Tónskáld „Verdi var alla tíð annt um aðstæður manna,“ segir rýnir. Málverk eftir Giovanni Boldini frá 1886.
Tónskáld „Verdi var alla tíð annt um aðstæður manna,“ segir rýnir. Málverk eftir Giovanni Boldini frá 1886.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óperan Don Carlo eftir ítalska tónskáldið Giuseppe Verdi (1813-1901) var frumflutt í Parísaróperunni hinn 11. mars árið 1867 eftir sex mánaða þrotlausar æfingar (hún nefnist Don Carlos í frönsku gerðinni)

Af tónlist

Magnús Lyngdal Magnússon

Óperan Don Carlo eftir ítalska tónskáldið Giuseppe Verdi (1813-1901) var frumflutt í Parísaróperunni hinn 11. mars árið 1867 eftir sex mánaða þrotlausar æfingar (hún nefnist Don Carlos í frönsku gerðinni). Verdi hafði lengi gælt við að semja óperu við leikverk Schillers um Spánarerfingjann Karl (Carlo í óperunni), Don Carlos, Infant von Spanien, en jafnan vikist undan. Strax upp úr miðri 19. öld höfðu stjórnendur Parísaróperunnar stungið upp á leikverkinu við Verdi en þá varð úr að hann samdi óperuna I vespri siciliani (franska Les vêpres siciliennes) og var hún frumflutt í París í júní 1855 við mikinn fögnuð. Tíu árum síðar hófust svo samningaviðræður við Verdi um nýtt verk og kom þar leikverk Schillers enn til álita. Hið nýja verk yrði þriðja ópera Verdis fyrir Parísaróperuna en á undan I vespri siciliani var óperan Jérusalem sett þar á svið (1847), endurgerð óperunnar I Lombardi frá árinu 1843.

Verdi var fastur fyrir í samningum og sýndi jafnan mikla staðfestu í viðskiptum sínum við bæði útgefendur og forsvarsmenn óperuhúsa. Það sama var uppi á teningnum nú þegar viðræður um nýtt verk hófust í París 1865 en það skyldi flytja tveimur árum síðar í tilefni af Heimssýningunni í París. Í bréfaskiptum við óperustjórann, Emile Perrin, og franskan útgefanda sinn og trúnaðarmann, Léon Escudier, koma fram ýmsar hugmyndir, þar á meðal Lér konungur eftir Shakespeare, en nú hélt Verdi leikverki Schillers mjög á lofti öfugt við það sem hann hafði gert áratugi fyrr. Nú var því komið annað hljóð í strokkinn. Leikverk Schillers er „stórfenglegt“, skrifar Verdi, og úr skyldi verða stórfengleg ópera, stór í sniðum og áhrifamikil fyrir augu, eyru og sál; ópera sem tilheyrði þeim stíl sem nefndur er „grand opéra“ á frönsku.

Í öndverðu afréð Verdi að auka þyrfti að minnsta kosti tveimur atriðum við leikverk Schillers. Hann vann náið með textahöfundunum, Joseph Méry og Camille du Locle, að aðlögun verksins en það var í sjálfu sér ekkert nýtt, enda hafði tónskáldið ávallt miklar skoðanir á textagerð og taldi mikilvægt að texti og tónlist færu þannig saman að úr yrði form sem nefnt hefur verið „melodrama“ og er erfitt að þýða. Deila má um hvort viðbæturnar við leikverk Schillers hafi orðið til þess að bæta óperuna eða þá hvort dramatísk framvinda verksins sé sannfærandi en vísast má segja að í Don Carlo rísi tónskáldaferill Verdis einna hæst í tónlistarlegu tilliti og skipar óperan sér þar á bekk með verkum á borð við Simon Boccanegra (í gerðinni frá 1881) og Otello (frá 1887).

Verdi hóf að semja Don Carlo árið 1866 og var kominn langleiðina með verkið um sumarið. Þá ferðast hann til Parísar til þess að vera viðstaddur æfingar. Strax og þær hófust og nánast allt fram að frumsýningu gerði hann miklar breytingar á verkinu, sumar til styttingar og einföldunar, en jók við öðrum atriðum og má þar nefna aríu Elísabetar í upphafi 4. þáttar („Tu che le vanità“). Þegar upp var staðið reyndist verkið vera lengsta ópera Verdis, rúmar fimm klukkustundir í fimm þáttum (I vespri siciliani er líka í fimm þáttum en ekki eins löng). Kannski var það lengd verksins sem olli því að viðtökurnar voru ekki jafngóðar og búast mátti við. Uppfærslur verksins á Ítalíu hlutu sömu örlög; verkið þótti að vísu áhrifamikið en of langt og jafnvel of flókið. Auk þess voru gæði óperuflutnings á Ítalíu minni en í París á þessum tíma og jafn viðamikið verk og Don Carlo þoldi afar illa að kastað væri til höndum. Ekkert af verkum Verdis hefur enda gengið í gegnum annan eins hreinsunareld og mátt þola jafnmiklar styttingar, sumar af hendi tónskáldsins, aðrar án aðkomu hans og leyfis. Sú gerð verksins sem er oftast flutt í dag er hins vegar úr smiðju Verdis, svonefnd Mílanó-gerð frá tímabilinu 1883-1884. Hún er í fjórum þáttum (fyrsta þættinum úr fimm þátta gerðinni er sleppt) og var að mestu unnin beint upp úr franskri gerð verksins, þó svo að í þessari gerð sé verkið sungið á ítölsku. Hér í þessari grein er þáttaskipting miðuð við Mílanó-gerðina.

