Siân Brooke í hlutverki Grace.
Siân Brooke í hlutverki Grace. — BBC One
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað gerir einstæð móðir, öfugum megin við fertugt, þegar hún þreytist á starfi sínu sem félagsráðgjafi? Hún gengur í lögregluna. Og það enga venjulega lögreglu. Við erum að tala um götulögregluna í Belfast, þar sem virðing fyrir blástökkum er takmörkuð, svo ekki sé fastar að orði kveðið

Hvað gerir einstæð móðir, öfugum megin við fertugt, þegar hún þreytist á starfi sínu sem félagsráðgjafi? Hún gengur í lögregluna. Og það enga venjulega lögreglu. Við erum að tala um götulögregluna í Belfast, þar sem virðing fyrir blástökkum er takmörkuð, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Við tekur tilraunatímabil, þar sem okkar kona þarf að sanna að hún eigi erindi um leið og hún lærir á lögmálin sem gilda þarna úti. Mun hún halda haus eða bogna og jafnvel brotna?

Þið ykkar sem lokið hafið við þættina sex af myndaflokknum Bláu ljósunum í Belfast eða Blue Lights á RÚV vitið auðvitað allt um það enda erum við hér að tala um hana Grace, burðarásinn í því þrautaspili. Við erum líka með Annie í aðlögunarprógramminu, sem hreinlega bregður á það ráð að fela það fyrir vinum sínum og kunningjum að hún sé gengin til liðs við lögregluna. Svo mikil er skömmin. Að ekki sé talað um Tommy sem virðist í fyrstu varla vita í hvorn fótinn hann á að stíga. Til allrar hamingju lítur reynsluboltinn Gerry til með honum. Ferskur maður sem kallar ekki allt ömmu sína.

Verkefnin eru misjöfn, allt frá því að skutla umrenningum í skjól yfir í vopnuð átök enda er ekki annað að sjá en að laganna verðir séu í heljargreipum glæpaklíku, sem fer sínu fram í skjóli ógnar og æsimennsku. „Ykkur er hollara að halda ykkur á mottunni, helvítin ykkar!“-viðhorfið. Á götum Belfast er greinilega daglegt brauð að hrópuð séu ókvæðisorð að lögreglu, á hana skyrpt, hún lamin eða hreinlega skotið á hana.

Er þetta virkilega veruleikinn?

Blue Lights er skáldskapur, svo því sé strax svarað, en höfundarnir, Declan Lawn og Adam Petterson, byggja söguna eigi að síður á samtölum sem þeir áttu við fjölda lögreglumanna í Belfast á tveggja og hálfs árs tímabili.

„Við reyndum að hafa þetta eins raunverulegt og kostur var,“ hefur miðillinn GoodtoKnow eftir Lawn. „Við ræddum við upp undir þrjátíu núverandi og fyrrverandi lögreglumenn og vörðum tveimur árum í að gaumgæfa efnið. En þegar kemur að persónum og atburðum þá er þetta skáldskapur.“

Ekki svo óalgengt

Hann bætir við að Grace sé ekki eins óvenjulegt tilfelli og ætla mætti enda sé alls ekki óalgengt að fólk gangi í lögregluna eftir að hafa átt feril á öðrum vettvangi, jafnvel í lengri tíma. „Fólk gengur í lögregluna á fertugs-, fimmtugs- og jafnvel sextugsaldri,“ segir Lawn. „Okkur þótti það heillandi hugmynd að snemmmiðaldra manneskja myndi söðla um og segja skilið við ferilinn sem hún ætlaði sér alltaf að eiga og fara að gera eitthvað allt annað. Þetta heillaði að hluta til, kannski í undirmeðvitundinni, vegna þess að við höfðum sjálfir gert slíkt hið sama! Við höfðum sagt skilið við BBC, þar sem ég var fastráðinn, til að ljúka við The Salisbury Poisoning [myndaflokkur frá 2020]. Með því tókum við mikla áhættu og tengdum því vel við persónuna.“

