„Ég hef alltaf verið hrifinn af þeirri hugmynd að listin sé fyrir alla,“ segir Kristinn.
„Ég hef alltaf verið hrifinn af þeirri hugmynd að listin sé fyrir alla,“ segir Kristinn. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég held að þessir sex listamenn með fötlun sem þarna sýna séu fulltrúar fyrir hóp sem er að fá meiri opinbera viðurkenningu og eigi rétt á að sýna á stað eins og þessum.

Á sýningunni Við sjáum óvænt abstrakt í Listasafni Íslands er teflt saman þremur hópum listamanna af ólíkum kynslóðum sem koma úr mismunandi áttum. Sýnd eru verk eftir hóp listamanna sem fram kom í kringum seinni heimsstyrjöld. Þá eru sýnd verk eftir fatlaða listamenn og í þriðja lagi eru sýnd verk annarra samtímalistamanna sem hafa hlotið formlega menntun á sviði myndlistar.

Sýningin er unnin í samvinnu við List án landamæra og sýningarstjóri er myndlistarmaðurinn og kennarinn Kristinn G. Harðarson en hann hefur lengi unnið með listamönnum með fötlun.

Spurður af hverju þessir þrír hópar séu leiddir þarna saman segir Kristinn: „List án landamæra hafði samband við Listasafn Íslands varðandi það að setja upp sýningu með aðkomu listamanna með fötlun. Þar var áhugi á því að tengja verk listamanna með fötlun við klassíska listamenn og verk úr safneigninni.

Mér hefur alltaf fundist íslensk myndlist afar lagskipt og hólfaskipt. Það koma nokkrir frumherjar og síðan abstraktkynslóðin og svo kemur hvert lagið á fætur öðru. Mig langaði til að taka abstrakthefðina og teygja á henni, bæði tímalega og í andlegum víddum. Mig langaði líka til að andmæla fyrirframgefinni hugmynd flestra um list þeirra sem eru með fötlun. Fólk sér nánast fyrir sér engla sem koma svífandi með pensilinn og mála glaðlegar myndir. Verk þessa hóps eru miklu fjölbreyttari en það. Þetta eru alls konar verk og listamennirnir læra og verða fyrir áhrifum eins og aðrir.“

Listin er fyrir alla

Spurður um gæði á sýningu þar sem þrír ólíkir hópar sýna saman segir Kristinn: „Hvað eru gæði? Alla síðustu öld hefur hin fagurfræðilega gæðahugmynd verið að taka heljarstökk og viðmiðin hafa breyst. Á einhverjum tímapunkti er búið að festa gæðaviðmið en svo kemur eitthvað og breytir því. Á síðustu árum hefur mikið verið hrært upp í hugmyndum um það hvað er gæði.

Þegar ég fór í gegnum myndlistarnám á sínum tíma þá var sama prógrammið fyrir alla, en í dag er búið að hræra upp í því hvað er list, hvað er góð myndlist og hvað gerir hana einhvers virði. Er það að geta balanserað rauða litinn á móti þeim græna eða að gera eitthvað skemmtilegt sem segir einhverjum eitthvað?

Ég hef alltaf verið hrifinn af þeirri hugmynd að listin sé fyrir alla og allir geti tekið þátt í henni. Mér finnst líka gaman að tengja saman hópa.“

Vonandi þáttaskil

Blaðamaður spyr Kristin hverju hann vilji að sýningin skili og hann segir: „Ég held og vona að þessi sýning sé ákveðin þáttaskil, að Listasafn Íslands sendi þau skilaboð til gesta sem koma inn í safnið: Sjáið þið, þetta er hluti af okkar menningu. Ég held að þessir sex listamenn með fötlun sem þarna sýna séu fulltrúar fyrir hóp sem er að fá meiri opinbera viðurkenningu og eigi rétt á að sýna á stað eins og þessum. Þetta eru listamenn sem vinna öðruvísi en nemendur í listaháskóla sem tengja sig við hefð og spá meðvitað í hlutina. Þeir eru að vinna að sínu og þróa það.“

Í þessu samhengi nefnir Kristinn alþýðulistamenn, eins og Ísleif Konráðsson. „Alþýðulistamenn og listamenn með fötlun eiga það sameiginlegt að tengja sig ekki hefðinni meðvitað. Það er langt síðan alþýðulistamenn komust inn í myndlistarhofið en listamenn með fötlun hafa ekki komist þangað.

Á sínum tíma kynnti Björn Th. Björnsson listfræðingur þjóðina fyrir Ísleifi Konráðssyni sem byrjaði að mála kominn á Hrafnistu. Hann var ekki menntaður í myndlist og ég efast um að hann hafi blandaði litina heldur bara málað það sem hann sá fyrir sér úr sveitinni í gamla daga. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur hefur haft mikinn áhuga á alþýðulistamönnum. Verk alþýðulistamanna hafa verið sýnd eins og verk þekktra listamanna á sýningum og söfnum en verk listamanna með fötlun hafa ekki fengið sömu athygli. Þau hafa þó verið mikið sýnd á vegum Listar án landamæra og ég er viss um að það hefur mikil áhrif á ungt listafólk. Akademískir listamenn hafa lengi sótt í jaðarinn. Það er þó líka á hinn veginn því fatlaðir listamenn verða líka fyrir áhrifum frá listháskólamenntuðum listamönnum.“

Listamenn á sýningunni

Anna Hrund Másdóttir

Arna Ýr Jónsdóttir

Ásgeir Ísak Kristjánsson

Ásmundur Stefánsson

Davíð Örn Halldórsson

Gerður Helgadóttir

Guðmunda Andrésdóttir

Haraldur Jónsson

Hjörleifur Sigurðsson

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir

Kolbeinn Jón Magnússon

Lára Lilja Gunnarsdóttir

Nína Tryggvadóttir

Páll Haukur Björnsson

Sigurður Reynir Ármannsson

Steinunn Önnudóttir

Svavar Guðnason

Þorvaldur Skúlason

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir