[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um þrír af hverjum fjórum landsmönnum, 18 ára og eldri, fengu svikaskilaboð í tölvupósti eða á samfélagsmiðlum á síðastliðnum tveimur árum. Tölvupóstur er algengasta leiðin því rúmlega 76% hafa fengið svikaskilaboð í tölvupósti á síðustu misserum

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Um þrír af hverjum fjórum landsmönnum, 18 ára og eldri, fengu svikaskilaboð í tölvupósti eða á samfélagsmiðlum á síðastliðnum tveimur árum. Tölvupóstur er algengasta leiðin því rúmlega 76% hafa fengið svikaskilaboð í tölvupósti á síðustu misserum. Samfélagsmiðlar koma þar á eftir en nærri 72% fengu svikaskilboð á þeim. 62% fengu svikaskilaboð í SMS-skeytum.

Þetta kemur fram í niðurstöðum neytendakönnunar á reynslu fólks af svikaskilaboðum og netsvikum sem Gallup vann fyrir Fjarskiptastofu. Könnunin var gerð í seinni hluta desember sl. í kjölfar hrinu svikasímtala sem símnotendur hér á landi fengu fyrr í sama mánuði. Niðurstöðurnar hafa nú verið birtar á vef Fjarskiptastofu.

Könnunin var netkönnun sem náði til 1.699 manns af öllu landinu með handahófsúrtaki og hafa ber í huga að þátttökuhlutfallið var 47,9%.

„Af samfélagsmiðlum sker Facebook sig úr, en nærri 66% hluta neytenda hafa fengið svikaskilaboð þar á undanförnum tveimur árum, Instagram kemur næst með nærri 22%,“ segir í frétt Fjarskiptastofu um niðurstöðurnar. Um 5% fengu svikaskilaboð á Snapchat.

Þegar svörin eru greind eftir aldurshópum kemur í ljós að vel yfir 80% fólks á fimmtugs- og sextugsaldri fengu svikaskilaboð í tölvupósti og 79% fólks á fimmtudagsaldri fengu svikaboð á samfélagsmiðlum. Lægst er hlutfallið meðal 70 ára og eldri en 64% fólks á þeim aldri fengu svikaskilaboð í tölvupósti og 69% á samfélagsmiðlum.

Flest svikaskilaboðin innihéldu hlekk sem átti að smella á og var sú t.a.m. raunin í um og yfir 90% SMS-skeyta og tölvupósta. Fáir gengu þó í gildruna því svörin sýna að aðeins 6% smelltu á hlekkinn samkvæmt svörunum. Hlutfall þeirra sem smelltu á hlekkinn var lægst í yngri aldurshópunum en nokkru hærra meðal eldri landsmanna og hæst var hlutfall þeirra sem smelltu á hlekkinn í elstu aldurshópunum.

Flestir töpuðu tíu þúsund krónum eða lægri fjárhæð

Fólk var einnig spurt hvort það hefði orðið fyrir tjóni vegna netsvika og var einkum vísað til fjárhagslegs tjóns eða að persónuupplýsingum hefði verið stolið. Í ljós kemur að tæp 6% svöruðu spurningunni játandi en um 94% sögðust ekki hafa orðið fyrir tjóni.

94,5% þeirra sem urðu fyrir tjóni vegna netsvika sögðust hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Rúm 13% höfðu einnig glatað aðgangi að þjónustu- eða vefsvæði vegna svikanna.

Þegar spurt var hversu mikið tjónið var í þúsundum króna sögðust flestir hafa tapað tíu þúsund krónum eða lægri fjárhæð. Hafa ber í huga að svarendur sem urðu fyrir tjóni eru fáir af heildarfjölda svarenda.

Í frásögn Fjarskiptastofu er bent á að tjón mælist ekki algengt en tæp 6% neytenda hafi þó orðið fyrir því. Slíkt tjón sé nær alltaf fjárhagslegt. „Umtalsverðar fjárhæðir eru nefndar þegar spurt er um það, en þó dreifðust svör þeirra sem skýrðu frá slíku tjóni frá undir 10 þúsund krónum til yfir 300 hundruð þúsunda. Hafa verður í huga að fá svör eru að baki þeim svörum, svo ekki er hægt að byggja mjög á þessum niðurstöðum, en þær benda þó til að meðaltjón sé um eða yfir 100 þúsund krónum,“ segir í umfjöllun Fjarskiptastofu.