Ótíð Illviðriskaflar að vori kallast t.d. páskahret, sumarmálarumba, hrafnagusa eða kaupfélagshundahret.
Ótíð Illviðriskaflar að vori kallast t.d. páskahret, sumarmálarumba, hrafnagusa eða kaupfélagshundahret. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Hún var ekki uppörvandi fréttin á leiðaraopnu Morgunblaðsins 4. maí 1982, þegar vorið átti að vera gengið í garð: „Norðanáttin sem gengið hefur yfir landið með miklum kuldum miðað við árstíma mun halda áfram að blása í einhverja daga í viðbót. Á Norður- og Austurlandi hefur gengið á með éljum um helgina þar sem landið er opið fyrir hafáttinni, en bjart hefur verið sunnanlands. Í Reykjavík hefur hitinn lægst mælst mínus sex gráður 1. og 2. maí en frá 1956 hefur slíkt gerst þrisvar sinnum á þessum árstíma. Á Akureyri komst hitinn í mínus sjö gráður 3. maí en frá 1965 hefur hitinn á Akureyri einu sinni farið niður í mínus 10 stig á þessum árstima.“

Morgunblaðið hafði síðan samband við nokkra fréttaritara sína á Norður- og Austurlandi og bað þá um að segja dálítið frá veðrinu þar.

Fyrstur tók til máls fréttaritarinn á Akureyri, Sv.P. eða Sverrir Pálsson skólastjóri, sem sagði fréttir að norðan í Morgunblaðinu um tveggja áratuga skeið, frá 1963 til 1983.

„Menn hér um slóðir eru að vísu við því búnir á hverju vori að kuldaköst komi og illviðriskaflar enda eru þeim gefin ýmis nöfn svo sem páskahret, sumarmálarumba, hrafnagusa eða kaupfélagshundahret. Hinu eru menn óvanir að jafnillvíg óveður með hríðum og frosti dögum saman hrelli gróður, dýr og menn þegar þessi tími árs er kominn,“ sagði hann.

Komin þíð undan vetrarfönn

Um miðjan apríl meðan allt lék í lyndi, jörð var orðin auð á láglendi, komin þíð undan vetrarfönn tók draumspakan og forvitri mann að dreyma stóra hvíta fjárhópa eða laust hey, sem þakti jörðina langt upp eftir fjöllum svo að illan grun setti þá að ýmsum. „Sá grunur hefur nú reynst réttur. Vegir í nágrenninu eru ýmsir illfærir og sumir ófærir vegna snjóa og mikil hálka er á götum bæjarins. Flestir bíleigendur höfðu skipt um hjólbarða og voru komnir á sumardekk fyrir nokkru, enda ekki annað sýnna um sumarmál en það væri óhætt, vorið virtist vera komið eða í næstu nánd. Menn undirbjuggu komu sumarsins með ýmsu móti, tóku til í görðum sínum, sáðu til gulróta og annars grænmetis og voru hinir bjartsýnustu. Tré voru tekin að laufga og grasið að skjóta nál úr mold.“

En svo skipti um. Grænkandi jörð gallfraus og síðan lagðist snjórinn yfir. Farfuglar báru sig aumlega. Lóur komu heim að eldhúsdyrum, hrossagaukar kúrðu undir runnum og þrestir hópuðust saman á hlemmum yfir holræsum, sem afrennslisvatn hitaveitunnar hélt þíðum. „Þar eru kettir hins vegar sjaldan langt undan, hrekkjóttir, lævísir og blóðþvrstir. Þessa stundina er að sjá í svartan hríðarvegg þegar litið er út um gluggann eins og á þorradegi væri en ekki á maímorgni.“

Ekki ófærð á götum

Fréttaritarinn á Sauðárkróki hét því viðeigandi nafni Kári og var Jónsson. Hann greindi frá því að snjó hefði dregið í skafla en engin ófærð væri þó á götum ennþá. „Það gengur í dag yfir með dimmum éljum en birtir á milli. Það er eins og á haustdegi, hvasst og talsverður snjór. Þetta þykir mjög óvenjulegt veður hér á þessum árstíma og að það skuli standa svona lengi. Það er fjögurra til fimm gráðu frost. Gróður er almennt ekki enn farinn að taka við sér eftir vetrardvalann, sem betur fer. Það er aðeins í görðum sem gras er eitthvað farið að grænka eftir mjög góðan aprílmánuð.“

