Það ku vera gott að búa á Bessastöðum. Stór hópur frambjóðenda horfir nú þangað bjarteygur og með von í brjósti.
Það ku vera gott að búa á Bessastöðum. Stór hópur frambjóðenda horfir nú þangað bjarteygur og með von í brjósti. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ellefu manns verða í kjöri til embættis forseta Íslands 1. júní. Tvö framboð voru úrskurðuð ógild. Halla Hrund Logadóttir tók í byrjun vikunnar forystu í kapphlaupinu til Bessastaða, mældist með tæplega 29% fylgi í skoðanakönnun…

27.04-03.05

Orri Páll

Ormarsson

orri@mbl.is

Ellefu manns verða í kjöri til embættis forseta Íslands 1. júní. Tvö framboð voru úrskurðuð ógild.

Halla Hrund Logadóttir tók í byrjun vikunnar forystu í kapphlaupinu til Bessastaða, mældist með tæplega 29% fylgi í skoðanakönnun Prósents. Ekki var þó tölfræðilega marktækur munur á henni og Baldri Þórhallssyni sem mældist með 25% fylgi.

Kvikmyndatónskáldið Atli Örvarsson hlaut bresku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin Bafta fyrir tónlist sem hann samdi fyrir þáttaröðina Silo.

Áætlað er að um það bil 25-30 prósent heimila hér á landi séu með áskrift að IPTV-efnisveitum sem dreifa ólöglega aðgangi að sjónvarpsstöðvum um allan heim.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir gríðarlega fólksfjölgun kalla á innviðagjald.

Mikil fiskgengd er víða á grunnslóð.

Borghildur Fjóla Kristinsdóttir, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, vill að hlutverk björgunarsveita verði endurskoðað með hliðsjón af álaginu vegna ástandsins í Grindavík.

Þjónustuhús við bílastæðin nærri Hengifossi í Fljótsdal verður senn tekið í notkun.

Nágrannasveitarfélög Grindavíkurbæjar stefna á að gefa Grindvíkingum kærleiksgjöf í formi ljóslistaverks.

Þúsundir fólks víða um land tóku til óspilltra málanna og hreinsuðu rusl á stóra plokkdeginum.

Bandaríska heilbrigðistryggingafélagið Cigna hyggst bjóða upp á líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech af gigtarlyfinu Humira án þess að viðskiptavinir þurfi að greiða sérstaklega fyrir það.

Krían er komin.

„Mér finnst dálítið á okkar ágæta landi, svolítið lengi – nokkur ár – búið að vera offramboð á leiðindum,“ sagði Jón Gnarr forsetaframbjóðandi á borgarafundi Morgunblaðsins á Ísafirði.

Fimm íslensk fyrirtæki skrifuðu undir viljayfirlýsingu um kaup á vetnisknúnum MAN hTGX-vöruflutningabílum.

Samninganefndir Félags flugmálastarfsmanna ríkisins og Sameykis hafa ákveðið að boða til aðgerða á Keflavíkurflugvelli.

Kynningarfyrirtækið Langbrók ehf. hefur sent Orkustofnun sundurliðaðar tímaskýrslur síðustu mánaða vegna starfa Karenar Kjartansdóttur sem samskiptastjóra stofnunarinnar. Karen hefur fengið greiddar 12.764.265 krónur fyrir þau störf síðan samningur var um það gerður í fyrravor án auglýsingar eða útboðs.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld hefji neytendamarkaðssetningu í ferðaþjónustu á ný og að þar verði vörumerkið Ísland samkeppnishæft, segir Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Minkar herja á fugla á Seltjarnarnesi.

Lögreglan hefur vaxandi áhyggjur af harðara umhverfi löggæslu.

Atvinnuveganefnd Alþingis ræddi hugmyndir um að binda rekstrarleyfi fyrirtækja í sjókvíaeldi við 16 ár.

Ragnhildur Hjaltadóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu, var skipuð nýr stjórnarformaður Betri samgangna.

Skipuð var rannsóknanefnd vegna snjóflóðsins í Súðavík 1995.

Stjórn Þórkötlu hefur samþykkt kaup á 510 fasteignum í Grindavík að andvirði um 40 milljarða króna.

