Klettakot við Drangsnes.
Klettakot við Drangsnes. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Öll breytumst við með árunum, gildisviðmið verða önnur og dómharkan á það einnig til að taka stakkaskiptum eða að menn bera hana betur.

Öll breytumst við með árunum, gildisviðmið verða önnur og dómharkan á það einnig til að taka stakkaskiptum eða að menn bera hana betur.

Bréfritari var á yngri árum ekki endilega í fremstu sveit og var eiginlega sama hvar var borið niður. Þó verður ekki sagt að það tæki verulega á hann. En fyrst dómharkan var nefnd til sögu má nefna að ungir drengir höfðu þá eins og nú heilbrigðan áhuga á fótbolta, þótt langt væri í að hægt væri að horfa á fyrirmyndir í sjónvarpi. Við, sem bjuggum í eystri hluta Barmahlíðar, sorteruðumst undir Knattspyrnufélagið Fram. En þeir í vestari hluta þeirrar götu og nær allir sem bjuggu sunnan við Mávahlíð, bæði ofan og neðan við Lönguhlíð, heyrðu til Valsara, og litu margir niður á þá fyrrnefndu og þóttu vera betri í fótbolta og búa við betri aðstöðu og nutu að auki blessunar sr. Friðriks, sem nokkrir bjálfar reyndu að gera ekkert úr, að ástæðulausu.

Árásin á sr. Friðrik

Bréfritari var hallur undir KFUM og er þakklátur fyrir að hafa kynnst sr. Friðriki vel, þótt hann væri vel við aldur þegar þau kynni hófust. Einhvern tímann verður árásin á sr. Friðrik afhjúpuð og bjálfarnir í borgarstjórn, sem tóku niður „standmynd“ hans, „sem steypt er í eir“ eins og Steinn lýsti mynd Jóns Sigurðssonar, og það út af getgátum eins manns, en ímyndunarafl hans fór loks í gang eftir tæp 75 ár. Uppátækið var gert til að selja bók, sem gekk þó ekki vel, að sögn. Þúsundir ungmenna, nú fyrir löngu fullveðja menn, könnuðust ekki við þetta tal.

Erlendis er þessi tegund af ofstæki, „WOKE“, nýtt um hegðun fólks, sem notar hvert tækifæri til að þykjast betra en annað fólk, og sönnunarmerkið að vera meira „politically correct“ en annað fólk og peningalausara. Í Ameríku eru nú standmyndir af afreksmönnum fyrir tugum eða hundruðum ára sprengdar í tætlur af WOKE, af því að einhver taldi styttuna stangast á við sjónarmið í núinu. Haft var til réttlætingar að viðkomandi hafi ekki verið fullkominn í öllum greinum.

Framvöllurinn og „ruslið“

Framvöllurinn var norðan við Sjómannaskólann og var grýtt í vestri hluta vallarsvæðisins en skárra austan við og þar voru æfingavellir og skipað í lið allt frá fyrsta flokki og niður í sjötta flokk. Hver flokkur var með bókstaf frá A til D og fékk æfingatíma samkvæmt því og þykir bréritara ólíklegt, þótt órannsakað sé, að „stéttaskipting“ hafi á þeirri tíð verið mikið verri annars staðar. En á þeim tíma þótti okkur sem vorum í „ruslinu“ það vera hluti af náttúrulögmálinu, og ljóst að þetta kynni að batna þar sem ekki gæti það versnað. Neðar en í 6.D „rusl“ gat enginn komist, og það ýtti undir jákvæða spennu. Og einatt var spennan mest þegar vantaði í 6.D svo að lykiltalan 11 næðist. Þá gekk þjálfarinn í átt að 6.D rusli og horfði um stund á „kappana“ og valdi 3-4 úr, eftir því sem mætingaskortur gaf tilefni til. Og okkur var flestum minnisstætt þegar þjálfarinn nálgaðist grýttan völlinn. Bréfritari tók aldrei svo stórstígum fótboltalegum framförum að þjálfarinn benti á hann, og einhverjir fleiri voru jafnstaðfastir í að yfirgefa ekki „ruslið“, sem ekkert hafði gert þeim. En það er aldrei að vita úr hvað átt upphefðin og afreksmerkin koma. Og í tilviki bréfritara var endurkoman stórt stökk í tilverunni og er ekki vitað um mikið lengra stökk, og það þótt víða sé leitað.

