Samstarf Örn Almarsson, einn stofnenda Axelyf, og samstarfskona hans dr. Yan Xia við vinnu í Boston.
Samstarf Örn Almarsson, einn stofnenda Axelyf, og samstarfskona hans dr. Yan Xia við vinnu í Boston. — Morgunblaðið/Brynja Einarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska lyfjaþróunarfyrirtækið Axelyf hyggst hefja klínískar rannsóknir á nýju gigtarlyfi á fyrri hluta næsta árs. Lyfinu er meðal annars ætlað að draga úr bólgum en það verður unnið úr astaxanthíni sem framleitt er af Algalífi á Ásbrú

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Íslenska lyfjaþróunarfyrirtækið Axelyf hyggst hefja klínískar rannsóknir á nýju gigtarlyfi á fyrri hluta næsta árs. Lyfinu er meðal annars ætlað að draga úr bólgum en það verður unnið úr astaxanthíni sem framleitt er af Algalífi á Ásbrú.

Hjónin Örn Almarsson og Brynja Einarsdóttir stofnuðu ásamt frumkvöðli á Bretlandi, John Lucas, Axelyf ehf. og hófu rekstur í byrjun síðasta árs. Örn kom að þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni sem vísindamaður og deildarstjóri hjá Moderna. Hann segir rannsóknir á virkni astaxanthíns lofa góðu.

„Við erum komin með öflugan ráðgjafahóp. Með okkur í samstarfi er meðal annars hollenski gigtarlæknirinn Ronald van Vollenhoven en hann er deildarforseti í gigtarlækningum við Amsterdam-háskóla.

Starfaði hjá Moderna

Við erum líka búin að bæta við okkur starfsmanni hér í Ameríku, dr. Yan Xia, en hún starfaði með mér hjá Moderna,“ segir Örn í símaviðtali frá Boston.

„Við höfum jafnframt gert samning um kaup á efnasafni sem mun nýtast okkur í þróunarvinnu. Það tengist gervigreind og vélrænu námi. Síðan erum við með styrk frá Rannís til að rannsaka virkni sama astaxanthín-forlyfs á sóríasis. Við erum farin að halda, út frá virkni efnisins, að það gæti líka haft virkni á gigtarsjúkdóm sem tengist sóríasis (e. psoriatic arthritis).

Þannig að við erum að keyra þessi verkefni af krafti. Svo erum við í fjármögnunarferli af því að þetta kostar allt saman peninga. Við erum að sækja um styrki og að setja saman nýjan fjárfestahóp sem mun tryggja okkur starfsgrundvöll fram yfir mitt næsta ár.“

Hvernig meturðu áhættuna í þessum áföngum lyfjaþróunar?

„Almennt er rætt um að það séu vel innan við 10% líkur á að lyfjarannsóknarferli leiði til lyfjaskráningar hjá fyrirtækjum í lyfjaþróun. Þróunarhópar þurfa að komast yfir mörg flókin skref í byrjun, en það er auðvitað mikil áhætta. Á móti kemur að við álítum astaxanthín öruggt og hættulaust efni og forlyfið okkar er úr náttúrlegum efnivið. Við erum jafnframt mjög bjartsýn á virkni efnisins og ætlum að finna út hvar best er að nýta það. Við teljum því að líkur á árangri séu meiri en þetta meðaltal segir til um. Van Vollenhoven og aðrir sérfræðingar sem við höfum leitað til telja gögn okkar um virkni forlyfsins í gigtarlíkani vera svo lofandi að við getum farið að hefja klínískar tilraunir. Við höfum fyrir framan okkur forklíníska vinnu sem er eingöngu til að sýna fram á öryggi okkar nýju efnasamsetningar, en það er sem sagt tímabært að skoða virknina í fólki.“

Margir möguleikar

Örn útskýrir svo að Axelyf einbeiti sér að þróun bólgueyðandi lyfja og lyfja við sjálfsofnæmissjúkdómum. Við þær rannsóknir sé fyrirtækið nýbyrjað að rannsaka RNA-efni en þau séu mjög lofandi og bjóði upp á mýmarga möguleika til nýtingar.

„Vandamálið er að efnasamsetningin sem notuð er til að ferja RNA-efnin inn í frumur hefur oft og tíðum bólgumyndun í för með sér.

Þannig að við ætlum að takast á við þann vanda til að nýta RNA sem best á þessum sviðum, bólgum og sjálfsofnæmi, sem eru að verða okkar lyfjasvið. Það hentar okkur vel enda getum við unnið þessar rannsóknir í fjarvinnu með samstarfsaðilum víða um heim en við erum nú með samstarfsaðila á Englandi, í Írlandi, Kína og hér í Ameríku. Þar að auki getum við gert samstarfssamninga við stórfyrirtæki í lyfjaiðnaði sem gætu nýtt sér aðgang að tækninni okkar. Með því aukast möguleikar okkar til að koma að þróun lyfja,“ segir Örn.

Mikils að vænta

Fjallað var um notkun gervigreindar í lyfjaþróun í fréttaskýringarþættinum 60 Minutes. Sérfræðingar, meðal annars hjá Nvidia, voru þar teknir tali og virtust þeir mjög vongóðir um árangur.

Spurður um þessar væntingar segir Örn gervigreind að komast á það stig að vænta megi mikils við lyfjaþróun á næstu tíu árum.

„Undirstaða slíkra framfara eru góð og trúverðug gögn sem er safnað saman á þann hátt að það leyfi líkanagerð, nýjar tilraunir og stanslausa skoðun,“ segir Örn.