Tónlist var samin við þögla mynd og tónleikar haldnir í kirkju í Rúmeníu.
Tónlist var samin við þögla mynd og tónleikar haldnir í kirkju í Rúmeníu. — Ljósmynd/Vakarcs Lorand
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mig langaði að fá einhvern með mér og hafði samband við Kæluna því mér fannst þær geta passað og það gæti komið eitthvað stórkostlegt út úr því.

Sólveig Matthildur í Kælunni Miklu bauð blaðamanni á notalegt kaffihús í Skipholtinu til að ræða um nýjustu plötu þeirra Kælukvenna og tónlistarmannsins Barða Jóhannssonar; oft nefndur Barði í Bang Gang. Platan, The Phantom Carriage, er samin við þögla mynd sem ber sama nafn en stendur að sjálfsögðu vel fyrir sínu án kvikmyndarinnar. Við Sólveig spjöllum um Kæluna Miklu og velgengnina á meðan við hinkrum eftir Barða, sem Sólveig grínast með að sé „rokkseinn“.

Túrað úti um allan heim

Í Kælunni Miklu eru auk Sólveigar þær Margrét Rósa og Laufey Soffía. Hljómsveitin hefur átt velgengni að fagna síðustu árin, haldið fjölda tónleika og gefið út plötur. Kælan er á leiðinni í enn eitt tónlistarferðalagið í júní, auk þess að vinna að nýrri plötu.

„Við gáfum út plötu 2021 sem var fjórða platan okkar, en við tókum hana upp með Barða í covid. Síðan þá höfum við farið á túra í Bandaríkjunum og Evrópu og spilað víða á tónlistarhátíðum. Við vorum líka að hita upp fyrir finnsku rokkstjörnuna Ville Valo og það tók fimm mánuði af okkar tíma í fyrra,“ segir Sólveig og segir upphafið að samstarfi þeirra Barða hafa sprottið úr gagnkvæmri virðingu fyrir tónlist hvort annars, en Laufey og Barði hittust fyrir tilviljum fyrir um sex árum og fóru að spjalla saman.

„Við gerðum lag saman þá sem heitir Nótt eftir nótt og kom út á samnefndri plötu frá 2018. Síðan höfum við unnið náið saman,“ segir Sólveig og segir að nýja platan, The Phantom Carriage, sé hugmynd Barða en hann hafi svo fengið þær með sér í verkið.

„Þarna erum við að gera tónlist fyrir gamla þögla mynd sem er yfir hundrað ára gömul.“

Eitthvað stórkostlegt kom út úr því

Barði er mættur til okkar í kaffið. Hann segist hafa heillast af tónlist Kælunnar Miklu þegar þær stigu fram á sjónarsviðið fyrir mörgum árum.

„Þær hafa einstakan hljóðheim. Sólveig er að mínu mati einn fremsti raftónlistarlagasmiður landsins og sér um syntahljóðheiminn. Maggý býr til ótrúlega fallegar bassalínur; einfaldar en einstakar. Laufey er með silkimjúka rödd og semur áhugaverðar laglínur, en kann svo líka að öskra mjög fallega,“ segir Barði.

„Þær hafa eitthvað einstakt, og ég var eiginlega hættur að pródúsera aðra nema það væri eitthvað alveg sérstakt,“ segir Barði sem pródúseraði eina af þeirra plötum áður en þau gerðu saman The Phantom Carriage.

„Ég hafði verið að spila bíótónleika í gegnum árin; fyrst Häxan sem byrjaði í Frakklandi en var svo flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands og svo leikið um allan heim. Ég var beðinn að gera aftur eitthvað svipað og gerði þá nýja tónleika við mynd sem hét Daughters of Darkness og var flutt í Rennes í Frakklandi. Í kjölfarið á því var mér boðið að vera með á Transilvania International Film Festival og þá kom upp sú hugmynd að gera músík við aðra þögla mynd. Mig langaði að fá einhvern með mér og hafði samband við Kæluna því mér fannst þær geta passað og það gæti komið eitthvað stórkostlegt út úr því,“ segir Barði.