Gígurinn þar sem nú gýs við Sundhnúkagíga er 38 metrar þar sem hann er hæstur, samkvæmt mælingum frá myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, er kominn í smíðagallann og áformar uppbyggingu á minnst tveimur stöðum.

Undanfarið hafa staðið yfir miklar framkvæmdir við hringtorgið á mótum Ánanausta, Hringbrautar og Eiðsgranda.

Hreinsanir standa yfir á stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu.

Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur fréttamanni á RÚV var vikið úr ritstjórn fréttaskýringaþáttarins Kveiks eftir að ákvörðun var tekin um að sýna ekki skýru hennar um samninga Reykjavíkurborgar við olíufélögin um lóðaréttindi eins og til stóð. Fróðlegt verður að sjá hvort skýran verður sýnd síðar.

Samtök launafólks hafa aldrei verið mikilvægari, að dómi formanns Verkalýðsfélags Grindavíkur.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um loftslagsmál var rangur, að mati fv. forseta EFTA-dómstólsins, Carls Baudenbachers.

Staða íslensks efnahagslífs og opinberra fjármála er góð í samanburði við flest önnur lönd í Evrópu, að mati fjármálaráðs.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýndi íslensk stjórnvöld harkalega í 1. maí-ávarpi sínu fyrir stuðning sinn við Ísrael í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Sagði hún stjórnvöld þjást af „sjúkri undirgefni“ gagnvart Bandaríkjunum.

Síðari umferð biskupskosninga er hafin og lýkur á þriðjudaginn.

Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, segir ekki standa til að halda meðferðarstöðinni Vík opinni yfir sumartímann í ár.

Dómsmálaráðuneytið er í samtali við viðkomandi bæjar- og hafnarmálayfirvöld um þá möguleika sem eru á því að byggja upp framtíðaraðstöðu fyrir skipaútgerð Landhelgisgæslunnar í Reykjaneshöfn.

Úrskurðarnefnd kosningamála hefur fellt úr gildi úrskurð landskjörstjórnar um að framboð Viktors Traustasonar til forseta hafi verið ógilt.

Fiskistofa hefur tímabundið lokað starfsstöð sinni í Borgum á Akureyri eftir að mygla fannst í húsnæðinu.

Uggur er í fólki norðanlands því hugsanlegt er að þar malli nú kíghóstasmit.

Birgir Thor Möller, kvikmyndafræðingur og menningarmiðlari, hlaut Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta.

Vatnsbúskapurinn hefur aldrei verið verri en í vetur. Fyrir vikið hefur Landsvirkjun skert afhendingu á orku til viðskiptavina, sem kostað hefur fyrirtækið tveggja milljarða króna tekjur.

Fjárhagskröggur borgarinnar eru ekki úr sögunni. Í fyrra var 3,4 milljarða króna tap á rekstri Reykjavíkur, en gert hafði verið ráð fyrir 9,6 milljarða hagnaði.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur lagt fram frumvarp sem á að draga úr óhóflegum töfum á framkvæmdum vegna seinagangs í kerfinu. Þar kveður meðal annars á um að nái opinberar stofnanir ekki að afgreiða umsagnir um umhverfismat innan tilskilins frests jafngildi það grænu ljósi – þögn sé sama og samþykki.

Forsetaframbjóðendum fjölgaði um einn og eru þeir nú tólf. Viktor Traustason hagfræðingur náði að skila inn gildu framboði eftir að hann fékk framlengdan frest til að laga undirskriftir sínar.

Strandveiðitímabilið hófst á fimmtudag og héldu smábátasjómenn til veiða í blíðskaparveðri víðast hvar. Á fimmtudag höfðu 550 bátar fengið leyfi til strandveiða, en undanfarin ár hafa um 700 bátar verið á strandveiðum.

Íslenskur karlmaður var handtekinn grunaður um aðild að ráni á peningum úr peningaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar fyrir utan Hamraborg í Kópavogi í mars. Þýfið nam 20 til 30 milljónum króna.

Sigfús R. Sigfússon, fyrrverandi forstjóri Heklu, lést.