Tónskáldaferli Verdis er jafnan skipt upp í þrjú tímabil og þannig háttar til að óperurnar þrjár sem hann samdi fyrir Parísarbúa tilheyra hver sínu tímabili: Jérusalem því fyrsta, I vespri siciliani öðru og Don Carlo því þriðja. Tónskáldaferill hans spannar líka tíma átaka og byltingavafsturs í Evrópu en sjálfur var Verdi afsprengi ítalskrar endurreisnarmenningar. Hún átti rætur að rekja til kaþólsku kirkjunnar en óperuformið naut gríðarlegrar hylli á Ítalíu og ópera sem listform tók sannarlega þátt í að móta samfélagið, ekki hvað síst pólitískt. Fullyrða má að þar hafi fáir staðið Verdi á sporði, enda rammpólitískur.

Kannski má segja að í sinni einföldustu mynd lýsi Don Carlo baráttu en hún tekur á sig ýmsar myndir. Stóra myndin er barátta fyrir frelsi og mannlegri reisn, háð í skugga ægivalds ríkis og kirkju, og þó svo að upphaflegt verk Schillers eigi að gerast á 16. öld skírskotar það vissulega til samtíma þeirra beggja, Schillers (fæddur 1759) og Verdis (fæddur 1813). Franska stjórnarbyltingin umbylti hugsunarhætti Evrópubúa en sú breyting átti sér langan aðdraganda og það tók tíma að vinna úr henni. „Frelsi“ var þannig vandmeðfarið hugtak og síst til vinsælda fallið hjá yfirvöldum að flíka því mikið. Við sjáum þetta vel í Don Carlo. Öðrum megin á ásnum er frjálslyndi, meðal annars í trúmálum (Rodrigo), en hinum megin er Spænski rannsóknarrétturinn (yfirdómarinn). Mitt á milli er Filippus II. Spánarkonungur. Hann dáist að vísu að hugrekki Rodrigos en er jafnharðan minntur á stöðu sína af yfirdómaranum.

Þessi pólitísku átök verksins rammar Verdi inn með tveimur stórbrotnum atriðum, annars vegar dúett Filippusar og Rodrigos í fyrsta þætti og hins vegar dúett Filippusar og yfirdómarans í þriðja þætti. Í fyrra atriðinu talar Rodrigo máli Flæmingja, undirokaðrar þjóðar í Niðurlöndum sem heyrði undir Spánarkonung, og þar samtvinnast texti og tónmál með ógleymanlegum hætti. Rodrigo rekur þjáningar Flæmingja og talar fyrir trúfrelsi þjóðarinnar. Á endanum slær í brýnu milli þeirra þegar Spánarkonungur segist heita Flæmingjum friði. Sá „friður“ merkir vitanlega ekkert annað en full uppgjöf af hálfu Flæmingja; að þeir beygi sig undir valdið og Rodrigo svarar að bragði að boðskapur konungs tákni grafarþögn („La pace è dei sepolcri!“). Þessum orðum fylgir slíkur ægikraftur í hljómsveitinni að engum gleymist sem á hlýðir. Rodrigo er að þessu leyti uppreisnarmaður og það getur Spænski rannsóknarrétturinn aldrei fellt sig við. Yfirdómarinn krefst því fórnar hans í seinna atriðinu, ella mæti konungur sjálfur örlögum sínum fyrir réttinum.

Þetta er hið pólitíska yfirbragð óperunnar Don Carlo en verkið á sér aðra hlið og mannlegri þar sem við kynnumst sögu af hamingjuleysi og óendurgoldinni ást sem leiðir til niðurbrots og dauða. Þar eru konur verksins, Elísabet og Eboli, fórnarlömb en það er líka Karl (Carlo) sem fær hvorki notið þeirrar konu sem hann elskar né föðurástar. Þessar tvær hliðar verksins verða ekki aðskildar en sjónarhornið er vissulega á köflum ólíkt, allt frá mjög svo persónulegum hugleiðingum (til að mynda aría Filippusar í þriðja þætti, „Ella giammai m'amò“) upp í risavaxið galdrabrennuatriðið („Auto-da-fé“ í öðrum þætti). En það eru einmitt þessar andstæður sem gera Don Carlo að ógleymanlegu verki.

Verdi var alla tíð annt um aðstæður manna og sjálfur sagðist hann vilja læra af mannlegri reynslu. Sá lærdómur birtist meðal annars í persónum verka hans og í tilviki óperunnar Don Carlo kynnumst við mannlegri reisn, auðmýkt, kaldlyndi og hörku; persónum sem hugsa um hag annarra og leikendum sem eru nagaðir af samviskubiti og þjást jafnvel af egósentrískum sjálfsásökunum.

Náðargjöf Verdis fólst ekki síst í hæfileikanum að setja saman laglínur sem spunnust áfram í þykkum hljómsveitarvef og er óperan Don Carlo sönnun þess. Tónlistin er stundum svo sannfærandi, snertir svo djúpa kviku, að jafnvel óljós dramatísk framvinda verður lítið áberandi, enda var Verdi fyrst og fremst tónskáld mannlegra tilfinninga.