Spurt og svarað Halla Hrund Logadóttir svarar spurningum í Spursmálum og ræðir meðal annars feril sinn.
Spurt og svarað Halla Hrund Logadóttir svarar spurningum í Spursmálum og ræðir meðal annars feril sinn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi segist vilja stuðla að samstöðu meðal þjóðarinnar, nái hún kjöri þann 1. júní næstkomandi. „Ég held að fólk þyrsti í að við dálítið þéttum raðirnar. Það eru í raun ef þú hugsar um það, það eru þessi…

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi segist vilja stuðla að samstöðu meðal þjóðarinnar, nái hún kjöri þann 1. júní næstkomandi.

„Ég held að fólk þyrsti í að við dálítið þéttum raðirnar. Það eru í raun ef þú hugsar um það, það eru þessi gildi, samstaða og þátttaka, sem hafa komið okkur, hvort sem við lítum á orkumálin eða jafnréttismálin eða ungmennafélögin. Þetta eru allt verkefni sem hafa orðið til vegna þessara gilda. Og ég held núna, þegar við erum að horfa upp á breytingar í tækni, umhverfi og svo framvegis, að við verðum að sækja svolítið í þau aftur og hlúa að samfélaginu og sækja fram sömuleiðis,“ segir hún í upphafi Spursmála þar sem hún er nýjasti gesturinn.

Þegar hún er spurð út í hvenær hún hafi fyrst fengið þá hugmynd að bjóða sig fram til forseta og hvort hún hafi stefnt að þessu lengi svarar hún:

„Nei, ég hef ekki stefnt að þessu lengi en ég hef alltaf fengið þessa hugmynd af og til frá ólíkum hópum og ég veit ekki hvort þú fylgdist með því að það var gangnamannafélagið sem skoraði á mig í samlesnum auglýsingum. En það er lengra síðan, alveg síðan í haust, sem það hafa verið áskoranir og hvatning,“ segir Halla. Hún ítrekar þó að hún hafi ekki haft í hyggju að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta. Staðan hafi breyst þegar Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti að hann hygðist láta af embætti að loknu öðru kjörttímabili í embætti forseta.

Segir fjárskort valda seinagangi í leyfisveitingum

Gustað hefur um Höllu Hrund í embætti orkumálastjóra, sem hún tók við árið 2021. Hafa Samtök iðnaðarins m.a. lagt fram kvörtun til umboðsmanns alþingis og framkvæmdastjóri samtakanna hefur sakað hana um að hafa veitt ríkisstjórn landsins rangar upplýsingar þegar kom að mati á möguleikum þess að Ísland gæti náð kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Halla Hrund hafnar ásökunum af þessu tagi. Hún bendir á að fjárskortur og mannfæð á vettvangi Orkustofnunar sé m.a. ástæðan fyrir því að hægt hafi gengið við leyfisveitingar en að ferlið við útgáfu þeirra sé einnig flókið og og margar kæruheimildir á þeirri vegferð.

Þá hafnar hún því að hafa veitt ríkisstjórn rangar upplýsingar þegar leiðtogar meirihlutans ákváðu að færa metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi frá árinu 2050 og fram um heilan áratug.

Tjáir sig ekki um virkjanakosti

Þegar hún er spurð út í þann orkuskort sem orðinn er viðvarandi, m.a. á Vestfjörðum, segir hún mikilvægt að vinna bug á honum og að orkunýtingarkostir séu skoðaðir út frá þeim svæðum sem þeir geti þjónað. Þegar hún er spurð hvort hún sé fylgjandi virkjanakostum á borð við Hvalárvirkjun á Ströndum eða uppbyggingu vatnsaflsvirkjana í Vatnsfirði í Barðastrandarsýslu segist hún ekki vilja taka opinbera afstöðu til þeirra, ekki fari vel á því fyrir embættismann í þjónustu ríkisins.

Vinkonur úr Harvard

Í maí 2023 vakti talsverða athygli þegar Halla Hrund ferðaðist til Argentínu og undirritaði þar viljayfirlýsingu um samstarf milli Íslands og heimsóknarríkisins um uppbyggingu á sviði jarðvarma. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að þessi yfirlýsing hafi ekki verið á vitorði stjórnvalda hér á landi. Er Halla Hrund spurð út í þetta og viðurkennir í viðtalinu að hafa ekki borið málið undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Hún hafi hins vegar upplýst sendiráð Íslands í Washington, sem fer með málefni Argentínu, um fyrirætlun sína. Í viðtalinu upplýsir þáttarstjórnandi að ráðherra loftslagsmála í Argentínu er Cecilia Nicolini. Hún var samnemandi Höllu Hrundar í Harvard-háskóla 2016-2017 og útskrifaðist úr sama námi á sama tíma og orkumálastjórinn íslenski.

Heimildir Morgunblaðsins herma að ráðuneytisstjóri hafi veitt Höllu Hrund tiltal vegna viljayfirlýsingarinnar. Þegar gengið er á hana um hvort það sé rétt svarar hún ekki afdráttarlaust en segist eiga í reglulegum samskiptum og góðum við ráðuneytisstjóra.