50 ára Jónas ólst upp í Álftamýri í Reykjavík og býr í Krókamýri í Garðabæ. Hann er viðskiptafræðingur frá HÍ með MBA-próf af alþjóðafjármálalínu úr HR og einnig með meistaragráðu í markaðsfræði úr HÍ

50 ára Jónas ólst upp í Álftamýri í Reykjavík og býr í Krókamýri í Garðabæ. Hann er viðskiptafræðingur frá HÍ með MBA-próf af alþjóðafjármálalínu úr HR og einnig með meistaragráðu í markaðsfræði úr HÍ.

Jónas byrjaði strax eftir háskólann að vinna í fasteignamálum hjá gömlu Þyrpingu, nú Reitum. „Það var fyrsta eiginlega fasteignafélagið á Íslandi, maður lærði þar hjá algerum snillingum í faginu. Kringlan var stórt og viðvarandi viðfangsefni í Þyrpingu en fjöldi verkefna kom inn á borðið eins og Skuggahverfið og Icelandair hótel-kaupin. Enda voru þarna metnaðarfullir framsýnir stjórnendur, t.d. Ragnar Atli og Hagkaupsfjölskyldan.

Seinna fór ég með starfsfólki úr Þyrpingu í önnur verkefni og við stofnuðum t.d. Klasa og lögðum grunninn að öflugri og hraðri uppbyggingu með sérstaklega öflugum kaupum á framtíðarþróunarverkefnum eins og uppkaupum á Morgunblaðsfasteignum í Kringlunni með fyrirhugaðri stækkun á Kringlusvæðinu og uppbyggingu Hádegismóa og uppkaupum á lóðum á Höfðasvæðinu sem er fyrst núna í uppbyggingu. Við unnum líka að þróun nýs miðbæjar í Garðabæ og Litlatúns-verslunarsvæðinu þar sem Hagkaup er í dag. Seinna fór ég með Ragnari Atla líka í Þróun og ráðgjöf og unnum við að fjölda verkefna eins og Kauptúnshúsinu þar sem nú er Costco.“ Í dag leiðir Jónas uppbyggingu á Kirkjusandsreitnum fyrir 105 Miðborg hjá Íslandssjóðum.

Áhugamál Jónasar eru fótbolti, ferðalög og bókmenntir. „Ég er að klára Ból núna í fríinu, fer svo í Högna eftir Auði, en get ekki beðið eftir þriðju bókinni í 60 kílóa-sögunni, það besta sem ég hef lesið í marga áratugi. Ég elska líka að veiða en það er bara orðið of dýrt til að standa í því. Ég er staddur á Spáni í afmælisfríi, þar er gott að vera en best í heimi er að vera á Raufarhöfn. Sjórinn, náttúran og fólkið allt er einstakt þarna.“

Fjölskylda Maki Jónasar er Hrafnhildur Ýr Erlendsdóttir, f. 1983, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu. Börn þeirra eru Kjartan Breki, f. 2011, og Elínborg María, f. 2014. Foreldrar Jónasar: Hjónin Jónas Maríus Hólmsteinsson, f. 1934, d. 2017, aðalbókari og útgerðarmaður, og Edda Kjartansdóttir, f. 1936, fv. verslunarkona og stjórnarmaður í VR til margra ára, búsett í Reykjavík.