Sólveig fær orðið:

„Og það kom eitthvað stórkostlegt út úr því!“

Hundrað prósent vampíra

„Okkur leist vel á þessa mynd,“ segir Barði og segir þau hafa spilað tónlistina undir myndinni á mjög sérstökum stað.

„Við spiluðum í kirkju á þessari Transilvaníu-kvikmyndahátíð í Rúmeníu. Myndinni var varpað á tjald í kirkjunni og þetta gekk svo vel að okkur langaði að gefa tónlistina út,“ segir Barði og þau útskýra að gamla þögla myndin fjalli um ökumann hestakerru sem mætir á gamlárskvöld til að sækja sálir þeirra látnu.

„Myndin er mjög flott gerð og alls kyns tæknibrellur þess tíma eru notaðar. Við notuðum svipaðar brellur þegar við gerðum myndband við eitt laganna okkar,“ segir Sólveig og segir að þessi drungalega og listræna mynd hafi verið fyrirmynd einhverra hryllingsmynda sem á eftir komu.

„Axaratriðið í The Shining er sótt til þessarar myndar,“ segir Barði.

„Myndin þætti ekki hryllileg í dag en þarna er allt öðruvísi hryllingur; um veikindi,“ segir Sólveig og Barði bætir við:

„Svolítið eins og við þekkjum frá covid; þannig stemning. Það er verið að smita fólk af berklum.“

Barði og Sólveig segjast hafa átt góðar stundir í Rúmeníu og eru sannfærð um að hafa hitt vampíru.

„Við vorum í Rúmeníu í rúma viku að æfa og sáum þar kastala Drakúla og kynntumst sögu Vlads stjaksetjara í gegnum bílstjóra sem keyrði okkur um í heilan dag. Við höldum að hann hafi verið vampíra,“ segir Barði.

„Þetta var mikið ævintýri og mjög skemmtilegt,“ segir Sólveig og í þeim töluðum orðum mætir Laufey á kaffihúsið, mjög „rokksein“, en nær að leggja orð í belg.

„Hann var hundrað prósent vampíra.“

Góð með eldgosum og vörðum

Spurð út í samstarfið segja þau það hafa gengið afar vel. Meginreglan að sögn Barða var að nota enga tónlist sem einhver í hópnum væri ósáttur við.

„Við erum búin að búa til samstarf til framtíðar,“ segir Sólveig.

„Við byrjuðum á því að horfa saman á myndina og punkta niður hvaða tilfinningar vöknuðu við hverja senu,“ segir Sólveig og segir þau til í að halda fleiri tónleika.

„Við værum til í að spila undir kvikmyndinni ef réttar aðstæður bjóðast, á kvikmyndahátíðum, listahátíðum eða í fallegri kirkju,“ segir Barði og segist sjá fyrir sér að hægt væri að útsetja verkið fyrir strengi eða jafnvel sinfóníuhljómsveit.

„Við getum spilað þetta fjögur og við getum útsett fyrir fleiri. Það eru miklir möguleikar til að halda áfram, til dæmis með kór eða klassískum hljóðfæraleikurum,“ segir Barði.

Laufey, Sólveig og Barði segja viðtökurnar við plötunni, sem er nýkomin út á vínil og Spotify, hafa verið mjög góðar.

„Einn vinur minn hlustaði á alla plötuna á meðan hann hlóð vörðu og sagði hana mjög góða til þess,“ segir Sólveig.

„Vinkona mín sagði tónlistina góða til að svæfa barnið sitt við,“ segir Laufey og Barði bætir við:

„Einn sagðist hafa hlustað á tónlistina og horft á eldgos í leiðinni. Þannig að tónlistin hentar vel til að hlaða vörður, horfa á eldgos og svæfa barn. Og allt þar á milli!“