Ljónagryfjan Njarðvíkingurinn Dwayne Lautier-Ogunleye sækir að körfu Valsmanna í gærkvöldi. Kristófer Acox gerir hvað hann getur til að verjast.
Ljónagryfjan Njarðvíkingurinn Dwayne Lautier-Ogunleye sækir að körfu Valsmanna í gærkvöldi. Kristófer Acox gerir hvað hann getur til að verjast. — Morgunblaðið/Skúli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur gerði góða ferð til Njarðvíkur í gærkvöldi og jafnaði einvígi liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í 1:1 með 78:69-útisigri í Ljónagryfjunni. Hafa því bæði lið unnið sterka útisigra til þessa í einvíginu

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Valur gerði góða ferð til Njarðvíkur í gærkvöldi og jafnaði einvígi liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í 1:1 með 78:69-útisigri í Ljónagryfjunni. Hafa því bæði lið unnið sterka útisigra til þessa í einvíginu.

Njarðvík vann fyrsta leik á Hlíðarenda, 105:84. Valsmenn voru staðráðnir í að láta ekki keyra yfir sig annan leikinn í röð og var varnarleikur deildarmeistaranna til fyrirmyndar, enda fékk liðið á sig 36 stigum minna en í fyrsta leik.

Leikurinn var í járnum nánast allan tímann og var staðan í hálfleik 39:37, Val í vil. Aðeins einu stigi munaði fyrir fjórða leikhlutann, 60:59. Valsmenn spiluðu glæsilega vörn í lokaleikhlutanum og skoraði Njarðvík aðeins tíu stig gegn átján hjá Val.

Stigaskor Vals hefur verið svipað í báðum leikjum til þessa og virðast úrslit einvígisins ætla að ráðast á því hve vel Njarðvíkingum tekst að leysa varnarleik Vals, sem er yfirleitt mjög sterkur. Það tókst vel í fyrsta leik, en töluvert verr í gær.

Valsmenn refsuðu grimmt

Það segir allt sem segja þarf að Valur skoraði 22 stig eftir að Njarðvík tapaði boltanum. Njarðvík skoraði aðeins sex slík stig. Þá hitti Njarðvík aðeins úr 23 prósentum skota fyrir utan þriggja stiga línuna gegn 39 prósenta nýtingu hjá Val.

Kristinn Pálsson, sem er uppalinn Njarðvíkingur, kann vel við sig í Ljónagryfjunni. Hann var stigahæstur Valsmanna með 25 stig og þá tók hann einnig fimm fráköst. Næstur í jöfnu Valsliði var Írinn Taiwo Badmus en hann gerði 16 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Englendingurinn Dwayne Lautier-Ogunleye skaraði fram úr hjá Njarðvík. Hann skoraði 28 stig, tók átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Dominykas Milka skoraði 11 stig og tók 15 fráköst. Njarðvík þurfti miklu meira frá Bandaríkjamanninum Chaz Williams, en hann skoraði aðeins fjögur stig í gær og var með afleita skotnýtingu.

Næsti leikur er á Hlíðarenda á þriðjudag.