Sólveig Einarsdóttir
Sólveig Einarsdóttir
Í mínum huga ber Katrín höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur þótt allir hafi sitthvað til brunns að bera.

Sólveig Einarsdóttir

Það er ekki oft sem við Íslendingar sem búum erlendis höfum getað verið stolt af okkar leiðtogum en seinustu ár höfum við notið þess þar sem reglulega hafa birst jákvæðar fréttir um Katrínu Jakobsdóttur í fjölmiðlum heimsins og viðtöl við hana þar sem hún hefur komið vel fyrir sig orði.

Það er ekki sjálfgefið að leiðtogar ríkja séu heilsteyptar manneskjur sem jafnframt hafa mikla reynslu á leiksviði heimsins. Þrátt fyrir að hafa farið um heim allan og átt langar samræður við þjóðarleiðtoga eins og fyrrverandi Bretadrottningu og leiðtoga Bangladess þjáist Katrín ekki af sjálfumgleði eða hroka heldur er full af lífsgleði. Á fundum hernaðarbandalaga er gott að vita af einum friðarsinna sem ekki hleypur til og vill stofna íslenskan her eða taka hina árásargjörnustu afstöðu.

Katrín hefur háð marga glímu við pólitíska andstæðinga og samherja og er reynd í slíkum átökum. Þar hefur hún iðulega fengið sitt fram án þess að tilfinning manna hafi verið að allt iði í ófriði og sundrungu. Einmitt þess vegna treysti ég Katrínu til að halda vöku sinni og vera sterkur öryggisventill. Ísland er svo heppið að forseti er þjóðkjörinn en margar þjóðir láta þingið um slíkt. Einmitt þess vegna er gott að hafa forseta sem hlustar á aðra og vill tala máli þjóðarinnar en lítur ekki á embættið eingöngu sem færi til að koma að eigin málum.

Konur í leiðtogasæti verða oft fyrir óvæginni gagnrýni, jafnvel þó að þær standi sig prýðilega eins og Jacinda Ardern á Nýja-Sjálandi. Stundum er eins og Íslendingar hafi ekki alveg tekið eftir hversu vel Katrín hefur komið fyrir erlendis seinustu sjö árin og verið landi og þjóð til sóma. Í mínum huga ber hún höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur þótt allir hafi sitthvað til brunns að bera.

Höfundur er rithöfundur og kenndi við Vogaskóla og MS áður en hún flaug á braut og settist að í Ástralíu.

Höf.: Sólveig Einarsdóttir