Leikkonan Siân Brooke, sem fer með hlutverk Grace, kveðst hafa kolfallið um leið fyrir handritinu. „Skrif Declans og Adams eru alveg mergjuð. Ég hef alltaf sogast inn í persónudrifnar sögur og sú staðreynd að þeir hafi báðir verið blaðamenn gerir þá að skeleggum samfélagsgreinendum. Maður finnur það glöggt á handritinu. Við hittum fyrir persónur í starfi sem flestir tengja vald og ábyrgð við en Declan og Adams tekst að fara með okkur í mjög persónulegt ferðalag með hverju og einu þeirra,“ hefur GoodtoKnow eftir Brooke.

Hún nefnir sína persónu, Grace, sem dæmi. „Við kynnumst henni þegar hún hefur tekið þá risastóru ákvörðun að hætta hjá félagsþjónustunni til að gerast lögreglumaður. Sú ákvörðun byggist, að ég held, að verulegu leyti á því að hún upplifði mikil vonbrigði í sínu gamla vinnuumhverfi. Hún vill sinna starfi þar sem hún getur haft áhrif og verið í fylkingarbrjósti breytinga. Hún á 17 ára son og reynir að finna jafnvægi milli þess að vera einstæð móðir og læra á sama tíma inn á nýtt og krefjandi starf. Markmiðið er að láta allt ganga og gera sitt besta.“

Af blönduðum uppruna

Þess má geta að sonurinn, Cal, er af blönduðum uppruna og talsvert er gert úr því í þáttunum. Umhverfið virðist tortryggja hann og Cal upplifir óréttlæti frá hendi samferðamanna, þar á meðal lögreglunnar. Það eykur á spennuna milli hans og móður hans sem á ekki endilega gott með að setja sig í hans spor. Í einu atriðinu leitar Grace til samstarfskonu sinnar, Söndru, með það vandamál. „Er það vegna þess að ég er eina svarta manneskjan sem þú þekkir í Belfast?” verður henni að orði.

Þegar á reynir á Sandra heldur ekki gott með að skilja angist Cals vegna þess að hún er frá Lundúnum og alltaf verður litið á hana sem aðkomumann þar nyrðra. Cal er á hinn bóginn borinn og barnfæddur í Belfast og á því erfiðara með að sætta sig við téð viðhorf. Hefur hann ekki sama rétt og þeir sem eru hvítir á hörund?

Fyrsta serían af Blue Lights mæltist vel fyrir hjá leikum sem lærðum þegar hún var sýnd í Bretlandi í fyrra og nú í apríl hófust sýningar á seríu númer tvö, þar sem Grace, Annie og Tommy eru áfram í broddi fylkingar. Nú reynslunni ríkari, myndi maður ætla. Nokkrir aðrir úr fyrstu seríunni snúa aftur, auk þess sem nýjar persónur eru kynntar til sögunnar.

RÚV hlýtur að taka seríu tvö til sýninga innan tíðar.

Tók sér nafn hershöfðingja

Siân Elizabeth Phillips fæddist árið 1980 í Lichfield í Staffordskíri á Englandi, af velsku foreldri. Hún tók sér sviðsnafnið (eða skjánafnið) Siân Brooke til að greina sig frá annarri leikkonu, Siân Phillips frá Wales. Það mun vera til heiðurs hershöfðingjanum Brooke lávarði sem féll við Lichfield í ensku borgarastyrjöldinni 1643. Brooke er ekki með öllu ókunnug lögreglunni en faðir hennar var lögreglumaður, móðirin kennari.

Leiklistin greip hana snemma og Brooke hefur leikið jöfnum höndum í sjónvarpi og á sviði í ríflega tvo áratugi en lítið látið að sér kveða í kvikmyndum, aðeins með tvær slíkar á ferilskránni. Frá árinu 2020 hefur hún leikið í gamanþáttunum Trying.

Brooke er gift og á tvö börn.