Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna þriggja á tímabilinu nam 17 milljörðum íslenskra króna en hafði verið 20 milljarðar í fyrra.
Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna þriggja á tímabilinu nam 17 milljörðum íslenskra króna en hafði verið 20 milljarðar í fyrra.
Arðsemi viðskiptabankanna þriggja á fyrsta ársfjórðungi dregst saman milli áranna 2023 og 2024. Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn og Kvika hafa allir birt uppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuði þessa árs

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Arðsemi viðskiptabankanna þriggja á fyrsta ársfjórðungi dregst saman milli áranna 2023 og 2024. Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn og Kvika hafa allir birt uppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna þriggja á tímabilinu nam 17 milljörðum íslenskra króna samanborið við 20 milljarða hagnað í fyrra.

Snorri Jakobsson, greinandi og eigandi Jakobsson Capital, segir í samtali við Morgunblaðið að það hafi verið vitað að hagnaður bankanna myndi dragast saman milli áranna 2023 og 2024 þar sem peningamagn dragist saman þegar vaxtastig er hátt.

„Það hefur áhrif á vaxtamuninn og við sjáum að útlánavöxturinn er farinn. Sá litli útlánavöxtur sem er skýrist af hækkun á vísitölu neysluverðs. Við sjáum að lánasafnið er nær ekkert að stækka svo það er raunsamdráttur hjá viðskiptabönkunum í útlánum. Vaxtamunurinn hefur örlítið dregist saman,“ segir Snorri og bætir við að sú þróun hafi ekki komið á óvart.

„Afkoman af efnahagsreikningi hjá öllum bönkunum var í samræmi við væntingar. Bankarnir eru þó misjafnlega umsvifamiklir í fjárfestingatekjum. Nú erum við að fara inn í þriðja árið þar sem hlutabréfamarkaðurinn hefur verið slæmur. Íslenski markaðurinn hefur ekki hækkað neitt að ráði síðustu fimm árin. Það er sérstakt ástand og hefur farið að bíta í þjónustutekjur bæði í eignastýringu, mörkuðum og fyrirtækjaráðgjöf.“

Samdráttur í þóknanatekjum

Sem fyrr segir dróst arðsemi eigin fjár saman milli fyrsta ársfjórðungs 2023 og 2024. Snorri segir að samdráttur hafi orðið í þóknanatekjum fjárfestingarbankastarfsemi eða alveg frá 5% upp í 20%. Á sama tíma hafi kostnaður aukist um 2-3%.

„Fjárfestingarbankastarfsemin er stærst í Arion banka þannig að þetta hefur mest áhrif þar. Hefur líka mikil áhrif á Kviku en Kvika kom á markaðinn með greiðslumiðlunarlausn en það er góður vöxtur í greiðslumiðlunartekjum allra viðskiptabanka nema Arion banka. Samdráttur í þóknanatekjum hjá Arion var harkalegri en allir bjuggust við,“ segir Snorri.

Kvika hagnaðist um milljarð króna á fyrsta fjórðungi þessa árs samanborið við 1,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Arðsemi efnislegs eigin fjár (RoTE) fyrir skatta hjá Kviku var 12,1% en hafði verið 13,1% á sama tímabili árið 2023. Arðsemi efnislegs eiginfjár af áframhaldandi starfsemi nam 15,5% á fyrsta ársfjórðungi 2024.

Snorri segir að uppgjör Kviku hafi verið í takt við væntingar. Kvika hafi mikil tækifæri til vaxtar eftir söluna á TM.

„Þeir eru búnir að losa mikið af lausu fé sem þeir munu greiða út eða nýta í frekari vöxt í útlánastarfsemi. Það var líka sniðugt hjá þeim að fjárfesta til langs tíma í greiðslumiðlun en þær tekjur eru mjög stöðugar yfirleitt,“ segir Snorri.