Margrét Þórðardóttir fæddist á Lýtingsstöðum í Holtum 3. nóvember 1938.

Hún lést á hjúkrunarheimilinu Fossheimum á Selfossi 13. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Þórður Jónsson frá Lýtingsstöðum í Holtum, f. 30. maí 1901, d. 1941 og Helga Tryggvadóttir frá Kothvammi í Húnaþingi, f. 30. júlí 1904, d. 1985. Margrét var einkabarn.

Margrét giftist 8. júní 1957 eftirlifandi eiginmanni sínum, Guðna Guðmundssyni bónda, f. 19. desember 1933 á Þverlæk í Holtum. Foreldrar hans voru Guðmundur Kristinn Þorleifsson frá Þverlæk, f. 31. maí 1903, d. 1995, og Guðrún Guðnadóttir frá Hvammi í Holtum, f. 24. nóvember 1898, d. 1976.

Börn þeirra eru Þórður, Ásdís, Guðmundur Kristinn, Friðgerður Helga og Þröstur. Afkomendur þeirra eru 28.

Þegar Margrét var á þriðja ári deyr faðir hennar, um sama leyti dettur móðir hennar og handleggsbrotnar. Staða þeirra mæðgna er þá erfið og hvorki styrkir til ekkna né barnabætur. Systkini móður hennar bjóða þeim að koma norður. Voru þær fyrst í Grænahvammi og síðan í Kothvammi. Margrét sótti farskóla í Helguhvammi sjö og átta ára, fyrr en venja var. Margrét er á níunda ári er móðir hennar veikist. Þær flytja suður til systur Helgu á Hlébergi í Garðahreppi og gekk hún í skóla í Hafnarfirði. Helga verður síðan ráðskona í Þjóðólfshaga í Holtum. Margrét fer 12 ára, tvo vetur í heimavistarskóla á Skammbeinsstöðum. Þær flytja aftur að Lýtingsstöðum, þar bjó föðurbróðir hennar með Sigurleifu ömmu. Margrét fer tvo vetur í Skógaskóla og lýkur gagnfræðaprófi 1956. Hún flytur nýtrúlofuð til Guðna á Þverlæk, þar sem hennar beið ævistarfið. Móðir hennar flutti til þeirra og bjó hjá þeim meðan hún lifði. Guðni og Margrét bjuggu allan sinn búskap á Þverlæk. Margrét vann þar við hefðbundin húsmóður- og sveitastörf utan fyrsta veturinn, þá vann hún á skrifstofu Kaupfélags Rangæinga á Hvolsvelli.

Margrét tók alla tíð virkan þátt í félagsmálum og var fljót að taka á sig ábyrgð. Að hafa móður sína á heimilinu veitti henni visst frelsi til að sinna sínum hugðarefnum. En hún vildi vera sjálfstæð, sjálfs sín ráðandi og tók bílpróf 1967. Ung gekk hún í kvenfélagið Einingu, var gjaldkeri um árabil og gerð að heiðursfélaga árið 2022. Hún var ritari Sambands sunnlenskra kvenna, átti sæti í ritnefnd Ársrits SSK og 2013 valin kvenfélagskona ársins hjá SSK. Hún var í ITC Stjörnu í um 20 vetur.

Helsta áhugamál Margrétar var ræktun í víðasta skilningi þess orðs.

Hún kom sér fljótlega upp matjurtagarði og eignaðist gróðurhús. Hún fékk viðurkenningar bæði fyrir matjurtagarð og skrúðgarð.

Margrét gerist skógarbóndi 1999 með þátttöku í Suðurlandsskógum. Fór í endurmenntun í Garðyrkjuskólanum á Reykjum og útskrifaðist 2007. Hún var ein af stofnendum Félags skógarbænda á Suðurlandi, sat í stjórn í nokkur ár og síðar í stjórn Landssambands skógarbænda.

Margrét dvaldi á Fossheimum síðustu tvö árin er heilsubrestur vegna parkinson jókst jafnt og þétt.

Útför Margrétar fer fram frá Hagakirkju í Holtum í dag, 4. maí 2024, klukkan 14. Streymt verður frá athöfninni á:
https://promynd.is/margret

Í dag kveð ég Margréti tengdamóður mína en það eru tæp 40 ár síðan ég kom fyrst á Þverlæk og kynntist henni og stórfjölskyldunni. Inn á hennar heimili flyt ég síðan sumarið 1985 með dóttur okkar Kristins þá þriggja vikna og það voru góð kynni. Ári seinna urðum við Kristinn ein eftir í gamla bænum þegar hún og Guðni fluttu í nýja húsið.

