[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessa dagana er ég að lesa bókina The feminist killjoy eftir Söru Ahmed. Bókin kom út í fyrra og er sett fram sem handbók fyrir „gleðispilla“ af ýmsu tagi. Þið vitið – fyrir þau sem finnst erfitt að sitja undir rasískri,…

Þessa dagana er ég að lesa bókina The feminist killjoy eftir Söru Ahmed. Bókin kom út í fyrra og er sett fram sem handbók fyrir „gleðispilla“ af ýmsu tagi. Þið vitið – fyrir þau sem finnst erfitt að sitja undir rasískri, kvenfjandsamlegri eða annarri meiðandi umræðu í fjölskylduboðum eða á kaffistofunni í vinnunni. Sara er öflug fræðikona sem skrifar um þetta efni á aðgengilegan hátt. Ég er búin að tilkynna mörgum að þau verði að lesa þessa bók, bæði þeim sem eru nú þegar virkir gleðispillar en líka hinum sem langar að vera það. Með húmor og einstaka innsýn að vopni býður Sara upp á hressandi lesningu fyrir öll sem vilja gera heiminn örlítið betri.

Svo hef ég verið að glugga í bókina Eimreiðarelítan: spillingarsaga. Það er óhætt að segja að hér sé á ferðinni gagnrýnin greining á því hvernig þræðir valdsins liggja í íslensku samfélagi. Í bókinni er rifjað upp hvert spillingarmálið á fætur öðru síðastliðna áratugi og sett í samhengi við elítukenningar. Virkilega hressandi og fróðleg lesning.

Ég bjó um tíma í Svíþjóð þar sem ég kynntist verkum Jonas Hassen Khemiri. Hann skrifar frá sjónarhóli innflytjandans; þess sem upplifir að vera aldrei alveg nóg sama hvað hann leggur sig fram. Nokkur verka hans hafa verið þýdd á íslensku, meðal annars bókin Allt sem ég man ekki, sem ég held mikið upp á. Nýjasta bókin hans, The sisters, segir í grunninn frá lífi þriggja systra sem reyna að finna sinn stað í tilverunni. Undir niðri kraumar glíman við tímann sem líður sífellt hraðar, að tilheyra, veruleika og ímyndun, brotinn uppvöxt, drauma og vonbrigði. Þetta er hrífandi og eftirminnileg saga sem þræðir sig m.a. um Svíþjóð, Túnis og New York.

Að lokum langar mig að nefna og mæla með bók eftir heimspekinginn Ólaf Pál Jónsson, samstarfsmann minn. Annáll um líf í annasömum heimi kom út fyrir örfáum árum og inniheldur tólf sjálfstæða kafla þar sem fléttast saman ljóð og heimspekilegar hugleiðingar um hversdagsleikann, náttúruna og lífið. Ég kíki oft í þessa bók þegar mig vantar innblástur og jarðtengingu.