Fer eigin leiðir Friedman er sérfróður um eldamennsku á miðöldum og hefur skrifað skáldsögur.
Fer eigin leiðir Friedman er sérfróður um eldamennsku á miðöldum og hefur skrifað skáldsögur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Rauðir fánar blakta í golunni fyrir utan hótelið þar sem bandaríski fjölfræðingurinn David Friedman dvelur við Austurvöll. Lýðurinn hefur safnast saman 1. maí.

Friedman hefur samtalið á að útskýra að hann sé mjög óminnugur á nöfn fólks en sé umræðuefnið rifjað upp muni hann undir eins hver á í hlut.

„Konan mín kom auga á það fyrir löngu að ég flokka fólk eftir samtölum,“ segir Friedman léttur í bragði.

Hvernig heldur þú þér forvitnum?

„Nú ég lifi í heimi þar sem margt vekur forvitni manns.“

Mér skilst að þú hafir skoðun á loftslagsmálunum og hlýnun jarðar?

„Það er líklegt að meginskýringin sé umsvif mannsins, þótt kerfið sé afar flókið, og því er erfitt að vera fullviss. Það er skoðun rétttrúnaðarins um áhrifin. Raunar eru tvær rétttrúnaðarskoðanir. Önnur er helber þvættingur og sú sem ég tel að sé sennilega röng. Það er hugmyndin um hamfarahlýnun. Séu alvöru rannsóknir hjá IPCC [milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar] eða [hagfræðingnum William] Nordhaus skoðaðar virðast hin spáðu áhrif ekki ýkja mikil.

Áhrifin í raun lítil

Nordhaus áætlar í bók sinni að ef ekkert verður að gert gert verði heimsframleiðslan í lok þessarar aldar nokkrum prósentustigum minni en ella vegna loftslagsbreytinga. Og séu áætlanir IPCC skoðaðar þá kemur í ljós að þær benda til að sjávarmál muni hækka um hálfan metra í lok þessarar aldar. Og sé málið hugleitt er það töluvert mikið minna en munurinn á flóði og fjöru. Svo að það hefur vissulega áhrif en þau eru lítil.

Því tel ég að hugmyndin um yfirvofandi hamfarir sem muni þurrka út siðmenninguna sé hreinlega þvættingur. Sú hugmynd að þeim fylgi veruleg útgjöld sem ættu að vera okkur áhyggjuefni er ekki þvættingur, en ég er ekki viss um að hún sé rétt. Sé málið skoðað vandlega er engin ástæða til að gefa sér að hlýnun sé slæm … Og maðurinn býr við mismunandi hitastig svo að munað getur 20 gráðum á Celsíus. Sé hitakort af jörðinni skoðað og kort sem að sýnir íbúaþéttleikann þá virðist ósennilegt að það muni hafa ógnvænleg áhrif ef meðalhitinn hækkar um tvær gráður. Síðan, ef raunáhrifin eru skoðuð, þá mun hækkun sjávarmáls hafa neikvæð áhrif en mjög lítil. Lækkandi PH-gildi hafanna [eða súrnun hafanna] kann að hafa neikvæð áhrif og það veruleg en við vitum ekki hversu mikil. Margar lífverur í höfunum eru viðkvæmar fyrir breytingum á sýrustigi hafsins.

Eru að verða sjaldgæfari

Það teljast líka vera neikvæð áhrif að fellibyljir séu að verða öflugri. Fækkun fellibylja sem veikari teljast eru jákvæð áhrif. Eitt af því sem fór í taugarnar á mér í samantekt fyrir stefnusmiði í síðustu skýrslu IPCC er að þar segir að öflugri fellibyljir verði hlutfallslega tíðari en veikari. Það er að segja fellibyljir í flokkum 4 og 5 í samanburði við flokka 1 til 3. Draga á þá ályktun að öflugri fellibyljir verði tíðari. Það þarf að lesa skýrsluna til að komast að því að ástæða þess að hlutfallið er að hækka er að veikari fellibyljir eru að verða sjaldgæfari. Ég tel einnig að öflugri fellibyljir séu að verða dálítið öflugri og það eru neikvæð áhrif. Á hinn bóginn eru nokkur mælanleg jákvæð áhrif [af hlýnun]. Koldíoxíð kemur við sögu í ljóstillífun. Sýnt hefur verið fram á áhrifin á uppskeru með mörgum tilraunum. Þannig að í grundvallaratriðum gera spár ráð fyrir að áhrifin [af hlýnun] á framboð matvæla verði mjög jákvæð.“

Ekki hlutverk dómstóla

Mannréttindadómstóll Evrópu felldi nýverið þann dóm að Sviss hefði brotið gegn rétti fjögurra kvenna, ein er að vísu látin, og samtökum eldri kvenna með því að vernda þær ekki nógsamlega fyrir hitabylgjum sem rekja mætti til hlýnunar af mannavöldum. Dómstólar eru því farnir að taka sér stöðu gegn ríkisstjórnum fyrir að bregðast á þessu sviði. Hver er skoðun þín á þessu?

„Ég tel að dómstólar séu afleitur vettvangur … til að ákvarða opinbera stefnumótun, sem er það sem þeir eru að reyna að gera.

Ég tel líka að niðurstaðan sé röng. Segjum að það sé á engan hátt ljóst að gömlu konurnar séu verr staddar [vegna hlýnunar]. Reynt hefur verið að áætla áhrifin af hlýnun á dánartíðni og áætlað er að dánartíðnin hafi lækkað, en ekki hækkað, vegna hlýnunar hingað til. Hún gæti hækkað í framtíðinni. Við vitum það ekki.

