Þríeyki „Alveg síðan undirrituð gekk út úr bíósalnum hefur hana dreymt um að fara aftur í bíó á Keppinauta.“
Þríeyki „Alveg síðan undirrituð gekk út úr bíósalnum hefur hana dreymt um að fara aftur í bíó á Keppinauta.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin Challengers / Keppinautar ★★★★★ Leikstjórn: Luca Guadagnino. Handrit: Justin Kuritzkes. Aðalleikarar: Zendaya, Mike Faist og Josh O'Connor. 2024. Bandaríkin og Ítalía. 131 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Keppinautar fjallar um þrjá tennisleikmenn, Tashi (Zendaya), Art (Mike Faist) og Patrick (Josh O’Connor). Myndin byrjar á að kynna hjónaband þeirra Tashi og Arts en Tashi er ekki aðeins eiginkona og barnsmóðir Arts heldur líka þjálfarinn hans og hefur því frammistaða hans á tennisvellinum bein áhrif á hjónabandið. Art er farinn að velta fyrir sér hugmyndinni um að setja tennisspaðann á hilluna en Tashi er greinilega ekki tilbúin að gera það því þá mætir þeim spurningin: Hvað eru þau án tennis? Áhorfendur kynnast samtímis Patrick sem er einnig atvinnumaður í tennis en hefur greinilega ekki átt eins farsælan feril og hjónin. Leikstjórinn, Luca Guadagnino, ákveður þá að bakka aftur í fortíðina og leyfir áhorfendum að kynnast Patrick og Art þegar þeir hitta Tashi í fyrsta sinn. Strákarnir voru saman í herbergi í heimavistarskóla og eru bestu vinir en þeir hafa aldrei verið skotnir í sömu stelpunni fyrr en þeir hitta ungu tennisstjörnuna Tashi. Þrátt fyrir ungan aldur er Tashi í guðatölu í íþróttinni og fljótlega snýst tennis ekki lengur um tennis hjá strákunum heldur að vinna hjarta og kannski frekar hug Tashi. Eins og áhorfendur vita frá byrjun giftist Tashi Art en áhorfendur læra fljótt að sagan er ekki svo einföld heldur fylgir þessi meira en tveggja klukkustunda mynd flóknum ástarþríhyrningi sem virðist aldrei taka enda jafnvel þó það sé kominn giftingarhringur í spilið. Myndin hoppar fram og til baka í tíma til þess að sýna flækjurnar í sambandi þessara þriggja tennisleikara, sem getur stundum verið ruglandi en viðheldur spennunni á sama tíma.

Keppinautar er ekki gagnkynhneigð ástarsaga heldur er það greinilegt frá byrjun að það leynist raunveruleg ást á milli vinanna, Arts og Patricks. Þetta kemur ekki óvart enda er leikstjórinn enginn annar en Luca Guadagnino, listamaðurinn á bak við Kallaðu mig þínu nafni (e. Call Me by Your Name, 2017). Eitt atriðið milli Arts og Patricks er til dæmis mjög kynferðislegt jafnvel þó þeir snerti varla hvor annan. Patrick dregur stólinn hans Arts nær sér þannig þeir sitja alveg ofan í hvor öðrum og borða reðurslega bakkelsið churro. Síðar í myndinni, þegar þeir eru ekki lengur vinir, glottir Patrick til Arts og lyftir upp öðru reðurslegu tákni, banana, eins og hann sé að skála með banananum. Það er erfitt að bera ekki saman þessi tvö atriði en eflaust er markmið Patricks að minna Art á þeirra gömlu vináttu eða jafnvel ástina sem var til staðar einu sinni.