En þessi fyrsti vetur var mjög eftirminnilegur því við Margrét kynntumst strax mjög vel. Hún stýrði heimilinu af mikilli festu, reglusemi og snyrtimennsku enda þurfti þess, heimilið var stórt og þröngt setið. Hún gerði mér strax ljóst að hún skildi vel hvernig það var að vera svona í sama húsi og eldri kynslóðir. Markaði það samskipti okkar strax í upphafi sem voru virðing og vinsemd sem héldust alla tíð síðan í samvinnu okkar í búskap og svo mörgu öðru, ætíð sýndi hún stuðning og hvatningu.

Vandvirkni einkenndi öll störf Margrétar. Hún vildi hafa fallegt í kringum sig úti sem inni, það var því ekki búið að ganga frá í eldhúsinu eftir hverja máltíð fyrr en dúkur var kominn á eldhúsborðið. Þá var farið út og hugað að gróðri og garðinum sem var mikil prýði. Ekkert óx henni í augum. Það var bara byrjað og svo nuddast áfram þar til verkið var búið og vel unnið. Hún byrjaði að gróðursetja nokkur tré og þegar yfir lauk var búið að planta í um 35 hektara. Nú ómar skógurinn af fuglasöng og við njótum skjólsins.

Með hlýhug og þakklæti fyrir samfylgdina,

Elín Guðjónsdóttir.

„Áttu kúlu?“ Þeir sem kunna að rækta og viðhalda góðum venjum vita að sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Reglulega bankaði ég upp á hjá ömmu niður frá og spurði hvort hún ætti kúlu. Amma átti keramikkrukku uppi í hillu inni í eldhúsi sem geymdi oft súkkulaðihúðaðar karamellukúlur, fékk ég oft eina, stundum tvær. Ef maður hafði sést óþarflega ört voru kúlurnar stundum búnar og fengust rúsínur. Einbirnið og ræktandinn hún amma kunni illa við tómið, hvorki í hendi né huga sér. Amma geymdi tómar krukkur til þess að fylla á þær og gefa frá sér og átti dagbækur sem voru hennar vinnsluminni. Hún fylgdist með öllu lifandi, farfuglum, afmælisdögum, eggjaframleiðslu, sláturfjölda og auðvitað skammarstrikum okkar við Þverlækinn. Vandvirkni og vöxtur var það sem hún vildi sjá og undi sér best við í þeim fasa.

Amma sáði fræjum árið um kring, fólkið og samfélagið var líka garðurinn hennar, frændsemin spíraði alltaf hjá ömmu. Ættarmótin sem amma tók þátt í að undirbúa voru uppskeruhátíðir fyrir augum mér sem gerðist skuggi hennar og þurfti að spyrja út í allt meðan amma lagði sig alla fram við þessa vinnu. Ættfræðina var ég svo allt í einu búin að læra.

Amma vissi það sem hugvísindanemar læra, að án sögunnar missir hefðin og hlutir sitt gildi. Því sögur voru sagðar á bak við það hvernig hlutirnir áorkuðust og æxluðust. Smáatriðin skiptu hana máli, tóku sinn tíma því utanumhald og yfirsýninni sleppti hún ekki. Þegar amma sagði frá voru það hennar fræ. Amma var alltaf að snyrta skóginn, bæta í bakka, leggja eitthvað inn á hjá manni, heyra hvernig gekk eða ráðleggja fyrir næstu tilraun. Eitt sinn var ég að afskrifa gróðurhúsadrauma mína á hlaðinu með öll litlu börnin, amma sagði þá: „Þú ert að rækta annað núna.“

Amma gerði slátur eins og aðrar húsmæður. Ekkert í frásögur færandi við það annað en að allt var eftir gamalli venju. Þannig hélst sagan lifandi. Þess vegna finnst mér eins og hún standi við hlið mér með lyktina af hreinsuðum vömbum. Sennilega fáir sem eru hrifnir af slíkum ilmi en amma skilur, hún skildi brotthætta stöðu menningararfsins. Gamall þjóðbúningur var geymdur í áratugi meðan hún sáði fræjum. Hún stuðlaði að því að ég eignaðist barnabúning og lánaði mér stundum sinn búning. Svo gaf hún mér búning móður sinnar svo úr urðu tveir á endanum eftir námskeið hjá HFÍ. Síðasta ferðin norður var brúðkaupið okkar Jóns, uppskar búningana með mér og heimsótti frændgarðinn.

Þegar veikindin höfðu ágerst spurði ég ömmu sem oftar í síma hvernig hún hefði það. „Ég hef það.“ Áttaði mig á tvennu, hún var hætt að sjá vorið eins og hún var vön en áfram var það því hún uppskar allt til enda. Ég hef haft þig sem ömmu niður frá og þess vegna skrítið að hugsa til þess að þú sért komin yfir í annan garð. Ég hef þig enn í því sem lifir áfram sem þinn arfur, í huga mér og höndum, með mína krukku af kúlum. Við afkomendur þínir stöndum eftir í skjóli þinna trjáa með fulla vasa af fræjum inn í framtíðina. Nú er það okkar að sá og sjá hvað spírar.

Þín

Berglind Kristinsdóttir.