stjórna, og gefur augaleið að það verður aldrei jafn ánægjulegt að aka um á mótorhjóli sem fólk er hálfhrætt við að nota – og ökumaður fær þá ekki sama tækifærið til að þjálfa upp aukna færni og þroskast sem eigandi bifhjóls.“

Frekar en að kaupa kraftmesta, dýrasta, stærsta og flottasta mótorhjólið strax á fyrsta degi segir Unnar Már ráðlegt að skoða frekar úrvalið af notuðum mótorhjólum. „Það má finna ógrynni af lítið notuðum mótorhjólum til sölu fyrir gott verð og gott að byrja í kringum 80 hestöfl. Þyngdin, frekar en hestaflafjöldinn, hefur samt meira að segja um hvernig mótorhjólið lætur að stjórn.“

Notað hjól og ekki of kraftmikið leyfir upprennandi mótorhjólahetjum að fara rólega af stað og öðlast smám saman þá færni sem þarf til að hafa góða stjórn á aflmeiri hjólum. Þá segir Unnar Már að óvanir ökumenn geti alltaf reiknað með minni háttar óhöppum og getur hræðslan við að rispa eða dælda nýtt og dýrt hjól litað ánægjuna af akstrinum. „Það er ekki þægileg tilfinning að vera á ökutæki sem maður er logandi hræddur við að rispa, og það að fá fyrstu rispuna á glampandi nýtt hjól er afskaplega vont.“

Er stefnan sett á malbik eða óbyggðir?

Við val á hjóli þarf líka að skoða hversu vel fer um fólk þegar það hefur komið sér fyrir á hnakknum. „Ásetan getur verið mjög breytileg á milli mótorhjóla og það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum. Sumum finnst þægilegast að vera á hjóli þar sem þeir sitja beinir og uppréttir en aðrir kjósa sporthjól þar sem ökumaður þarf að halla sér fram á við. Veit ég um menn með vandræði í baki sem líður betur á sporthjólunum því að minni þungi er á hryggnum, á meðan aðrir eru með bak sem þolir það illa að þeir halli sér fram á við í langan tíma.“

Vitaskuld þarf hjólið líka að hæfa þeirri notkun sem fólk hefur í huga. Þeir sem sjá það fyrir sér að vera á fleygiferð á rennisléttu malbiki ættu að skoða sportlegustu hjólin á meðan þeir sem vilja klöngrast um torfæra slóða uppi á hálendi þurfa ferðahjól og fjöðrun með góða slaglengd.

Að sögn Unnars Más hefur áhugi Íslendinga á ferðahjólum einmitt aukist mikið á undanförnum árum. „Fólk hefur uppgötvað hve gaman það er að skoða landið á stóru ferðahjóli, ferðast um óbyggðir og utan alfaraleiðar. Einnig sjáum við vöxt í vinsældum mótorhjólaferða erlendis, oft um framandi slóðir, og upplifunin allt önnur á mótorhjóli en inni í lokuðum bíl eða rútu.“

Þegar fólk hefur öðlast meiri ökureynslu og lætur verða af því að kaupa splunkunýtt mótorhjól segir Unnar að gera megi ráð fyrir nokkurra mánaða afhendingartíma frá framleiðanda. „Hjá Italis pöntum við inn nokkur hjól ár hvert og reynum að sjá fyrir hvað er líklegt til að seljast, en annars er biðtíminn eftir nýju hjóli frá Ducati í kringum sjö mánuðir, en biðin styttri eftir Aprilia.“

Vitanlega vilja kaupendur vanda valið og bendir Unnar Már á að framleiðendurnir bjóði upp á mjög áhugaverða prufuaksturspakka erlendis og ógalið að gera sér ferð suður til Ítalíu til að finna hið eina sanna draumahjól.