Stóra stökkið

Eða hver gat látið sér detta í hug að komast upp úr ruslinu með glæsibrag? Nokkrum vikum fyrr hafði bréfritari óvænt unnið 9. sætið af 15 í borgarstjórn Reykjavíkur. Ekki hafði viðkomandi fagnað því lengi þegar honum var sagt að hinn 17. júní yrði kappleikur í fótbolta og sá færi fram á Laugardalsvellinum sjálfum! Borgarfulltrúar Reykjavíkur myndu keppa við úrtak úr embættismannaliðinu. Bréfritara var brugðið og þótti illt í efni. Hann jafnaði sig, þegar hann gat horft til dýrðardaganna á vellinum sem var nógu góður fyrir ruslið. Bent var á að borgarfulltrúarnir væru 15 og 11 skyldu vera í hvoru liði og yrðu því fjórir að víkja úr liði hinna kjörnu. Þá rifjaðist ruslið upp. Þegar þjálfarinn skálmaði til að ná í þrjá til að fylla lið sitt þá hafði bréfritari alltaf sloppið. Rökin, sagan úr ruslinu, voru mín megin hugsaði bréfritari. En þá var tilkynnt að hvor hálfleikur yrði 15 mínútur og því myndi reyna á þol og úthald keppenda. Og þar sem bréfritari var yngstur borgarfulltrúa mætti ætla honum mest þol á vellinum. Engrar undankomu var auðið. Fyrirliði hinna kjörnu og sá sem var líklegastur til að auka sigurlíkur þeirra var auðvitað Albert Guðmundsson, einn besti knattspyrnumaður heims, að vísu um það bil er yngsti borgarfulltrúinn leit fyrst dagsins ljós. Leikskipulagið tók mið af þessum staðreyndum. Við, þessir níu í liðinu, myndum gera okkar ýtrasta til að ná boltanum og tækist það, að skjóta honum í átt að Albert Guðmundssyni. Albert var fastur punktur í leiknum og helsta von. Hann myndi vera svo sem í 20 metra fjarlægð frá vítateig andstæðinganna og bærist honum boltinn frá einhverjum okkar myndi hann leika á einn til tvo varnarmenn og nota til þess 2-4 metra og þruma svo boltanum í markið. Óverjandi. Óneitanlega var þetta ekki svo vitlaust leikskipulag. Bréfritari kom sér undan að svara spurningu um hver væri hans sterka hlið. Sannleikanum samkvæmt hefði hann getað svarað því að hann væri hinn eini af æfingafélögum hans sem nokkru sinni hefði verið kvaddur til leiks á grasvellinum í Laugardal. Mig minnir að lið embættismanna hafi unnið borgarfulltrúana 4-2 og áhorfendur hefðu verið um 12.000 og Baldur vallarstjóri sagðist aldrei hafa heyrt gestina hlæja jafn mikið í Laugardal, sem væri auðvitað frábært, bætti hann við, þegar hann sá svipinn á tapliðinu.

Allir með ættartölu

Það er þekkt að foreldrar, ömmur og afar vilja upplýsa afkvæmin um að þessir eða hinir séu frændur þeirra eða frænkur. Og eru þá að tala um 4., 5., 6., eða 7. lið. Og kalla þá helst til sögunnar þá sem hafa látið til sín taka með einhverjum hætti. Ungviðið hlustar kurteislega, en þetta tal er þeim þó fjarlægt og vekur ekki áhuga, sérstaklega ef viðkomandi er löngu horfinn af heimi. Það er núverandi eldri kynslóð til huggunar að innst inni brást hún við með áþekkum hætti. Bréfritari ólst, ásamt hálfbróður sínum, upp hjá mömmu og ömmu, sem héldu heimili saman. Mamman vann úti og stundum á fleiri en einum vinnustað. Þær náðu báðar háum aldri, móðirin varð 94 ára og amman 95. Þær voru báðar vel að sér, en amman þó með ólíkindum ættfróð og ekki síst um það fólk sem „var skylt eða tengt okkur“ með einhverjum hætti. Iðulega var langt til seilst. Við bræður hlustuðum gjarnan á þennan fróðleik, enda var ekki margan annan fróðleik að fá nema úr Morgunblaðinu og Ríkisútvarpinu. Og út frá þessu tali sofnuðum við.