Árið 1934 sameinuðust öll framleiðslufyrirtækin í Hollywood um að hlíta ákveðnum reglum og til varð hinn svokallaði „Hays-kóði“ eða Framleiðslusáttmálinn en það þýddi að leikstjórar þurftu að finna frumlegar leiðir fram hjá reglunum til að gefa í skyn að persónurnar væru að gera eitthvað „ósæmilegt“. Oft voru persónurnar látnar dansa í staðinn og stundum varð það einfaldlega kynþokkafyllra heldur en að sjá sjálfan kossinn eða kynlífið sem verið var að gefa í skyn. Hið sama er gert í Keppinautum en það sem Luca Guadagnino gerir svo vel í myndinni er að sýna aldrei of mikið. Í myndinni eru því í raun engar heilar kynlífssenur en samt er um að ræða mjög erótíska mynd. Guadagnino sýnir bara alltaf jafn mikið og þarf til þess að skilja atriðið rétt eins og í Kallaðu mig þínu nafni. Sú mynd er mjög ástríðufull en þegar Elio (Timothée Chalamet) og Oliver (Armie Hammer) stunda loks kynlíf fer tökuvélin út um gluggann og áhorfendur fá því ekki að fylgjast með og þurfa því að nota ímyndunaraflið, sem er sterk leikstjórnarákvörðun. Þessi aðferð er líka áberandi í Keppinautum og virkar mjög vel, áhorfendur átta sig til dæmis fljótt á því að tennisleikur er aldrei bara tennisleikur. Í lokaatriðinu fylgjumst við til að mynda með Art og Patrick slá boltanum sín á milli og stynja í hvert sinn og við getum ekki annað en velt því fyrir okkur hvað sé raunverulega á seyði. Tónlistin hjálpar síðan gríðarlega mikið til við að koma þessu til skila en hún er virkilega eggjandi á undarlegan máta. Sumir hafa gert athugasemd við að tónlistin sé of há og það sé því erfitt að heyra hvað persónurnar séu að segja en það ætti ekki skipta máli því það er myndmálið og hreyfingar persónanna sem segir söguna.

Það sem er einnig mjög áhugavert við Keppinauta er að það er aldrei ljóst hver er hetjan og hver er illmennið í sögunni en það er yfirleitt ljóst strax í byrjun kvikmynda. Handritið hjá Justin Kuritzkes og hvernig Guadagnino kemur sögunni til skila, þ.e. í gegnum tímaflakk, gerir það að verkum að við áttum okkur ekki á þessu og getum þar af leiðandi aldrei ákveðið með hverjum við höldum í tennisleikjunum eða í ástarþríhyrningnum.

Allar persónurnar eru mjög gallaðar og mannlegar, sem gerir þær trúverðugar. Mikið hefur verið talað um leik Zendaya í myndinni og að hún eigi möguleika á að hljóta Óskartilnefningu en leikur Mike Faist og Josh O’Connor er alls ekki síðri. Hins vegar verður undirrituð að hrósa persónusköpun Tashi en það er alltaf áhættusamt að skrifa kvenkyns persónu sem er ekki viðkunnanleg. Tashi er ekki skrifuð til þess að fullnægja þörfum áhorfenda. Hún hefur ekki áhuga á að fylgja kynhlutverkum sínum sem eiginkona eða móðir heldur er hennar eina áhugamál tennis og eina markmið að ná langt í íþróttinni – og barnið hennar og eiginmaður verða þar af leiðandi aðeins aukahlutir. Tashi er þar af leiðandi máluð upp sem slæm kona en raunin er sú að ef hún væri karlmaður fengi hún eflaust ekki eins harðan dóm af því að því miður er raunin sú að konur og kynsegin lúta öðrum lögmálum en karlar.

Keppinautar er vönduð mynd, handrit Kuritzkes er áhugavert og frumlegar ákvarðanir Guadagnino, eins og til dæmis að sýna frekar meira en minna, eru sterkar. Kvikmyndatakan hjá Sayombhu Mukdeeprom er einnig einstaklega falleg enda er myndin skotin á 35 mm filmu en það hvernig filma tekur á móti litunum er alltaf aðeins fallegra heldur en ef mynd er tekin upp með stafrænni vél. Mukdeeprom er líka óhræddur við að gera skemmtilegar tilraunir með kvikmyndatökunni eins og til dæmis að sýna brot úr lokatennisleiknum frá sjónarhorni tennisboltans. Atriðið minnir svolítið á atriðið í Býflugumyndinni (2007) eftir Simon J. Smith og Steve Hickner en þar er flugan Barry (Jerry Seinfeld) á tennisbolta og áhorfendur fylgjast með tennisleiknum frá sjónarhorni flugunnar. Fyrrnefndar tilraunir hjá leikstjóra og tökumanni eru hins vegar ekki eina ástæðan fyrir því Keppinautar hlýtur fimm stjörnur hjá undirritaðri heldur er það einfaldlega vegna þess að það er langt síðan undirrituð hefur horft á jafn skemmtilega mynd. Alveg síðan undirrituð gekk út úr bíósalnum hefur hana dreymt um að fara aftur í bíó á Keppinauta. Það hefur einfaldlega aldrei verið jafn spennandi að fylgjast með þremur aðalpersónum sem ná aldrei markmiðum sínum.