Hermann Nökkvi Gunnarsson hng@mbl.is Margir af nánustu samstarfsmönnum Höllu Hrundar Logadóttur í forsetaframboði hennar eru stjórnendur og eigendur hjá fyrirtækjum sem hafa undanfarin misseri selt þjónustu til Orkustofnunar (OS) fyrir tugmilljónir króna. Halla Hrund er orkumálastjóri og forstöðumaður stofnunarinnar.

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Margir af nánustu samstarfsmönnum Höllu Hrundar Logadóttur í forsetaframboði hennar eru stjórnendur og eigendur hjá fyrirtækjum sem hafa undanfarin misseri selt þjónustu til Orkustofnunar (OS) fyrir tugmilljónir króna. Halla Hrund er orkumálastjóri og forstöðumaður stofnunarinnar.

Á síðustu 16 mánuðum hefur OS greitt samtals 31.117.824 krónur til þriggja fyrirtækja þar sem lykilmenn hafa líka verið lykilmenn í kosningateymi Höllu Hrundar eða upphafsmenn í facebook-hópi til stuðnings henni.

Um er að ræða ýmis verkkaup undir liðum á borð við „önnur sérfræðiþjónusta“, en unnt er að leita að þessum útgjöldum OS á vef opinna reikninga ríkisins.

Þrjú fyrirtæki eru þar efst á blaði, Langbrók ehf., Attentus ehf. og 99 ehf.

Morgunblaðið hefur áður greint frá því að Karen Kjartansdóttir hefur sinnt starfi samskiptastjóra OS í verktöku á vegum fyrirtækisins Langbrókar, sem hún er einn eigenda að, og hélt því áfram eftir að hún tók að aðstoða yfirmann sinn í framboði. Hún fór í leyfi í liðinni viku eftir að Morgunblaðið spurðist fyrir um tilhögunina.

Verksamningurinn var nýlega endurnýjaður til eins árs en aðrir starfsmenn Langbrókar hafa hlaupið í skarðið. Frá því að Orkustofnun samdi við Langbrók vorið 2023 hafa 12.764.265 kr. verið greiddar fyrir þjónustuna, um milljón á mánuði fyrir tveggja daga vinnu í viku.

Á sama tímabili fékk Attentus – Mannauður og ráð ehf. 10.740.208 kr. frá OS. Helga Lára Haarde er starfsmaður Attentus til margra ára, er í kosningastjórn Höllu Hrundar og tengiliður framboðsins við landskjörstjórn. Þá hafa þrír eigendur Attentus verið í facebook-hópi Höllu Hrundar frá upphafi, þau Drífa Sigurðardóttir, Inga Björg Hjaltadóttir og Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir.

Þess má geta að Attentus ehf. er ekki aðili að rammasamningi ríkisins um innkaup á rekstrarráðgjöf, en í samningnum er sérstakur kafli um mannauðsmál og eiga tólf önnur fyrirtæki aðild að samningnum.

Þá hefur fyrirtækið 99 ehf. fengið 7,6 milljónir í greiðslur frá OS á síðustu 16 mánuðum samkvæmt opnum reikningum ríkisins, ýmist merktar sem annar kostnaður eða myndbandagerð í bókhaldi OS eins og það birtist á Opnum reikningum. Eigandi 99 ehf. er Óskar Örn Arnarson. Hann er í kosningateymi Höllu, samkvæmt svörum frá framboðinu við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Megnið af fyrrnefndum greiðslum fellur undir „aðra sérfræðiþjónustu“, en liðna 16 mánuði hefur OS greitt liðlega 55 milljónir kr. vegna slíkra verka.

Ef tekin eru út fyrir sviga sérhæfð fyrirtæki og stofnanir í orkugeira standa ýmis önnur ráðgjafarfyrirtæki eftir sem alls fengu 32.861.839 kr. frá OS. Þar af fengu fyrrnefnd fyrirtæki með tengsl við framboð Höllu Hrundar a.m.k. 24.673.965 kr. eða ríflega 75% af heildinni.