Þýsk stjórnvöld sögðu í gær að tölvuárás sem gerð var á meðlimi Sósíaldemókrataflokksins í Þýskalandi á síðasta ári hefði verið framin af hakkarahópi sem stýrt væri af leyniþjónustu rússneska hersins, GRU

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Þýsk stjórnvöld sögðu í gær að tölvuárás sem gerð var á meðlimi Sósíaldemókrataflokksins í Þýskalandi á síðasta ári hefði verið framin af hakkarahópi sem stýrt væri af leyniþjónustu rússneska hersins, GRU.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði að niðurstöður rannsóknar sem gerð hefði verið á árásinni sýndu ótvírætt að hópur, sem nefndur er APT28, bæri ábyrgð á árásinni.

„Með öðrum orðum, þetta var tölvuárás á Þýskaland á vegum rússneskra stjórnvalda og þetta er algerlega óþolandi og mun hafa afleiðingar,“ sagði Baerbock á blaðamannafundi í Ástralíu þar sem hún er í opinberri heimsókn.

Fulltrúi rússneska sendiráðsins í Berlín var kallaður á fund þýska utanríkisráðuneytisins vegna málsins. Talsmaður ráðuneytisins sagði við blaðamenn í gær að árásin sýndi að Rússland væri raunveruleg og gríðarleg ógn við öryggi og frið í Evrópu. Rússneska sendiráðið sagði í yfirlýsingu í kjölfarið að ásakanir um að rússneskar ríkisstofnanir tengdust málinu væru órökstuddar og tilhæfulausar.

Nancy Faeser, innanríkisráðherra Þýskalands, sagði í gær að árásirnar hefðu verið skipulagðar af GRU og hafist árið 2022.

Tékkneska utanríkisráðuneytið sagði einnig í gær, að sami hópur hefði ítrekað gert tölvuárásir á tékkneskar stofnanir og nýtt sér áður óþekktan veikleika í Microsoft Outlook-póstkerfinu.

Bæði Atlantshafsbandalagið (NATO) og Evrópusambandið fordæmdu í gær það sem sagðar voru illgjarnar tölvuárásir á Þýskaland og Tékkland sem hefðu það markmið að grafa undan lýðræðislegum stofnunum, þjóðaröryggi og frjálsu samfélagi. Yrði öllum ráðum beitt til að mæta þessum árásum.

Fram kom í yfirlýsingunum að svipaðar árásir hefðu verið gerðar á fleiri aðildarríki NATO og Evrópusambandsins, þar á meðal Pólland, Litháen, Slóvakíu og Svíþjóð.