Listamaðurinn „Þessi aðferð að mála með stiftunum hefur mikil áhrif á það hvernig myndirnar líta út.“
Listamaðurinn „Þessi aðferð að mála með stiftunum hefur mikil áhrif á það hvernig myndirnar líta út.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skriður er yfirskrift sýningar Guðmundar Thoroddsen í Þulu galleríi í Marshallhúsinu en þar sýnir hann ný málverk. Verkin eru unnin á hörstriga með olíulit og olíustiftum sem Guðmundur blandar og býr til sjálfur

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Skriður er yfirskrift sýningar Guðmundar Thoroddsen í Þulu galleríi í Marshallhúsinu en þar sýnir hann ný málverk. Verkin eru unnin á hörstriga með olíulit og olíustiftum sem Guðmundur blandar og býr til sjálfur.

„Þessi nýi stíll þar sem ég geri tilraunir með olíustifti er um það bil ársgamall,“ segir Guðmundur. „Olíustifti fást ekki hér á landi og um tíma pantaði ég þau að utan. Síðan ákvað ég að reyna að búa til þessi stifti og nú er ég farinn að gera mestmegnis alla liti mína sjálfur.

Þessi aðferð að mála með stiftunum hefur mikil áhrif á það hvernig myndirnar líta út, áferðin verður sérstök og litirnir verða flatari. Svo er ég viss um að formin ráðast eitthvað af því hvernig ég vinn með stiftin.

Eftir að ég byrjaði á þessari aðferð hefur orðið breyting á litavali hjá mér. Ég er farinn að nota bjartari og hreinni liti, í og með jarðarlitum og gráu litunum sem ég hef alltaf notað.“

Myndirnar eru abstrakt en það má jafnvel greina í þeim landslag. „Það er gott fyrir mig að hafa landslag bak við eyrað þegar ég stend frammi fyrir tómum striganum,“ segir Guðmundur.

„Hugur minn virkar ekki þannig að ég geti bara byrjað á einhverju abstrakt, en um leið og ég hef í huga að myndefnið sé aðeins í áttina að landslagi þá er ég kominn með reglur til að fylgja. Þannig að þetta eru abstrakt verk með smá huglægu landslagi.“

Spurður um áhrifavalda í myndlistinni segir listamaðurinn: „Ég var lengi undir áhrifum sænska málarans Andreas Eriksson en var farinn að vera of fastur í þeim áhrifum þannig að ég sleit mig meðvitað frá þeim. Svo má nefna Philip Guston. Þau áhrif sjást kannski ekki mikið í myndunum en skila sér í litum og meðferð á málningu. Svavar Guðnason, Jóhann Briem og Kristján Davíðsson voru aðeins í huga mér meðan ég var að vinna þessi verk. Mér hefur þótt gaman að skoða þeirra meðferð á málningu.“

Guðmundur hefur haldið einkasýningar í Bandaríkjunum og Evrópu og tekið þátt í samsýningum. Hann sýnir nokkuð reglulega í Asya Geisberg gallery í New York, en hann er í hópi listamanna gallerísins. Næsta sýning hans þar verður í september. Fjallað hefur verið um verk hans í bandarískum fjölmiðlum. „Galleristinn í Asya Geisberg er mjög vel tengdur myndlistarsenunni í New York og sýningar gallerísins fá mikla umfjöllun og ég græði á því,“ segir Guðmundur. Verk hans verða svo til sýnis nú í maí á listamessu í Svíþjóð þar sem Þula gallerí verður meðal þátttakenda.