Stórfjölskyldan Myndin er tekin sumarið 2006 framan við sumarbústað Ólafs og Rannveigar í Syðstu-Mörk, á æskuslóðum Ólafs. Börn þeirra, makar og barnabörn í heimsókn eins og oft áður.
Stórfjölskyldan Myndin er tekin sumarið 2006 framan við sumarbústað Ólafs og Rannveigar í Syðstu-Mörk, á æskuslóðum Ólafs. Börn þeirra, makar og barnabörn í heimsókn eins og oft áður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Ólafsson fæddist 5. maí 1924 og verður því 100 ára á morgun. Hann fæddist í Syðstu-Mörk undir Vestur-Eyjafjöllum og ólst þar upp í foreldrahúsum við almenn sveitastörf þess tíma og fór snemma að vinna utan heimilisins

Ólafur Ólafsson fæddist 5. maí 1924 og verður því 100 ára á morgun. Hann fæddist í Syðstu-Mörk undir Vestur-Eyjafjöllum og ólst þar upp í foreldrahúsum við almenn sveitastörf þess tíma og fór snemma að vinna utan heimilisins.

Hann var tvo fyrstu veturna eftir fermingu gegningamaður í Neðri-Dal undir Eyjafjöllum. Veturna 1940-1941 fór Ólafur til Vestmannaeyja og vann í aðgerð.

Veturna 1941-1942 fór Ólafur til höfuðborgarinnar og vann hjá setuliðinu verkamannastörf í og kringum borgina.

Ólafur stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni 1942-44 og við Samvinnuskólann í Reykjavík 1944-46.

Ólafur hóf störf hjá Kaupfélagi Hallgeirseyjar á Hvolsvelli 1946 sem heitir Kaupfélag Rangæinga frá 1948 er það var sameinað Kaupfélagi Rangæinga á Rauðalæk. Þar var Ólafur afgreiðslumaður, síðan deildarstjóri, þá fulltrúi kaupfélagsstjóra og loks útibússtjóri á Rauðalæk í Holtum árin 1954 til 1957. Á Rauðalæk kynntist Ólafur konu sinni, Rannveigu Júlíönu Baldvinsdóttur, ættaðri frá Ólafsfirði, þau hófu búskap á Rauðalæk árið 1954.

Rannveig og Ólafur fluttu á Hvolsvöll 1957 og starfaði Ólafur hjá Kaupfélagi Rangæinga til 1959. Þá fluttu Ólafur og Rannveig til Ólafsfjarðar þar sem hann var kaupfélagsstjóri til 1965. Kaupfélagið undir hans stjórn byggði 1962 nýtt verslunar- og skrifstofuhús sem hýsti m.a. kjörbúð, vefnaðarvöruverslun, búsáhalda- og byggingavörudeildir, bókabúð, mjólkursamlag og einnig rak félagið sláturhús með kjötfrystihúsi.

Frá Ólafsfirði fluttu hjónin aftur á Hvolsvöll og var Ólafur kaupfélagsstjóri Kaupfélags Rangæinga frá 1965 til 1989. Á Hvolsvelli var aðalverslun kaupfélagsins og rekin kjörbúð, ferðamannaverslun, ásamt því að kaupfélagið annaðist flutninga og vöruafgreiðslu fyrir félagssvæðið frá Þjórsá að Sólheimasandi. Á þessum tíma efldust þjónustuiðnaður og atvinnusköpun kaupfélagsins. Á Hvolsvelli má nefna að undir kaupfélagið heyrði bifreiðaverkstæði, vélsmiðja, trésmiðja, húsgagnaiðja og prjónastofa.

Á Rauðalæk rak kaupfélagið kjörbúð, vörugeymslu og bifreiðaverkstæði. Ólafur kaupfélagsstjóri stóð fyrir því að Kaupfélag Rangæinga byggði 43 einbýlishús á Hvolsvelli og á Rauðalæk og seldi á kostnaðarverði til að gera fólki auðveldara að setjast þar að. Framtakið skipti miklu máli fyrir byggðaþróun og leysti brýnan húsnæðisvanda.

Ólafur gerðist félagi í Rótrýklúbbi Ólafsfjarðar árin 1960-1965. Hann stofnaði Rótarýklúbb Rangæinga árið 1966 og var einn virkasti félaginn í klúbbnum frá upphafi. Klúbburinn heiðraði Ólaf á 90 ára afmæli sínu og reisti honum áletraðan stuðlabergsstein í Syðstu-Mörk.