Hjálmurinn á að vera þröngur

Valið á hlífðarfatnaði kallar líka á töluverða vandvirkni og rannsóknarvinnu og bendir Unnar Már á að það sé t.d. algengt að byrjendur átti sig ekki á hve þétt hjálmurinn þarf að umlykja höfuðið. „Fólk heldur oft að hjálmurinn eigi að sitja á höfðinu eins og hattur, og finnst agalegt að líta í spegil og sjá hvernig hjálmurinn ýtir kinnunum upp. En hlutverk hjálmsins er ekki að láta fólk líta vel út, heldur að verja það gegn meiðslum, og ef hann grípur ekki þétt um höfuðið þá þarf ekki að aka hratt til að hjálmurinn fari á fleygiferð og hreyfist upp, niður og til hliðanna sem er bæði óþægilegt og hættulegt.“

Jakkar og buxur verða líka að falla að lögun líkamans og segir Unnar Már að stundum geti það verið hægara sagt en gert fyrir Íslendinga að finna rétta mótorhjólafatnaðinn enda vaxtarlag landans ekki það sama og hjá fólkinu sunnar í álfunni þar sem mörg fatamerkin eru með saumastofur sínar. Hefur Italis þann háttinn á að ef panta þarf mótorhjólafatnað erlendis frá er hann fenginn í nokkrum stærðum svo að viðskiptavinurinn geti betur fundið þá stærð sem smellpassar honum.

„Valið stendur einkum á milli leðurfatnaðar sem er kannski ekki sá hlýjasti og meðfærilegasti þegar skjótast þarf til vinafólks í kaffi; og Gore-Tex-fatnaðar sem þykir óþjálli í akstri og á það til að fanga vindinn,“ útskýrir Unnar Már. „Það heitasta í dag er hins vegar loftpúðafatnaður og er það eitthvað sem enginn ætti að vera án hvort heldur á mótorhjóli, á hestbaki eða á skíðum.“

Unnar Már segir loftpúðafatnaðinn geta kostað sitt, en tæknin á bak við þessar flíkur hefur tekið miklum framförum og eru þær búnar tölvubúnaði með högg- og hreyfiskynjara sem virkjar loftpúðann ef slys hendir. „Loftpúðinn veitir mikla vörn en þessar flíkur geta kostað um og yfir 100.000 kr.“

Lækka gjöldin á keppnishjól

Nýlega tók gildi breyting sem mun leiða til verulegrar lækkunar á verði keppnis-mótorhjóla og hefur skattlagningin verið færð í svipað form og þekkist víða erlendis. „Í dag bætist 30% vörugjald ofan á innflutningsverð mótorhjóls, auk virðisaukaskatts. Erlendis hefur því hins vegar lengi verið sýndur skilningur að sum hjól eru einungis notuð á keppnissvæðum og hægt að undanskilja þau gjöldum. Nú hafa íslensk yfirvöld samþykkt slíkt fyrirkomulag fyrir keppnismótorhjól sem flutt eru inn til landsins og hægt að fá vörugjöldin felld niður ef kaupandinn getur framvísað vottorði um að hann sé meðlimur í félagi sem heldur aksturskeppnir og að hjólið sé á lista Alþjóðasamtaka mótorhjólafólks, FIM, yfir keppnishjól,“ segir Unnar og bendir á að til dæmis séu öll Panigale-mótorhjól Ducati flokkuð sem keppnishjól. Þýða nýju reglurnar að kaupverð keppnishjóla ætti að lækka um hér um bil fimmtung.

Ekki er að fullu ljóst hvort leyfilegt verður að aka keppnsihjólunum til og frá keppnisstað en Unnar minnir á að þó að Panigale-hjólin séu hönnuð til notkunar bæði á keppnisbraut og í almennri umferð þá verði að gera á þeim ákveðnar breytingar áður en hægt er að taka þátt í keppni. „Í kappakstri gilda t.d. þær reglur að þau hjól sem eru notuð mega hvorki hafa ljós né spegla, svo að ef keppandi mætir til móts á mótorhjólinu þá þarf hann fyrst af öllu að líma yfir ljósin og fjarlægja speglana, og þá kannski allt eins gott að nota frekar kerru til að flytja hjólið á milli staða.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson