Náttúrubarn Sigga fór í frönsku Alpana til fundar við múrmeldýr sem voru að vakna af dvala. Það eina sem má gefa þeim eru fíflar, sem hún tíndi á leiðinni. „Þessi villtu dýr nánast lágu í kjöltu mér og hökkuðu í sig fífla.“
Náttúrubarn Sigga fór í frönsku Alpana til fundar við múrmeldýr sem voru að vakna af dvala. Það eina sem má gefa þeim eru fíflar, sem hún tíndi á leiðinni. „Þessi villtu dýr nánast lágu í kjöltu mér og hökkuðu í sig fífla.“
Að halda þetta námskeið er mitt framlag til að auka sjálfbærni í heiminum. Frábær og einföld leið til þess er að borða það grænmeti sem vex í kringum okkur, til dæmis fífilinn, frekar en að fara út í búð og kaupa grænar lufsur í plasti sem eru langt …

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Að halda þetta námskeið er mitt framlag til að auka sjálfbærni í heiminum. Frábær og einföld leið til þess er að borða það grænmeti sem vex í kringum okkur, til dæmis fífilinn, frekar en að fara út í búð og kaupa grænar lufsur í plasti sem eru langt að komnar,“ segir Sigríður Melrós Ólafsdóttir sem stendur fyrir þriggja vikna netnámskeiði um nýtingu fífilsins undir heitinu: Blessaður fífillinn, gleði og grasnytjar.

„Að sækja villtar jurtir út í náttúruna og borða þær, liggur djúpt í eðli mínu. Ég hef tilhneigingu til að borða mig í gegnum náttúruna, því þar finnst mér sterkasta náttúrutengingin liggja. Ég ólst upp við að nýta ýmislegt úr nærumhverfinu, borðaði hundasúrur úti á túni eins og flestir af minni kynslóð og ég notaði fíflamjólk til að drepa vörtur á höndunum á mér, sem virkaði vel. Ég ólst upp í takti við árstíðirnar og náttúruna og dvaldi öll mín bernskusumur í sveitinni í Þingeyjarsýslu með mömmu. Þar tíndum við ber, fjallagrös og jurtir í te, en reyndar datt engum í hug í þá daga að leggja sér fífil til munns, hvað þá tína sveppi. Ég tileinkaði mér það seinna og hef farið í sveppamó hvert haust undanfarin mörg ár. Þegar ég heyrði af fólki sem steikti fíflaknúppa fannst mér það mjög heillandi og mörgum árum seinna fór ég að fikra mig áfram með að sækja jurtir beint út í náttúruna til að borða. Þá fór ég að vinna mér fífilinn til matar, en það gekk brösuglega framan af, ég hafði engan til að segja mér til og þá var ekkert internet til að gúgla upplýsingar. Ég hefði gjarnan viljað hafa ráðgjafa því oft mislukkaðist þetta hjá mér, en ég hélt samt áfram því fífillinn hefur alltaf heillað mig. Hann er það fyrsta sem vaknar á vorin, strax í apríl láta grænu blöðin hans á sér kræla í skjóli við húsveggi. Þá tryllist ég af löngun til að gera eitthvað með hann, nýta hann. Í heimsfaraldri gafst góður tími og ég varð svo æst í vorið í apríl þegar ég sá fífilinn vakna, að ég byrjaði að nota grænu blöðin í salat. Mig langaði að gera eitthvað fleira, svo ég lagðist í rannsóknir á því hvað væri hægt að búa til úr honum. Snemma á vorin safnaði ég litlu blómknúppunum hans, löngu áður en þeir opnuðu sig, þegar þeir eru niðri við jörð, og gerði úr þeim kapers. Ég stakk líka upp ræturnar og gerði allt mögulegt úr þeim. Þarna fór þetta loksins að lukkast hjá mér og verða bragðgott.“

Ræturnar eru mitt uppáhald

Sigga kynnti sér líka heilnæmið sem í fíflinum býr og hún fylgdi fíflinum allt hans þroskastig og gerði úr honum allt mögulegt sem hún gat borðað, frá rót og upp í blóm.

„Fífillinn er svo frábært grænmeti af því að það má borða allt af honum. Gott er að djúpsteikja gulu blómin eða búa til fíflasíróp úr þeim og ýmislegt fleira. Blöð fífilsins eru aðalgrænmetið, hver fífill býr til mörg blöð svo það er mikill efniviður í salat í fíflabreiðum. Einnig er hægt að steikja blöðin með hvítlauk, búa til pestó úr þeim og fleira. Uppáhaldið mitt eru ræturnar, kannski af því að það er alltaf svo óvænt sem kemur upp úr jörðinni þegar ég sting upp fíflarót. Þær geta verið langar, mjóar, þykkar, margslungnar og allavega í laginu. Þær draga upp næringu djúpt neðan úr jarðveginum. Úr rótunum geri ég „kaffi“ en það má nota ræturnar í ýmislegt annað, til dæmis í fíflarótarköku þar sem nota má gulrótarkökuuppskrift en skipta út gulrótum fyrir fíflarætur. Vorið og haustið er góður tími til að safna rótum.“

Skilur ekki vanþakklætið

Mörgum er illa við fífilinn, líta á hann sem illgresi og fjarlægja hann úr görðum sínum.

„Ég segi við það fólk: Hættið í fíflastríði, takið frekar þennan snúning á fífilinn: „If you can't beat it, then eat it.“ Ég hef lesið mér til um fífilinn og hann er mjög gagnlegur fyrir jarðveginn. Ef það eru margir fíflar í grasflöt þá getur það mögulega verið kalkskortur eða að jarðvegurinn sé of þéttur. Fífillinn bætir kalki í jarðveginn og hann losar um jarðveginn, síðan á hann að hverfa þegar hann er búinn að vinna vinnuna sína. Mér finnst merkilegt að við elskum fífilinn að mörgu leyti, um hann hafa verið ort kvæði og málaðar myndir og internetið er fullt af fallegum myndum af fíflum og biðukollum. Á sama tíma er okkur illa við hann og köllum þetta fallega gula blóm illgresi. Ég skil ekki þetta vanþakklæti gagnvart svo hollri og gjafmildri jurt. Hollustuplönturnar úti í náttúrunni eru þessar kraftmiklu plöntur, til dæmis njóli, hvönn og fífill. Þær eru fullar af orku og heilnæmi sem þær eru tilbúnar að gefa okkur, ef við kunnum að nýta þær. Lauf fífilsins eru mjög næringarrík, þau innihalda A-, C-, D- og B-vítamín, einnig járn, magnesíum, sink, mangan, kopar, kólin, kalk og bóron, en einna mest af kalíum. Fífillinn er líka vökvalosandi og hefur verið mikið notaður í alþýðulækningum og er það reyndar enn, við sjáum það í náttúrulækningabúðum, þar fæst margt unnið úr fíflum. Te úr fíflum virkar vel sem þvagræsilyf, en á námskeiðinu mínu fer ég ekkert út í það að vinna lyf úr fíflum, heldur hvernig hann nýtist okkur til matar. Ég fer í gegnum heilnæmið, því ég er á þeirri skoðun að við mannfólkið eigum að borða okkur til heilsu. Ef við borðum mjög hollt og hreint þá byggjum við upp góða heilsu. Þar kemur fífillinn sterkur inn, hann er afar holl jurt.“

Núvitund að tína jurtir

Sigga segir mikla gleði og fullnægju fylgja því að nýta jurtir í nærumhverfinu til matar.

„Í nútímasamfélagi skiptir máli að nýta, en sumir halda að þeir þurfi að fara langt til að fara út í náttúruna og verða sér úti um gnægtir, en hægt er að tína fífil úti í sínum eigin húsagarði og nánast hvar sem er. Að leita jurta, tína þær og nýta veitir sterka náttúrutengingu, en það er í eðli okkar mennskepnanna að vilja tengjast náttúrunni. Það er líka núvitund í því að tína jurtir, en ég held að þetta liggi djúpt í genum okkar, við erum mörg hver enn ekki komin langt frá söfnurum og veiðimönnum. Ég er ein af þeim, mér finnst gaman að nýta það sem náttúran gefur okkur og við eigum að borða það sem er nálægt okkur. Við erum alltaf að tala um sjálfbærni og lífræna ræktun, en gleymum að þetta er í hrönnum fyrir framan okkur, til dæmis fífillinn. Við þurfum ekki að kaupa allt sem við borðum.“

Netnámskeið Sigríðar um nýtingu fífilsins hefst 9. maí, skráning á: siggamelros.com/blessadur-fífillinn eða hafa samband í gegnum email: melros@siggamelros.com, Facebook: Melrós.