Rannveig og Ólafur byggðu Hótel Hvolsvöll árið 1984 og ráku þar um árabil 34 herbergja gistiaðstöðu og veitingasölu. Ólafur og Rannveig byggðu ásamt fjölskyldu sinni sumarbústað á æskuslóðum Ólafs í Syðstu-Mörk þar sem þau stunduðu skógrækt.

Eftir að Ólafur lét af störfum sem kaupfélagsstjóri rak hann bókhaldsþjónustu á heimili sínu fram til ársins 2018, þar sem hann sinnti aðallega framtals- og bókhaldsþjónustu fyrir bændur og smærri fyrirtæki.

Ólafur sat í bæjarstjórn og bæjarráði Ólafsfjarðar 1962-64, var lengi formaður Framsóknarfélags Rangæinga, átti sæti í miðstjórn Framsóknarflokksins um árabil, sat í stjórn kjördæmissambands framsóknarmanna í Suðurlandskjördæmi, var varaþingmaður eitt kjörtímabil og sat á Alþingi í apríl-maí 1975.

Hann sat í nokkur ár í stjórn Vinnumálasambands samvinnufélaganna og í stjórn Meitilsins hf. í Þorlákshöfn.

Ólafur var virkur þátttakandi í félagsmálastörfum í héraði, einn af stofnendum Bridds- og Skákfélags Rangæinga og hafði frumkvæði að stofnun Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu 8. febrúar 1993 og var formaður félagsins um árabil.

Á 80 ára afmælishátíð Hvolsvallar 2013 fékk Ólafur Ólafsson afhentan Atgeir Gunnars, æðstu viðurkenningu sveitarfélagsins.

Helstu áhugamál Ólafs voru félagsmál, garðrækt ásamt lax- og silungsveiði. Hann veiddi mikið í Rangánum og í Veiðivötnum oft í félagi við Árna bróður sinn. Ólafur og Rannveig ferðuðust alla tíð mikið, bæði innanlands og erlendis, og höfðu bæði mikla ánægju af þeim ferðalögum.

Rannveig kona Ólafs lést árið 2009, Ólafur bjó eftir það einn á heimili sínu í Öldugerði 18 þar til hann flutti í október 2018 á dvalarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli.

Fjölskylda

Ólafur kvæntist 29.10. 1955 Rannveigu Júlíönu Baldvinsdóttur, f. 22.10. 1933, d. 12.12. 2009, húsmóður. Hún var dóttir hjónanna Baldvins Guðna Jóhannessonar, f. 23.11. 1895, d. 10.12. 1971, sjómanns í Ólafsfirði, og Sigfríðar Björnsdóttur, f. 18.2. 1898, d. 3.10. 1978, húsmóður og verkakonu í Ólafsfirði.

Börn Ólafs og Rannveigar Júlíönu eru: 1) Ólafur, f. 14.2. 1955, tæknifræðingur í Reykjavík, kvæntur Jakobínu Vilhelmsdóttur sjúkraliða og eiga þau tvær dætur; 2) Baldvin Guðni, f. 11.5. 1956, búsettur í Taílandi, og á hann tvö börn; 3) Ásta Halla, f. 14.11. 1962, hársnyrtir á Hvolsvelli, gift Garðari Gunnari Þorgilssyni og eiga þau þrjú börn; 4) Ingibjörg Ýr, f. 30.11. 1966, stuðningsfulltrúi á Hvolsvelli, gift Oddi Árnasyni kjötiðnaðarmeistara og eiga þau þrjú börn. Ólafur og Rannveig eiga 10 barnabörn og 15 barnabarnabörn.

Systkini Ólafs: Sigríður, f. 26.9. 1921, d. 2.12. 2012, húsfreyja í Bakkakoti á Rangárvöllum; Guðjón, f. 23.9. 1922, d. 11.2. 2022, bóndi í Syðstu-Mörk; Sigurjón, f. 3.7. 1927, d. 8.11. 1992, bóndi á Stóru-Borg í Grímsnesi; Jóhanna Guðbjörg, f. 2.8. 1928, d. 4.1. 2018, húsfreyja á Völlum í Innri-Akraneshreppi; Sigurveig, f. 14.6. 1925, d. 13.9. 2020, húsmóðir í Reykjavík; Árni, f. 12.7. 1931, d. 11.4. 2014, yfirlæknir í Basel í Sviss; Ásta, f. 8.1. 1939, d. 30.3. 2022, húsfreyja á Skúfslæk í Flóa, Árn., síðar búsett á Selfossi.

Foreldrar Ólafs voru hjónin Ólafur Ólafsson, f. 24.5. 1891, d. 13.7. 1973, bóndi í Syðstu-Mörk, og Halla Guðjónsdóttir, f. 7.8. 1892, d. 7.4. 1970, húsfreyja.