Risaskip Norwegian Prima siglir inn Viðeyjarsundið í fyrrasumar.
Risaskip Norwegian Prima siglir inn Viðeyjarsundið í fyrrasumar. — Morgunblaðið/sisi
Skemmtiferðaskipið Norwegian Prima er væntanlegt til Reykjavíkur á morgun, sunnudag. Þetta verður fyrsta stopp sumarains en áætlað er að skipið komi átta sinnum í höfn í Reykjavík þetta sumarið. Norwegian Prima er með stærri skipum sem hingað koma, rúmlega 143 þúsund brúttótonn og 300 metra langt

Skemmtiferðaskipið Norwegian Prima er væntanlegt til Reykjavíkur á morgun, sunnudag. Þetta verður fyrsta stopp sumarains en áætlað er að skipið komi átta sinnum í höfn í Reykjavík þetta sumarið.

Norwegian Prima er með stærri skipum sem hingað koma, rúmlega 143 þúsund brúttótonn og 300 metra langt. Farþegafjöldi Norwegian er 3.348 og í áhöfn eru 1.500 manns.

Skipið lagði af stað frá Halifax í Kanada um síðustu helgi og er væntanlegt í Sundahöfn um kl. 14 á morgun.

Rannsóknarnefnd sjóslysa birti nýlega skýrslu um alvarlegt sjóatvik sem varð við Viðey 26. maí í fyrra.

Þegar Norwegian Prima var að láta úr höfn í miklum vindi misstu stjórnendur skipsins stjórn á því tímabundið. Í framhaldinu rak skipið yfir bauju og mesta mildi þykir að keðjur baujunnar hafi ekki farið í skrúfur þess.

Var þetta risaskip aðeins um tíu metra frá grynningum við Viðey þegar tókst að ná stjórn á því að nýju. Var það óskemmt og hélt sína leið. Rannsókn á atvikinu hófst að frumkvæði íslenskra yfirvalda.

Faxaflóahafnir hafi lækkað veðurviðmið sín eftir atvikið. Stór skemmtiferðaskip eru eins og margra hæða hús að taka á sig mikinn vind.

Að sögn Gísla Jóhanns Hallssonar yfirhafnsögumanns verður enginn sérstakur viðbúnaður vegna komu skipsins núna. Yfirmaður hjá útgerð skipsins hafi komið til landsins í fyrrasumar þar sem farið var rækilega yfir málið. Það eigi að tryggja að svona atburðir geti ekki gerst aftur. sisi@mbl.is