Ég tel að nú standi yfir enn furðulegri tilraun í Bandaríkjunum til að reyna að heyja baráttuna í forsetakosningunum fyrir dómstólum fremur en í kjörklefanum, en það er einnig tilraun til að reyna að nota dómstólana til að ganga lengra en skynsamleg valdmörk segja til um.“

En að öðru. Vinur minn Lawrence Krauss eðlisfræðingur er af gyðingaættum. Hann hafði á orði í viðtali við Woody Allen, sem einnig er af gyðingaættum, að gyðingar væru stöðugt að blanda sér í samræður og rökræða hlutina. Hvaðan kemur þetta í menningu ykkar?

„Ég veit það ekki.“

Hefurðu velt því fyrir þér?

„Reyndar ekki. Þ.e.a.s. til eru mynstur í hegðun sem virðast mér náttúruleg en ég þekki ekki. Og þau eru ekki bundin við gyðinga. Ég minnist þess að faðir minn hafði á orði að George Stigler (nóbelsverðlaunahafi í hagfræði) væri gyðingur. Hann var ekki af gyðingaættum en var í raun gyðingur. Og þá var faðir minn að lýsa manngerð, ekki uppruna.“

Sagan af Marsbúunum

Ég hef oft velt því fyrir mér hvað skýri að gyðingar séu svo áberandi í vísindum og bókmenntum?

„Það á raunar sérstaklega við gyðinga í Ungverjalandi. Hefurðu heyrt söguna um Marsbúana?“

Nei.

„Hún er um hóp manna frá Búdapest sem margir gengu í sama framhaldsskóla. Menn sem sköruðu fram úr. Mig minnir að einn þeirra hafi verið frægur eðlisfræðingur (en hann hét Leo Szilard) og hafi útskýrt þetta með því að þeir væru Marsbúar. Þaðan er nafngiftin komin.“

Getur verið að það einkenni menningu gyðinga að foreldrar taki virkan þátt í að mennta börnin sín sem þannig fái einskonar forskólun?

„Við göngum ekki í forskóla. Við tölum við börnin okkar. Ég ræði hlutina við börnin mín og foreldrar mínir gerðu það við mig. Eitt af því sem ég gerði þegar að ég var með litlum börnum var að þjálfa þau með því að setja fram röksemdir sem væru nógu slæmar til þess að þau sæju í gegnum þær,“ segir Friedman og bregður á leik. Bendir á handlegginn og segir „hér er fótleggur og tær.“

Þá er ég að hugsa um hvernig þekkingu er miðlað milli kynslóða?

„Þekkirðu til Polgár-systranna (sem urðu heimsfrægar fyrir skáksnilli)?“

Já.

„Ég nefni þær því að þær eru dæmi um að umhverfið hafi meiri áhrif en genin. Þær kunna að hafa haft góð gen en það var uppeldið sem var óvenjulegt. Og niðurstaðan, eins og þú vafalaust þekkir, var fremsta skákkona sögunnar (Judit Polgár, sem er af gyðingaættum, en faðir hennar, László, ól systurnar upp til að verða afburðamenn).

Hvernig þekkirðu annars til Polgár-systranna?“

Judit Polgár var vel þekkt á Íslandi og Kasparov var á vissan hátt Íslandsvinur, eins og við segjum um fólk sem leggur oft leið sína hingað. Hann er gyðingur og það var Bobby Fischer líka.

„Ég var eitt sinn á siglingu milli Ítalíu og Grikklands en ég var þá í framhaldsnámi. Þá voru um borð aðlaðandi kona með börnin sín og maður hennar. Ég gaf mig á tal við hann og spurði hvort hann væri frægur maður og það kom í ljós að hann hét (Vladimir) Ashkenazy og var píanóleikari.“

Ashkenazy fjallar í ævisögu sinni (sem Jasper Parrott skráði og Guðni Kolbeinsson þýddi) um muninn á fólki sem bjó við frelsi á Vesturlöndum og á Rússum sem bjuggu við ófrelsi á Sovéttímanum. Hvað finnst þér um þá kenningu?

„Ég hef sett fram skylda röksemd. Ég hef fjallað um það sem ég kalla hagfræði lasta og dyggða,“ segir Friedman og útskýrir í löngu máli að samfélag þar sem fólk gerir hlutina af ófrjálsum vilja verði verra samfélag en þar sem fólk hefur frelsi til athafna.

Faðirinn sáttur við ævistarfið

Afnám herskyldu meðal sigra

Faðir Davids Friedmans, Milton, hafði mikil áhrif á efnahagsstefnu Ronalds Reagans og Margaret Thatcher á 9. áratugnum. Markaði þannig djúp spor. En var hann sáttur við ævistarfið? „Það held ég,“ segir David.

Og hvernig hann hafði áhrif á heiminn?

„Það held ég. Ég tel ekki að hann hafi haldið að allt hefði verið fært til betri vegar. En ég tel að hann hafi álitið sig hafa haft áhrif til góðs.“

Og hver voru djúptækustu áhrifin?

„Tja, Bandaríkin hafa afnumið herskyldu. Það var eitt af stóru málunum. Ég tel að meiri virðing sé borin fyrir frjálsri verslun og minni virðing borin fyrir reglugerðum stjórnvalda vegna skrifa hans. Bandaríski seðlabankinn reynir enn að fínstilla hagkerfið, sem voru mistök frá upphafi, svo að ég er ekki viss um að honum hafi tekist ætlunarverk sitt þar. En gerði a.m.k. seðlabankamennina tortryggnari á ferlið.“