Augljóst er af fjölda frambjóðenda að veðjað er á að mikil dreifing atkvæða geti opnað hverjum sem er leiðina á Bessastaði.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Tólf frambjóðendur verða í kjöri til embættis forseta Íslands 1. júní næstkomandi. Umræðurnar um ágæti þeirra eru hafnar og fjölmiðlamenn spyrja þá um allt milli himins og jarðar. Skoðanakannanir ráða miklu um andrúmsloftið eins og eðlilegt er þegar valið stendur á milli einstaklinga en ekki stefnu þeirra eða flokka.

Vegna frétta um völd forseta annars staðar líta margir íslenskir kjósendur forsetaembættið öðrum augum en réttmætt er. Í grunninn er forseti Íslands valdalaus. Embættið er lifandi þjóðartákn eins og þjóðfáninn eða þjóðsöngurinn sem ætlað er að sameina en ekki sundra. Forseti setur þjóðinni ekki dagskrá.

Ólafur Ragnar Grímsson breytti þessari ímynd fyrir réttum tuttugu árum. Þá lék hér allt á reiðiskjálfi vegna stjórnarfrumvarps um fjölmiðla og var miðlum Baugsmanna beitt hömlulaust gegn ríkisstjórn og einstökum ráðherrum vegna frumvarpsins. Í Baugsmiðlunum var kallað á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, til landsins enda skyldi hann neita að rita undir fjölmiðlalögin. Skipulögð var söfnun undirskrifta til að auðvelda honum það. Forsetinn hafnaði lögunum og ríkisstjórnin afturkallaði þau.

Þarna var teningum kastað og tala sumir eins og forsetinn sé mótvægi við þingræðið.

Ýtt er undir hugmyndir um nýtt eðli forsetaembættisins með vangaveltum um að einstakir frambjóðendur ætli að gera þetta eða hitt án þess að forseti hafi nokkuð um viðkomandi mál að segja í embættisnafni. Fullyrðingar sem sýna brenglaða vitneskju um starfssvið forseta ýta bæði undir ranghugmyndir hjá kjósendum og hjá frambjóðendum sjálfum.

Kröfur hafa komið fram um að þrengja nálarauga frambjóðenda til forsetaembættisins með því að hækka tölu meðmælenda þeirra í stjórnarskránni. Skerpa þarf á fleiri ákvæðum varðandi forsetaembættið. Sé vilji til þess að forseti skapi mótvægi við löggjafann ber að veita forseta nýtt hlutverk með breytingu á stjórnarskránni. Þá ætti einnig að breyta séríslensku reglunni og ákveða að forseti verði að njóta stuðnings meirihluta kjósenda, það er taka upp tveggja umferða kosningu.

Reglan um tvöfalda kosningu forseta gildir í 18 Evrópulöndum, í 11 Evrópulöndum eru forsetar kjörnir óbeint, það er af þjóðþingum eða kjörmönnum. Í aðeins tveimur Evrópuríkjum, Bosníu-Hersegóvínu og Íslandi, er forseti kjörinn í einni umferð. Dreifist atkvæði á marga getur þriðjungur atkvæða eða minna dugað til að ná kjöri, sé ekki krafist meirihluta kjósenda að baki þeim sem embættið skipar.

Þessi gamla regla um eina umferð er séríslensk. Í Bosníu-Hersegóvínu, sem varð sjálfstæð á fyrri hluta 10. áratugarins, var deila þjóðarbrota leyst með því að forsetaembættið færist á fjögurra ára kjörtímabili á átta mánaða fresti milli þriggja fulltrúa Bosníumanna, Serba og Króata sem hver um sig er kjörinn beint af sínu þjóðarbroti.

Þegar fyrirkomulag um kjör forseta er ákveðið má setja mismunandi markmið. Markmið íslensku reglunnar er að auðvelda sem flestum framboð. Þar sem reglan um tvær umferðir gildir er gjarnan sagt að í fyrri umferðinni láti menn hjartað ráða en heilann í þeirri síðari. Í fyrri umferðinni má kasta atkvæðum á glæ. Alvaran birtist þegar tveir frambjóðendur takast á um fylgi kjósenda.

Tvöfalda kerfið getur leitt til óvæntrar niðurstöðu eins og varð í Frakklandi árið 2002 þegar Jean-Marie Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, komst í aðra umferðina gegn Jacques Chirac, sitjandi forseta.

Í fyrri umferðinni fékk Chirac ekki nema 20% atkvæða og töldu flestir líklegt að sósíalistinn Lionel Jospin yrði keppinautur hans í seinni umferðinni en Le Pen skaust upp fyrir Jospin. Tvær vikur eru á milli kjördaga í Frakklandi og á þeim tíma var stofnað til víðtæks samblásturs gegn Le Pen án tillits til flokksbanda. Fyrir vinstrisinna var mjög erfitt að kjósa Chirac en þeir létu sig hafa það undir slagorðum eins og þessum: Kjósið skúrkinn en ekki fasistann! og Kjósið með nefklemmu!

Chirac vann stórsigur og fékk 82% atkvæða en vinsældir hans hríðféllu eftir því sem leið á kjörtímabilið og árið 2006 lýsti The Economist honum sem óvinsælasta íbúa forsetahallarinnar í fimmta franska lýðveldinu frá því að það var stofnað árið 1958.

Í frönsku forsetakosningunum 2017 og 2022 sigraði Emmanuel Macron dóttur Jean-Marie Le Pen, Marine Le Pen, í seinni umferðinni með 66,1% atkvæða 2017 og 58,5% atkvæða 2022. Var það í fyrsta sinn frá 2002 sem franskur forseti náði endurkjöri.

Ekkert skal fullyrt um hvort hér láti menn hjartað eða heilann ráða þegar þeir kjósa forseta í einni umferð. Augljóst er af fjölda frambjóðenda að veðjað er á að mikil dreifing atkvæða geti opnað hverjum sem er leiðina á Bessastaði.

Í Frakklandi hefur til þessa tekist að safna nægu liði á milli kjördaga til að kjósa þann sem hallast að vilja hefðbundinna valdakjarna í landinu og fylgir stefnu sem fellur að sjónarmiðum þeirra sem stjórna fjölmiðlum meginstraumsins.

Þar er því hins vegar spáð að bjóði Marine Le Pen sig fram til forseta árið 2027 kunni hún að ná takmarki sínu. Í frönsku þingkosningunum 2022 felldi hún meirihluta Macrons á þingi. Nú hefur dregið úr öfgum hennar og berst hún til dæmis ekki lengur gegn aðild Frakklands að Evrópusambandinu.

Í Frakklandi er tekist á um stefnu og völd forseta. Í forsetakosningum hér á landi er það ekki gert, kosið er um menn en ekki málefni. Enn á ný skal varað við að öðruvísi sé látið í kosningabaráttunni.