Ef við mátum fjóra efstu í skoðanakönnunum nú við fjórmenningana sem öttu kappi 1980 þá eiga þau hreint ekki illa saman.

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Eins kjánalega og þetta byrjaði allt saman þá er raunverulegt fjör að færast í leikinn og maður að verða vel peppaður fyrir þessum forsetakosningum sem standa fyrir dyrum. Þær hafa alla burði til að verða spennandi. Eins og við þekkjum er keppni eitt allra göfugasta form mannlegra samskipta og ekki spillir fyrir þegar sigurlaunin eru sjálfir Bessastaðir.

Eins og margir hér um slóðir þá hef ég bara einu sinni upplifað tvísýnar forsetakosningar, 1980. Við Þórður frændi sátum þá flötum beinum fyrir framan sjónvarpið heima hjá ömmu og færðum samviskusamlega allar tölur sem úr tækinu hrukku inn í stílabók – fram í dagrenningu. Spennan var nánast áþreifanleg enda afar mjótt á munum milli tveggja efstu, Vigdísar Finnbogadóttur og Guðlaugs Þorvaldssonar.

Langt var þangað til við frændur fengjum kosningarétt en ég man að Þórður hélt með Alberti Guðmundssyni vegna þess að hann átti hund. Það var raunar enginn venjulegur hundur, heldur einn frægasti hundur Íslandssögunnar, hún Lucy. Blessuð sé minning hennar! Og þeirra beggja. Ég man ekki fyrir mitt litla líf hverjum ég fylgdi að málum enda erum við stjórnmálafræðingar víst ekki minnugasta stétt landsins. Það hlýtur þó að hafa verið Albert enda hafði hann leikið með Arsenal. Mögulega hafði ég þó ekki gert mér grein fyrir þeirri staðreynd á þessum tíma enda ekki nema níu ára og rétt nýbúinn að kynnast Liam Brady, Alan Sunderland og þeim köppum sem þá runnu um grundir. Hina merku sögu Arsenal drakk ég í mig seinna. Ég tengdi hins vegar ekkert sérstaklega við Lucy enda eignaðist ég ekki minn fyrsta hund fyrr en löngu síðar.

Ef við mátum fjóra efstu í skoðanakönnunum nú við fjórmenningana sem öttu kappi 1980 þá eiga þau hreint ekki illa saman. Halla Hrund Logadóttir er Vigdís, hið ljósa man og ferskur andblær. Baldur Þórhallsson er Guðlaugur, geðþekkur opinber starfsmaður. Katrín Jakobsdóttir er Albert, reyndur stjórnmálamaður með blæti fyrir knattspyrnu. Hún heldur að vísu með Liverpool en ekki Arsenal sem gæti kostað hana einhver atkvæði. Jón Gnarr og Pétur J. Thorsteinsson eru við fyrstu sýn ekki endilega líkir menn en eins og við þekkjum þá á Kamel-Jón ekki í nokkrum vandræðum með að bregða sér í allra kvikinda líki. Ekki svo að skilja að Pétur hafi verið kvikindi, maður tekur bara svona til orða. Ég veit ekki annað en að hann hafi verið ljúfmenni en kannski ekki mesti grallaraspói landsins. Muniði fyrir hvað Joðið stóð hjá Pétri? Já, einmitt, Jens. Eins og hjá Þorsteini J. Ætli þeir séu skyldir?

Og ætli einhver af frambjóðendunum nú eigi hund?