Hafin er bygging íbúðarhúss á lóðinni Seljavegur 1, gegnt nýja hótelinu í Héðinshúsinu. Íbúar við Vesturgötu mótmæltu byggingunni þegar áformin voru kynnt en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Lóðin Seljavegur 1 er þríhyrningslaga og án efa með allra minnstu lóðum í höfuðborginni. Haustið 2022 samþykktu borgaryfirvöld breytingu á deiliskipulagi Nýlendureits vegna lóðarinnar.
Í breytingunni fólst að heimilt yrði að byggja tveggja hæða 240 fermetra hús með þremur smáíbúðum og útisvæðum á þaki ásamt því að setja eitt yfirbyggt bílastæði á norðurhluta lóðar við Nýlendugötu. Húsið er byggt úr forsteyptum einingum.
Íbúar í Vesturgötu 54a sendu inn athugasemdir þegar nýtt deiliskipulag var auglýst. „Útsýni úr íbúðum okkar er mjög fallegt út um gluggana á norðurhlið hússins, þar sjáum við út á Granda með Esjuna trónandi yfir og höfum við ekki áhuga á að skerða það neitt.“ Með nýju deiliskipulagi væri útsýnið alveg horfið.
Þá bentu íbúarnir á að viðstöðulaus umferðarteppa væri á Seljavegi, á kaflanum frá Vesturgötu að Mýrargötu. Við hótelið séu að staðaldri styttri og lengri langferðabifreiðar að hleypa fólki inn og út. sisi@mbl.is