Garðabær Gwendolyn Mummert úr Tindastóli sækir að Stjörnukonunni ungu Hrefnu Jónsdóttur í leik liðanna í Garðabænum í gærkvöldi.
Garðabær Gwendolyn Mummert úr Tindastóli sækir að Stjörnukonunni ungu Hrefnu Jónsdóttur í leik liðanna í Garðabænum í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Arnþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breiðablik fór upp í toppsæti Bestu deildar kvenna í fótbolta í gær með öruggum heimasigri á FH í grannaslag á Kópavogsvelli í 3. umferðinni. Urðu lokatölur 3:0. Breiðablik hefur skorað níu mörk í fyrstu þremur umferðunum og ekki enn fengið á sig mark

Besta deildin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Breiðablik fór upp í toppsæti Bestu deildar kvenna í fótbolta í gær með öruggum heimasigri á FH í grannaslag á Kópavogsvelli í 3. umferðinni. Urðu lokatölur 3:0. Breiðablik hefur skorað níu mörk í fyrstu þremur umferðunum og ekki enn fengið á sig mark.

Birta Georgsdóttir, sem lék áður með FH, skoraði gegn sínu gamla liði annað árið í röð. Hún kom Breiðabliki á bragðið á 35. mínútu með eina marki fyrri hálfleiks.

Vigdís Lilja Kristjánsdóttir gerði annað mark Breiðabliks á 61. mínútu og það þriðja á 87. mínútu. Hún hefur byrjað tímabilið afar vel og skorað fimm mörk í fyrstu þremur umferðunum. Aðeins Sandra María Jessen er með fleiri eða sjö.

Vigdís skoraði aðeins eitt mark á öllu síðasta tímabili og hefur vægast sagt tekið framförum á milli ára.

Eftir sigur í fyrstu umferð hefur FH nú fengið tvo skelli í röð en liðið tapaði fyrir Þór/KA í síðustu umferð, 4:0.

Skoraði sín fyrstu mörk

Þá er Tindastóll kominn á blað eftir útisigur á Stjörnunni, 2:0. Hin bandaríska Jordyn Rhodes gerði bæði mörk Skagfirðinga en mörkin voru þau fyrstu sem hún skorar á Íslandi. Liðin eru bæði með þrjú stig eftir leikina þrjá.

Uppskeran er vonbrigði fyrir Stjörnuna, en liðið hefur mætt nýliðum Víkings og svo Keflavík og Tindastóli sem ekki er spáð góðu gengi. Það var búist við fleiri stigum í Garðabænum eftir þessa þrjá leiki.

Sigurinn er sterkur fyrir Tindastól, sem átti oft í erfiðleikum á útivöllum á síðustu leiktíð. Skagfirðingar fá tækifæri til að bæta við stigum í næstu umferð er liðið mætir nýliðum Fylkis.

Stjarnan mætir toppliði Breiðabliks og er hætta á að liðið verði aðeins með þrjú stig eftir fjórar umferðir.