Bréfritari bar út Morgunblaðið í Barmahlíðinni og þá fylgdi að seinni partinn varð maður að rukka fyrir blaðið í hverjum mánuði. Þá var húsbóndinn kominn heim eftir langan dag og voru móttökurnar misjafnar. „Af hverju kemurðu alltaf í kvöldmatnum?“ „Getur þú ekki komið 15 mínútum síðar eða svo.“ „Af hverju kemurðu jafnan þegar framhaldssagan er, sem þú veist að allir husta á?“ Nú var það auðvitað svo, að það voru 56 húsnúmer við Barmahlíð. Og tvö eða jafnvel þrjú heimili heyrandi hverju húsnúmeri. Það gátu auðveldlega farið 10 mínútur í hvert húsnúmer. Og það voru ýmsir fastakúnnar sem heimtuðu að maður kæmi á betri tíma, voru ekki heima eða þóttust ekki vera heima. Og þegar maður var loks búinn að kría út þetta lítilræði varð maður að hjóla niður í höfuðstöðvar Moggans í Aðalstræti 6 og þar fór gjaldkerinn yfir niðurstöðuna. Og stundum vantaði nokkra áskrifendur upp á að allir hefðu borgað gjaldið. Og þá var úr þeirri átt þrýst á blaðberann að knýja fastar á.

Og þá ætlar bréfritari að blanda þessum seinustu atriðum, ættfræðiáhuganum og blaðberaströgglinu. Bréfritari heimsótti föður sinn nokkuð reglulega og átti iðulega gott samtal við hann. Eitt sinn var verið að útlista erfiðleikana við uppgjörið við áskrifendur. „Hann Jóhann Briem frændi minn er í númer 16 í Barmahlíð. Ég er viss um að hann borgar strax það sem hann skuldar. Við Jóhann erum náskyldir. Við erum þremenningar og góðir vinir,“ sagði pabbi. „Þú ættir að segja honum að þið séuð náfrændur. Þá býður hann þér inn og gefur þeir mjólk eða kaffisopa og eitthvert góðgæti.“ Bréfritari sagði það góða hugmynd en bætti þó ekki við, að það væri ekki gott að setjast upp hjá einhverjum í hálftíma og hitta næst á bálreiðan mann, sem væri að hlusta á framhaldsleikritið.

Allmörgum árum síðar varð ferðalag fjölskyldunnar til þess að bréfritari var í Gaggó Vest. Þar kenndi Jóhann Briem myndlistarmaður teikningu. Sérstaklega er minnisstætt að hann hafði eitt sinn teiknað eins konar víking á töfluna, feiknavel, og nemendunum var ætlað að leggja út af myndinni með eigin teikningu eða líkja eftir henni ef ímyndunaraflið vantaði. Eftir svo sem 15 mínútur labbaði Jóhann á milli borða og horfði yfir öxlina á nemendunum. Skyndilega fann bréfritarinn að þar stóð hann. Hann horfði stundarkorn á þegjandi, en sagði loks: „Að hugsa sér! Að hugsa sér!“ Nemandinn leit upp til kennarans, en hann sagði eftir stundarkorn: „Að hugsa sér. Að hugsa sér, að maður eins og ég skuli kenna manni eins og yður.“ Daginn eftir bað bréfritari um að fá að tala við skólastjórann, Óskar Magnússon frá Tungunesi, og sagði honum atvikið og að hann gæti ekki látið þetta snillingsmenni, Jóhann Briem listmálara, eyða tíma í mann eins og mig. Óskar hugsaði sig vandlega um, en sagði svo: „Ég hef séð hvernig þú skrifar, svo ég hef enga ástæðu til að rengja þig.“ Faðir bréfritara spurði hann síðar, hvort hann hefði látið verða af því að heilsa upp á Jóhann listmálara og sagt honum frá því að „þið væruð nánir frændur“. „Ég tel óþarfa að hræra sverðinu dýpra í sárinu.“ Faðirinn vissi ekki hvað sonurinn meinti.