Guðbjörg Snót Jónsdóttir
Guðbjörg Snót Jónsdóttir
Ég mun kjósa Arnar Þór Jónsson og vona að fleiri geti hugsað sér það og láti ekki þessi áróðursfyrirtæki hræða sig frá því.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir

Er nokkur þörf á að hafa forsetakosningar með öllum þeim tilkostnaði sem þær hafa í för með sér? Mér sýnist þessi áróðursfyrirtæki, sem kalla sig skoðanafyrirtæki, vera búin að ákveða það fyrir löngu, áður en nokkur kosningabarátta er hafin fyrir alvöru, hver skuli verða næsti forseti lands og þjóðar með þessum eilífu svokölluðu skoðanakönnunum sínum, þar sem ýmist Katrín, Baldur, Jón Gnarr eða fyrrverandi orkumálastjóri eru í efstu sætunum og öllum öðrum haldið sem lengst fyrir neðan þau, og búin að hamra á þessu frá því þau tilkynntu framboð sín, án þess einu sinni að vera búin að afla sér meðmælenda hvað þá annað.

Mér sýnist ekki, enda fer þetta að minna á rússneskar eða sovéskar kosningar frekar en lýðfrjálsar kosningar í lýðræðisríki. Eins og menn vita, þá er það siðurinn í Kreml að láta fólk vita hver er í framboði sem skuli kjósa, án þess að fólk hafi hugmynd um hver maðurinn er eða hvað hann stendur fyrir einu sinni. Að vísu þekkjum við nokkurn veginn Katrínu, Baldur og Jón Gnarr, en hvað stendur orkumálastjórinn fyrir sem gerir hann hæfari þeim hinum til þess að gegna embætti forseta landsins? Ég hef nú ekki séð þau rök enn. Öðrum frambjóðendum er svo vísvitandi haldið sem lengst niðri, svo að fólk sé nú ekki að asnast til þess að kjósa þá, enda þeir greinilega ekki þessum áróðursfyrirtækjum að skapi sem vilja koma því fólki í stól forseta sem væri viljugt til að ana með okkur beint inn í ESB án þess að spyrja þjóðina nokkuð álits. Henni kemur það ekkert við að þeirra dómi, frekar en hver verður næsti forseti, ef þau vilja ráða því líka með útgáfu svona „skoðanakannana“ eins og hafa verið að birtast allt frá því fólkið bauð sig fram. Hvað á svona framkoma að þýða eiginlega gagnvart okkur háttvirtum kjósendum? Halda menn að við séum einhver allsherjar fífl sem hafa ekki vit á að kjósa sér forseta og þurfi að segja okkur hverjir séu bestir í forsetasætið? Ég leyfi mér að mótmæla harðlega slíkum dónaskap. Já, ég get ekki kallað þetta annað en dónaskap gagnvart okkur kjósendum.

Við munum bara kjósa þann frambjóðandann sem okkur finnst sæma best að vera á Bessastöðum og önsum ekki svona áróðursskoðanakönnunum sem fyrirskipa hreinlega landanum að kjósa þá sem þeir vilja að séu kosnir – aðra ekki.

Það geta nefnilega allir gert svona skoðanakannanir skulu þeir vita. Við stuðningsfólk Arnars Þórs Jónssonar, sem þessir áróðursmeistarar vilja halda sem lengst niðri, gætum gert svona skoðanakannanir þar sem fylgi frambjóðanda okkar færi með himinskautum. Við vitum nefnilega að hann á meira inni en þessi tvö eða þrjú prósent sem þessum áróðursfyrirtækjum í skoðanakannanalíki þóknast að halda honum í, og treystum honum best fyrir fjöreggi þjóðarinnar, lýðveldinu og frelsinu. Og vita skulu þau að við látum ekki það rugl fæla okkur frá því að kjósa hann, hvað sem hver segir um það, því að hann á mesta erindið á Bessastaði, og ég vona eins og fleiri að fólk sjái það um síðir þegar kosningabaráttan hefur hafist fyrir alvöru, nema Rúv og þessi áróðursfyrirtæki þarna muni sjá til þess að hann fái sem minnst að segja, sem myndi sýna best hvers konar fyrirtæki eru þarna á ferðinni, og væri algert hneyksli, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Nóg er nú hneykslið samt hvernig þau haga sér nú þegar. Ég ætla rétt að vona að fólk sé ekkert að fara eftir þessum áróðursfyrirtækjum heldur kjósi þann frambjóðandann sem því finnst hafa mest og best erindið á Bessastaði, jafnvel þótt þessar áróðursmaskínur í formi skoðanakannana haldi þeim í neðstu sætunum. Hvað sem þau segja, þá mun ég kjósa Arnar Þór Jónsson og vona að fleiri geti hugsað sér það og láti ekki þessi áróðursfyrirtæki hræða sig frá því, enda mega þau vita það að við háttvirtir kjósendur höfum fullt vit til þess að velja okkur forseta sjálf og þurfum ekki þeirra hjálp til þess. Mál er að linni þessari endemis skoðanakannanavitleysu sem ekkert er að marka.

Höfundur er guðfræðingur og fræðimaður.