— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hvaða nýju braut er verið að þróa fyrir Borgarholtsskóla? Hún heitir heilsu- og lífsstílsbraut og er ný námsbraut til stúdentsprófs. Námsbrautin er ætluð nemendum sem hafa áhuga á hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og andlegri líðan fólks

Hvaða nýju braut er verið að þróa fyrir
Borgarholtsskóla?

Hún heitir heilsu- og lífsstílsbraut og er ný námsbraut til stúdentsprófs. Námsbrautin er ætluð nemendum sem hafa áhuga á hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og andlegri líðan fólks.

Á hvað verður lögð áhersla?

Helstu nýjungar í þessu námi eru stóraukin áhersla á hreyfingu og tenging hreyfingar við heilbrigðan lífsstíl. Grunn- og kjarnafög s.s. líffræði, næringarfræði, sálfræði, félagsfræði og þjálffræði munu taka mið af samhliða kennslu með verklega hluta brautarinnar. Lögð er áhersla á að læra um grunnþætti andlegrar heilsu og samspil andlegrar heilsu og hreyfingar. Jákvæð sálfræði, innhverf íhugun, jóga, svefn, geðrækt og heilsulæsi fá stóraukinn sess í þessu námi. Verklegir áfangar verða miklu fleiri en gengur og gerist.

Hvernig verða þessir verklegu áfangar?

Tvisvar sinnum tveir klukkutímar í viku verða verklegir áfangar. Þetta eru ekki íþróttir heldur hreyfing af ýmsu tagi; göngutúrar, hjólatúrar og margt fleira. Eins er kennt hvernig hægt er að nýta sér útivist eftir árstíðum. Svo er farið í grunnatriði í uppbyggingu líkamans; vöðvafræði og lífeðlisfræði.

Er þetta nám fyrir íþróttafólk?

Nei, þú þarft ekki að stunda íþróttir til að fara í þetta nám. Þú þarft bara að hafa áhuga á heilsu og þú þarft að stunda hreyfingu meðan á námi stendur. Stór þáttur í þessu námi er að gefa andlegri heilsu stóran sess. Hvaða möguleika höfum við til að fyrirbyggja vanlíðan og hvernig getum við hjálpað einstaklingum sem glíma við kvilla andlegrar heilsu að koma til baka úr erfiðum aðstæðum.

Af hverju viltu stofna þessa braut?

Þjóðfélagið er að breytast. Fólk hugsar meira um heilsu sína og er tilbúið að fjárfesta í eigin heilsu í ríkara mæli. Þeir nemendur sem útskrifast af þessari braut hafa góðan undirbúning í heilsutengdar greinar í háskólum, s.s. íþróttafræði, næringarfræði, hjúkrunarfræði og sjúkraþjálfun.

Bjarni Jóhannsson er yfir nýrri braut í Borgarholtsskóla sem nefnist heilsu- og lífsstílsbraut. Allar upplýsingar má finna á borgo.is.