Slagur Sindri Björnsson úr Leikni og Njarðvíkingurinn Ibra Camara eigast við á Leiknisvellinum í fyrstu umferð 1. deildarinnar í fótbolta í gærkvöldi.
Slagur Sindri Björnsson úr Leikni og Njarðvíkingurinn Ibra Camara eigast við á Leiknisvellinum í fyrstu umferð 1. deildarinnar í fótbolta í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Arnþór
Nýliðar ÍR gerðu sér lítið fyrir og báru sigurorð af Keflavík á útivelli í fyrstu umferð 1. deildar karla í fótbolta í Keflavík í gærkvöldi, 2:1. Keflavík var í Bestu deildinni á síðustu leiktíð og ÍR í 2

Nýliðar ÍR gerðu sér lítið fyrir og báru sigurorð af Keflavík á útivelli í fyrstu umferð 1. deildar karla í fótbolta í Keflavík í gærkvöldi, 2:1. Keflavík var í Bestu deildinni á síðustu leiktíð og ÍR í 2. deild. Bragi Karl Bjarkason kom ÍR yfir á 24. mínútu en Valur Þór Hákonarson jafnaði aðeins tveimur mínútum síðar. Stefán Þór Pálsson kom ÍR aftur yfir á 45. mínútu og þar við sat.

Njarðvík vann einnig óvæntan útisigur á Leikni úr Reykjavík með sömu markatölu. Njarðvík rétt bjargaði sér frá falli á síðustu leiktíð á meðan Leiknir fór í umspilið. Björn Aron Björnsson og Dominik Radic sáu um að koma Njarðvík í 2:0, áður en Róbert Quental Árnason minnkaði muninn fyrir Leikni undir lokin.

Afturelding og Grótta gerðu jafntefli í Mosfellsbæ, 1:1. Afturelding komst yfir með sjálfsmarki strax á fjórðu mínútu en Hollendingurinn Damian Timian jafnaði á 55. mínútu í sínum fyrsta deildarleik hér á landi.

Þróttur úr Reykjavík og Þór frá Akureyri skildu einnig jafnir með sömu markatölu í Laugardalnum. Portúgalinn Rafael Victor, sem var ósjaldan á skotskónum sem leikmaður Þróttar, kom Þór yfir með marki úr víti á 29. mínútu. Stefndi allt í sterkan útisigur Þórs í fyrsta deildarleik liðsins undir stjórn Sigurðar Höskuldssonar en Norðmaðurinn Jörgen Pettersen jafnaði fyrir Þrótt í uppbótartíma og þar við sat.