Sigtryggur Rúnar Ingvason fæddist 2. nóvember 1970. Hann lést 4. desember 2023.

Útför hans fór fram í kyrrþey.

Elsku bróðir. Skáldið Tómas Guðmundsson orti kvæðið Hótel Jörð sem fangar í senn lífsskeið mannsins og tilgang. Ég ætla að leyfa mér að nýta mér þennan texta til að setja saman nokkur kveðjuorð.

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag sem á sér upphaf á því andartaki sem við drögum fyrst andann. Það er á þeirri stundu sem við vitum ekkert um okkar áfangastað né það veganesti sem okkur er fært. En líkt og hjá flestum á upphafið stóran þátt í að móta sjálfsmynd okkar, sköpun okkar og hefur gríðarleg áhrif á hvaða vegferð við veljum okkur á fullorðinsárum.

Okkar fyrstu ár voru lituð af óvissu og ævintýrum hvers dags. Við vorum börn kerfisins sem vakti yfir okkur líkt og skuggi og tók ákvarðanir fyrir okkar hönd. Við höfðum lítið að segja um okkar líf né hvar við yrðum á morgun. Við áttum hvergi „heima“ í þeirri merkingu að eiga varanlegan samastað í tilverunni. Á þessu ferðalagi þráðum við bæði að fá að vera með fjölskyldu okkar og mömmu því þar var okkar „heima“. Því miður var það ekki möguleiki. Slík reynsla getur brotið fólk en þú nýttir hana til að styrkja þig og komast af.

Þú varst fljótt afar kappsamur, duglegur og ákveðinn ungur maður. Fortíð var fortíð og átti best heima þar, þú horfðir til framtíðar. Þú eignaðist konu, þrjú börn, byggðir hús og fórst í nám. Þú gerðir þitt besta til að færa börnum þínum allt sem þú hafðir ekki sem barn. Öryggi, stöðugleika, ást og nægtir. Í ysi og þys mannlífsins tókst þú keppnina um að krækja þér og þínum í nógu þægileg sæti og þú gerðir það vel. Þú varst hrókur alls fagnaðar og stoltur af þínu, enda máttir þú svo sannarlega vera það elsku bróðir. Ég var einnig stolt af stóra bróður mínum.

Við vorum ólík ég og þú. Ég tók aldrei þátt í lífskapphlaupinu, enda upptekin að skilja og setja merkingu á þá reynslu sem ég, sem lítið barn, átti. Mín vegferð var að skilja, læra, gera upp, fyrirgefa og ala upp mína syni ein.

Tilgangur okkar, lífsgildi, viðhorf og val okkar beindi okkur sínu hvorn veginn. Þessi ólíka áhersla og vegferð færði okkur í sundur á fullorðinsárum og varð til þess að gera okkur ókunnug, framandi og tengslalaus. Þegar við hittumst heilsuðumst við líkt og fjarskylt frændfólk. Ég var á einhvern hátt búin að sætta mig við það þegar fréttin kom, fréttin að þú værir farinn.

Hinsta kveðjan elsku bróðir minn finnst mér því þó nokkuð fátækleg og erfið. Að þurfa að grafa langt ofan í ferðatöskuna til að sækja góðar minningar, falleg augnablik, skemmtilegar svipmyndir af þér sem stóra bróður. Svipmynd af því þegar þú varst ástfanginn í fyrsta sinn af Ingu þinni, þegar þú eignaðist þitt fyrsta, annað og þriðja barn, þegar þú stækkaðir um helming við að byggja húsið ykkar. Að leita eftir brosinu þínu, finna fyrir stoltinu þínu, hlusta eftir hlátrinum þínum og muna eftir rauðhærða prakkaranum sem meinti þó aldrei neitt illt. Að finna þig í hugskoti mínu og hjarta og hversu undurheitt ég elskaði og elska þig.

Góða ferð elsku bróðir minn.

Þín systir,

Jórunn Arna.