Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir
Sjálfsagt er að ræða hvers vegna þörf er á vaxtabótakerfi á Íslandi en þá þarf líka að ræða kostnað almennings af íslensku krónunni.

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir

Nýjustu spár benda til að verðbólgumarkmið náist ekki fyrr en 2026. Þegar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var rædd á Alþingi í síðustu viku var glíma við verðbólgu og háa vexti í aðalhlutverki. Við sama tilefni fyrir ári var kastljósið líka á verðbólgu og háum vöxtum. Þá sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra: „Vandi okkar er sá að við höfum dálítið tapað trú fólks á að við náum verðbólgunni niður. Það verður að breytast.“ Enn er verðbólga há og enn standa stýrivextir í 9,25%. Nú segja spár að markmiðið gæti verið innan seilingar eftir tvö ár.

Tene-ferð blásin af

Ný fjármálaáætlun geymir ekki betri verkfæri til að ná niður verðbólgu en sú síðasta. Ráðherrar fara auðveldu leiðina og einstaka framkvæmdum er frestað. Almenningur og fyrirtæki í landinu taka þess vegna áfram reikninginn í gegnum háa verðbólgu. Um endurtekið efni er að ræða og við sjáum aftur kynningar um að fresta eigi nýrri byggingu stjórnarráðsins. Hún var nú reyndar ekki á dagskrá því henni hafði áður verið frestað. Í samhengi við heimilisbókhald mætti segja að þar hafi verið blásin af Tene-ferð sem ekki stóð til að fara í. Sú framsetning er dálítið merkileg.

Of lítið púður fer í að ræða rekstur. Í rekstri ríkisins liggja hins vegar tækifæri til að fara betur með fjármuni. Verkefni ríkisins eru misjafnlega brýn.

Í staðinn eru ákveðnir málaflokkar undanskildir en að öðru leyti sett sama flata aðhaldskrafa á alla. Flöt aðhaldskrafa bitnar fyrst og fremst á fjárfestingu og kemur t.d. harkalega niður á stofnunum eins og lögreglu þar sem nánast allur kostnaður er launakostnaður. Vinna ríkisstjórnarflokkanna byggist ekki á greiningum um hvernig er hægt að fara betur með fjármagn eða auka framleiðni. Afstöðuleysi eins og þetta hefur alvarlegar afleiðingar fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu. Fyrirtæki fá árið 2025 1% skattahækkun, líka þau minni og meðalstóru sem nú þegar eru að glíma við hækkandi verð á aðföngum og háa vexti.

Millistéttin skilin eftir

Óbreytt ástand í ríkisfjármálunum eru vondar fréttir fyrir millistéttina, því hún á áfram að taka á sig háan vaxtakostnað ofan á verðbólgu. Ríkisstjórnin boðar nú að leggja niður vaxtabótakerfið og vísar í erlendar fyrirmyndir. Vextir á Íslandi verða hins vegar alltaf hærri en erlendis á meðan við erum með krónuna. Sveiflur verða áfram ýktari með lítinn og viðkvæman gjaldmiðil. Fjármálaráðherra segir að vaxtabætur séu sérkennilegt fyrirbæri. Það er alveg rétt en það er íslenska krónan líka. Sjálfsagt er að ræða hvers vegna þörf er á vaxtabótakerfi á Íslandi en þá þarf líka að ræða kostnað almennings af íslensku krónunni. Nýleg könnun sýnir að verðbólga og háir vextir hafa mikil eða mjög mikil áhrif á heimilisbókhald hjá 70% þjóðarinnar. Ástandið bitnar harðast á þeim sem þurfa að standa straum af mestu útgjöldunum miðað við tekjur, eins og ungu barnafólki. Fólk sem er með húsnæðislán og jafnvel námslán. Það er forgangsmál Viðreisnar að hér séu skapaðar aðstæður fyrir vaxtalækkanir. Stöðugleikann vantar og það er stöðugleiki sem fólk vill.

Hagvöxtur á mann

Þegar Viðreisn hefur spurt hvers vegna þurfi margfalt hærri vexti hér á landi en annars staðar er svarið yfirleitt að það sé vegna þess að hér sé mikill hagvöxtur. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að hagvöxtur á Íslandi er minni á mann en í nágrannalöndunum. Á Íslandi hefur hagvöxtur á mann verið minni en á Norðurlöndunum og minni en Evrópumeðaltal þrátt fyrir að hagkerfið hafi vaxið hraðar. Þetta er ástæða þess að fólk finnur ekki sérstaklega fyrir auknum lífsgæðum. Fólk finnur hins vegar rækilega fyrir þenslunni sem birtist í mikilli verðbólgu, háum vöxtum og háu húsnæðisverði.

Evrópumeistarar í háum vöxtum

Viðreisn hefur lengi bent á að ríkisstjórnin skilji Seðlabankann einan eftir í glímunni við verðbólgu. Það hafa aðilar vinnumarkaðarins gert og seðlabankastjóri sjálfur. Lyklahafar fjármálaráðuneytisins, þrír talsins undanfarna sex mánuði, hafa einfaldlega ekki hlustað. Gert er ráð fyrir um 46 milljarða króna halla á ríkissjóði 2024. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hins vegar birt skýrslu þar sem gert er ráð fyrir að hallinn verði um 95 milljarðar 2024. Spá sjóðsins er talsvert svartsýnni en áætlun fjármálaráðherra til lengri tíma. Ástæðan er sú að sjóðurinn segist ekki geta reiknað með óútfærðum breytingum á lögum sem kannski eða kannski ekki verða samþykktar. Getur ekki byggt áætlanir á draumsýn. Sú gagnrýni er sanngjörn. Gagnlegt gæti verið að fylgja tillögu OECD um útgjaldaþak. Það gæti styrkt gæði fjárlagavinnunnar að skilgreina útgjaldaþök sem byggjast á þjóðhagsspám og framreikningi. Það gæti stutt við önnur markmið ríkisfjármálanna og stuðlað að því almannahagsmunamáli að ná niður verðbólgu.

Markmiðið verður að vera að losna undan því að Ísland beri vandræðalega Evróputitla hvað varðar verðbólgu og vexti. Það er eitthvað skakkt við þá stöðu að íslenskir ráðherrar fagni því sem sigri að verðbólga sé komin í 6%.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar og fulltrúi í fjárlaganefnd.

Höf.: Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir