Hryllingur Ingi Sigþór Gunnarsson í hlutverki Baldurs og Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir í hlutverki Auðar.
Hryllingur Ingi Sigþór Gunnarsson í hlutverki Baldurs og Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir í hlutverki Auðar. — Ljósmynd/Gunnhildur Gísladóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjórða sýning á verkinu Litla hryllingsbúðin, í leikstjórn Valgeirs Skagfjörð, hefði átt að fara fram annað kvöld í félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki. Leikfélag Sauðárkróks var á dögunum nauðbeygt til að aflýsa frumsýningu á verkinu er fimm leikarar af 13 úr leikhópnum veiktust

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Fjórða sýning á verkinu Litla hryllingsbúðin, í leikstjórn Valgeirs Skagfjörð, hefði átt að fara fram annað kvöld í félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki. Leikfélag Sauðárkróks var á dögunum nauðbeygt til að aflýsa frumsýningu á verkinu er fimm leikarar af 13 úr leikhópnum veiktust. Vonir standa til að hægt verði að frumsýna í næstu viku. Tíu sýningar eru áætlaðar en bíóhús er einnig rekið í félagsheimilinu.

Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir formaður leikfélagsins segir rekstraraðila bíóhússins koma mikið til móts við leikfélagið og hann sé tilbúinn að hliðra til bíósýningum svo hægt sé að sýna verkið. Kveður hún leikfélagið mjög heppið með þann stuðning. Sigurlaug segir leikarana á batavegi en staðan sé tekin daglega. Nú skipti mestu að allir nái sér og enginn fari of snemma af stað.

Leikfélag Sauðárkróks er eitt elsta leikfélag landsins, stofnað í apríl árið 1888. Það starfaði í nokkur ár áður en starfsemin lagðist í dvala fram í janúar 1941. Félagið hefur verið starfrækt óslitið síðan. Þannig á það tvo afmælisdaga. „Við höldum að sjálfsögðu upp á þá báða,“ segir Sigurlaug og hlær. Leikfélagið setur upp tvær sýningar á ári. Barna- og fjölskyldusýningu á haustin en á Sæluviku á vorin er settur upp söngleikur, farsi eða gamanleikrit.

Miklir hæfileikar

Sigurlaug segir stóran hóp taka þátt í starfinu og mikla hæfileika innan hans. Þó sé alltaf pláss fyrir áhugasama, það þurfi að vera fólk í öllum stöðum svo allt gangi upp. Hin 18 ára gamla Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir leikur Auði í sýningunni en hún vann Söngkeppni framhaldsskólanna nýlega er hún söng lagið Aldrei, íslenska útgáfu af laginu Never Enough, úr kvikmyndinni The Greatest Showman. Hinn 23 ára gamli Ingi Sigþór Gunnarsson, sem leikur Baldur í sýningunni, snaraði textanum á íslensku.

Eitt æfingarennsli

Mikil eftirvænting er í leikhópnum. Sigurlaug segir æfingaferlið hafa gengið mjög vel og það sé mikil spenna meðal fólks. Hún hafi ekkert minnkað við strikið sem veikindin settu í reikninginn. „Við erum í raun og veru með tilbúið verk. Það var rétt að koma að frumsýningu þegar þetta gerðist. Þegar allir hafa náð heilsu þurfum við hugsanlega bara eitt æfingarennsli áður en við getum frumsýnt,“ segir Sigurlaug. Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast vel með en hægt er að hafa samband símleiðis við leikfélagið.

Höf.: Ólafur Pálsson