Fjöldi banaslysa í umferðinni vekur óhug

Óhugnanlegt er að lesa um hvert banaslysið á eftir öðru í umferðinni á þessu ári. Nú þegar hafa fleiri látist í bílslysum á þessu ári en allt árið í fyrra.

Þeim fer einnig fjölgandi, sem slasast alvarlega í umferðinni. Í vikunni kom út skýrsla Samgöngustofu um umferðarslys á árinu 2023, eins og greint var frá í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í gær. Í fyrra slösuðust 229 manns alvarlega í umferðinni og voru það fleiri en slösuðust á einu ári áratuginn á undan.

Ástæðurnar fyrir þessum mikla fjölda alvarlegra slysa geta verið ýmsar. Fjölgun ferðamanna hefur gert að verkum að umferð hefur snaraukist á vegum landsins. Álagið á þjóðvegunum getur verið mikið.

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er viðtal við Zak Nelson frá Englandi, sem var á leið að Seljalandsfossi ásamt félaga sínum þegar þeir lentu í harkalegum árekstri.

„Við vorum á austurleið þegar bíll fór yfir á rangan vegarhelming, mögulega að taka fram úr. Það voru aðeins um hundrað metrar á milli bílanna og ég hafði engan tíma til að hemla eða öskra. Aðeins að reyna að sveigja frá,“ segir Zak í viðtalinu og tekur fram að bílarnir hafi skollið harkalega saman. „Ég var undir stýri og það eina sem ég náði að hugsa var að reyna að sveigja frá, en það var enginn tími.“

Zak slapp vel, en ferðafélagi hans, Elliot Griffiths, hefur þurft að fara í erfiðar aðgerðir. Vonandi jafnar hann sig sem fyrst.

Það þarf ekki mikið til þess að eitthvað fari úrskeiðis í umferðinni. Í þessu tilfelli var ekkert svigrúm til að bregðast við bíl á rangri akrein – það var enginn tími. Þegar tveir bílar mætast á 90 km hraða verður harður árekstur. Það er mesta mildi að ekki skyldi fara verr fyrir parinu Zak og Elliot.

Þegar umferðin er þétt getur verið freistandi að taka fram úr, en það skilar engu að komast nokkrum bílum framar þegar umferðin er þétt. Það getur hins vegar verið hættuspil eins og dæmin sýna. Hraðinn drepur.

Helsti eiginleiki bílstjóra í umferðinni er þolinmæði. Besti bílstjórinn er sá, sem keyrir í takt við umferðina.