Bændur Ungir bændur á Mýrarleiti mældu frostið í jörðinni sem þeir ætla að fara að plægja, en þurfa að bíða.
Bændur Ungir bændur á Mýrarleiti mældu frostið í jörðinni sem þeir ætla að fara að plægja, en þurfa að bíða. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vorið er að koma. Vonandi verður það gott og gjöfult. Bændur bíða með óþreyju eftir að geta einbeitt sér að vorverkunum. Veðrið hefur ekki verið eins og best verður á kosið fram að þessu en nú er von um betri tíð

Úr bæjarlífinu

Atli Vigfússon

Laxamýri

Vorið er að koma. Vonandi verður það gott og gjöfult. Bændur bíða með óþreyju eftir að geta einbeitt sér að vorverkunum. Veðrið hefur ekki verið eins og best verður á kosið fram að þessu en nú er von um betri tíð. Kornbændur sjá fram á að sá í akrana einhverjum vikum seinna en venja er til. Kannski verður haustið gott þannig að uppskeran verði mikil. Allavega ætla nokkrir ungir bændur að sá korni í marga tugi hektara á Mýrarleiti rétt við Húsavík. Kornþurrkun á að rísa sunnan bæjarins í sumar. Þá verður stutt að keyra með kornið en vandamálið er að frostið er ekki enn farið úr jörðu og er klakahellan 20-25 cm. Þess vegna er ekki hægt að plægja að svo stöddu. Samt eru þeir brattir og bera sig vel.

Búnaðarsambandið hefur lýst yfir áhyggjum sínum af ástandi brúarinnar yfir Skjálfandafljót á þjóðvegi 85. Mikill kostnaður hefur hlotist af lokunum og má búast við því að sá kostnaður aukist ef ekki rætist úr. Ekki er að verða langt í níræðisafmæli brúarinnar, en hún er einbreið og burðarþol hennar er mjög takmarkað. Miðað við þá umferð sem er á svæðinu í dag er brúin barn síns tíma og löngu úrelt. Þykir með eindæmum hvað það hefur lengi dregist að byggja þarna nýja breiða brú sem þolir þungaflutninga. Gamla brúin er að hruni komin.

Huldulönd heitir áhugaverð sýning sem nú er uppi í Menningarmiðstöð Þingeyinga. Það eru þær Hólmfríður Bjartmarsdóttir vefari og Oddný E. Magnúsdóttir veflistakona, sem í áratugi hafa auðgað samfélagið með list sinni, sem þar sýna verk sín. Verk Hólmfríðar eru öll ofin eða saumuð í flóka og myndefnið er landið, vættir og goð. Verk Oddnýjar eru ofin, saumuð eða þæfð úr ull eða ullargarni og myndefnið tengist íslenskri náttúru. Margt fólk var samankomið við opnun sýningarinnar á dögunum.

Á kaffihúsinu Hérna á Húsavík er uppi önnur sýning með vatnslitamyndum úr safni Hafþórs Hreiðarssonar ljósmyndara. Hann er lesendum Morgunblaðsins vel kunnur, en áhugasvið hans er einkum bátar og þá hefur hann myndað frá því að hann var krakki. Svo byrjaði hann einnig með vatnsliti og hefur málað af kappi frá því í haust og sýningin er afraksturinn af því. Hann er með mörg járn í eldinum og fyrir utan að mála og mynda heldur hann úti vefsíðunni Skipamyndir.com, en þar getur að líta gríðarlega stórt safn skipamynda með áhugaverðum upplýsingum.

Kórastarf hefur verið blómlegt í vetur og margir enda vetrarstarfið með tónleikum. Karlakórinn Hreimur hélt vortónleika á dögunum í félagsheimilinu Ýdölum fyrir troðfullu húsi. Svo fór kórinn í ferðalag austur í Egilsstaði og sungið var í kirkjunni. Þar var þétt setinn bekkurinn. Þá var Söngfélagið Sálubót með vortónleika í Þorgeirskirkju á sumardaginn fyrsta og aðra tónleika í Borgarhólsskóla. Einsöngvarar þar voru Jónína Björt Gunnarsdóttir og Jónas Reynir Helgason. Kór eldri borgara á Húsavík stóð líka fyrir sínu og fór í söngveislu í Glerárkirkju til þess að fagna sumri með fleiri eldriborgarakórum af Norðurlandi. Var þar margt fólk og mikið klappað og mikið sungið.

Vorveiði er hafin í Laxá í Aðaldal en nokkrir bændur veiða silung á vorin áður en laxveiðin byrjar. Fréttir eru af góðri veiði og silungurinn er feitur og fallegur. Pétur Fornason, bóndi í Fornhaga, hefur gaman af því að veiða í soðið og hlakkar alltaf til vorsins. Hann er listasmiður og kann vel til verka þegar kemur að því að dytta að bátum. Nýlega lagaði hann einn Laxárpramma sem er orðinn 60 ára gamall og nú er sá farkostur næstum eins og nýr.

Gróandinn mun eitthvað láta bíða eftir sér þar sem jörð er kalin og köld eftir veturinn. En þegar sólin skín inn um gluggana skynja skepnurnar vorið og byrja að baula og jarma til þess að komast út á græn grös. Það er lítið að hafa enn sem komið er, en það verður fljótt að lagast ef hlýnar í alvöru. Þá gleðjast bændur og allur búfénaður.

Lóan er komin þótt snjórinn sé ekki farinn. Gæsirnar sátu lengi á sköflunum í apríl til þess að bíða eftir einhverju til þess að bíta. Allar nýræktir bænda hafa verið undir snjó til þessa en það er að lagast. Þá standa álftirnar í pollum og sötra. Mófuglar eru flestir komnir. Nema spóinn. Hann kemur oftast síðastur allra. Páll Ólafsson orti um spóann og sagði svo:

Þú ert fugla fjörugastur

að fljúga og syngja allan daginn,

og vitlauslega vanafastur

að vella einlægt sama braginn.

Höf.: Atli Vigfússon