Komin var kafaldshríð

Þegar fólk vaknaði á sunnudagsmorgni, 2. maí, á Egilsstöðum var komin kafaldshríð svo vart sá milli húsa og götur orðnar ófærar vegna fannfergis, að sögn fréttaritara sem ekki lét nafns síns getið. Samkomuhald féll niður, m.a. varð messufall. Upp úr hádegi létti ögn til en síðan gekk á með snjóbylgjum fram eftir hádegi. „Menn muna ekki slíkt fannfergi hér á þessum tíma árs. Í dag er veður bjart en eins til tveggja stiga frost. Götur í þorpinu hafa verið ruddar svo og flugvöllurinn og nú er verið að ryðja þjóðveginn á Fagradal. Veður hefur verið óvenju umhleypingasamt hér í vetur. Eftir páska kom hins vegar góður hlýindakafli og voru menn farnir að trúa því að nú væri vorið loksins komið og teknir til við vorverk í görðum er þessi ósköp dundu yfir.“

Kuldakastið kom sér illa

Ásgeir fréttaritari í Neskaupstað sagði þetta kuldakast koma sér afar illa. „Eftir að búið var að vera gott veður síðustu tvo mánuði, þar sem hitinn hafði farið upp í 18 stig, eru þetta hroðaleg viðbrigði. Skyndilega skall á norðanátt og nú hefur snjóað mikið en snjórinn er nokkuð til hlífðar viðkvæmum gróðri. Það fylgir þessu ekki mikið frost hér í Neskaupstað, svona tvö til þrjú stig á daginn en meira á nóttunni. Einhverjir voru byrjaðir að setja niður kartöflur í heimagörðum og kemur veðrið því fólki mjög illa. Þessa stundina er ófært yfir Oddsskarð en í dag er dumbungsveður og gengur á með éljum. Fuglar eiga í vandræðum og hafa lítið til ætis og er afar hart í búi hjá þeim.“

Albert á Fáskrúðsfirði sagði að verið hefði vetrarveður frá því seinnipart næstliðinnar viku. Snjór lá yfir jörðu og frostið hafði komist upp í átta stig. Menn voru óhressir yfir að fá yfir sig vetur svona allt í einu eftir hálfs mánaðar gott veður. „Tré voru farin að laufgast svo eitthvað verða þau illa úti í þessu veðri. Núna er norðankaldi, gekk á með éljum í morgun. Vegir hafa verið ruddir svo nú er ágætis færð á vegum. Héðan er fært til Egilsstaða og suður með. Menn eru svo sem ekkert óvanir svona kuldakafla á þessum tíma ársins en finnst hann standa heldur lengur yfir í þetta sinnið.“

Stórhríð á hverjum degi

Ekki var ástandið skárra í Skagafirði. Eftir mjög góða tíða, svo góða að tún voru farin að grænka, skipti um hinn 29. fyrra mánaðar. „Nú er stórhríð á hverjum degi. Vötn voru orðin auð og silungur var farinn að aflast. Nú eru öll vötn frosin á ný og má segja að nú ríki vetur á ný.“

Mikið hafði snjóað í Siglufirði dagana á undan, að sögn fréttaritara. Vegagerðarmenn sögðu að snjórinn á veginum milli Siglufjarðar og Skagafjarðar væri sá mesti sem komið hafði allan veturinn. „Hér í bænum er nú einnig töluverður snjór og vetrarríki mikið. Aflabrögð hafa verið frekar léleg að undanförnu, en nú hefur frést af góðum grálúðuafla togara nálægt miðlínu milli Grænlands og Íslands.“

Fátt er svo með öllu illt …

Höf.: Orri Páll Ormarsson