Lárus Pétursson fæddist í Stykkishólmi 30. nóvember 1944. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á hjúkrunarheimilinu Systraskjóli í Stykkishólmi 18. apríl 2024.

Foreldrar Lárusar voru hjónin Pétur Jónsson, f. 26. nóvember 1913, d. 14. júlí 1980, og Vilborg Lárusdóttir, f. 2. september 1916, d. 6. ágúst 1998.

Lárus var þriðji í röð sjö systkina. Hin eru: Jósefína G., f. 21. mars 1940, Jón Svanur, f. 21 júlí 1942, Hreinn, f. 21. júní 1946, d. 7. mars 1969, Sigurður, f. 1. apríl 1950, Þórey J., f. 31. maí 1953, og Rakel H., f. 12. desember 1958.

Hinn 18. september 1965 giftist Lárus Hafdísi Knudsen, f. 22. janúar 1945, d. 2. mars 2024. Þau eignuðust tvo syni: Guðmund Sigurð Þór, f. 25. mars 1965, og Knút Loga, f. 14. ágúst 1972. Guðmundur Sigurður er giftur Joy Suebsan, f. 25. september 1978. Knútur Logi er giftur Kolbrúnu Ýri Jónsdóttur, f. 15. janúar 1976, og saman eiga þau þrjú börn þau, Laufeyju Maríu, f. 4. desember 2000, Mikael Inga, f. 13. október 2004, og Elínu Rós, f. 20. júlí 2012.

Lárus ólst upp í Stykkishólmi og bjó þar alla sína tíð. Hann lauk húsasmíði árið 1969 og svo síðar sem húsasmíðameistari. Hann lagði stund á tónlistarkennaranám og lauk því árið 1986. Lárus fékk nafnbótina fornhúsasmiður Stykkishólms eftir að hafa í yfir 50 ár komið að viðgerð og endursmíði margra gamalla húsa í Stykkishólmi. Hann var einnig virtur tónlistarkennari í Tónlistarskóla Stykkishólms og Grundarfjarðar.

Hjónin stofnuðu og ráku veitingahúsið Knudsen frá árinu 1991 í nokkur ár.

Útförin fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 4. maí 2024, klukkan 14.

Elsku pabbi okkar, nú er komið að kveðjustund. Þú varst alltaf góður faðir og fyrirmynd. Þú hafðir óendanlega þolinmæði og skeyttir aldrei skapi á fólki eða hlutum, lést aldrei hafa eftir þér eitthvað neikvætt. Hjá þér var ávallt stutt í brosið, húmorinn og gott skap, þú barst alltaf virðingu fyrir náunganum og þínu nærumhverfi.

Þú gafst þér alla tíð tíma fyrir okkur, allt og alla og lifðir fyrir að láta gott af þér leiða og hjálpaðir til við allt, sama hvað það var. Þú dáðir að vinna með höndunum og hafðir óendanlegan metnað fyrir öllu sem þú tókst þér fyrir hendur, hvort sem það var vinnutengt eða til skemmtunar og afþreyingar, ekkert var nógu ómerkilegt til að gera það ekki eins vel og mögulegt var.

Þú hjálpaðir okkur við byggingu okkar fyrstu heimila og allt það sem kom svo þar á eftir hér heima eða hvar sem við settumst að, hvort sem það var tengt húsasmíði eða hverju sem þitt óendanlega áhugasvið, útsjónarsemi og færni kallaði á. Þú settir ávallt hagsmuni okkar fjölskyldu, ættingja og vina í forgang og varst ósérhlífinn og óeigingjarn allt fram á síðustu stundu.

Þín lífsgildi og manngæska hafa alltaf og munu alltaf vera okkur óendanlegur innblástur. Þið mamma skiljið eftir ykkur stórt skarð en tilhugsunin um að þið eruð á betri stað núna en síðustu mánuði veitir okkur huggun. Takk fyrir allt sem þið gáfuð okkur og okkar.

Ykkar synir,

Knútur Logi og Sigurður Þór.

Lífi er svo hverfult, fyrir nokkrum mánuðum hefði mig ekki órað fyrir því að ég myndi þurfa að skrifa þessi orð. En það er víst komið að kveðjustund, elsku tengdapabbi hefur nú kvatt okkur. Á þessum tímamótum í lífi okkar er efst í huga þakklæti fyrir þann dýrmæta tíma sem við höfum átt saman og allar þær dásamlegu stundir sem við getum hugsað til. Lalli eins og hann tengdapabbi minn var alltaf kallaður var einstakur maður að öllu leyti, ég var svo lánsöm þegar ég kynntist mínum elskulega eiginmanni Knúti að fá með honum svona dásamlega tengdaforeldra. Samband mitt og Lalla míns var alveg einstakt. Einlægari, hugulsamari og yndislegri mann hefði ég ekki getað hugsað mér sem tengdaföður og sú dýrmæta vinátta sem myndaðist á milli okkar var svo einlæg og hlý. Þegar ég sest niður til þess að hugsa um síðustu 25 ár er svo óendanlega margt sem kemur upp í hugann, og að reyna að koma öllum þessum orðum niður á blað til að lýsa þér og þeim stundum sem við áttum saman virkar svo fátæklegt. Þrátt fyrir sorg í hjarta yfir því að missa þig svona stuttu eftir að elsku tengdamóðir mín kvaddi, fyllist ég ekki bara sorg heldur einnig ómældu þakklæti fyrir að hafa fengið að vera með í ykkar ferðalagi. Lalli minn hefur séð til þess að hann muni ávallt fylgja okkur í gegnum lífið, hann var svo ósérhlífinn. Það sem hann hefur gert fyrir okkur og fjölskylduna er ómetanlegt, alltaf var hann klár að nýta smíðahæfileika sína til þess að rétta fram hjálparhönd. Lalli forgangsraðaði alltaf okkur með aðstoð sína við að smíða og gera heimili okkar falleg hvort sem það var hérlendis eða erlendis. Við erum svo lánsöm að hafa ættarsetrið okkar í Hólminum til minningar um Lalla okkar þar sem hver spýta hefur sál hans og hjarta og við vitum að þar verður hann ávallt með okkur. Stundir okkar saman að ógleymdum dönsku dögunum hver einustu jól saman skipa stóran sess í okkar lífi, erfitt verður að hugsa til þess að þessar stundir verða ekki eins héðan í frá. Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir fyrir okkur öll, og ekki hefði mann grunað að þið hjónin mynduð kveðja okkur svona fljótt. Svona getur lífið verið hverfult og hugsum við því með miklum kærleik og hlýju til síðustu jóla, voru þau með eindæmum yndisleg og er því mikið þakklætið fyrir þann dásamlega tíma sem við áttum saman uppi í bústað hjá okkur, það sem var hlegið. Ég veit að hún tengdamóðir mín hefur tekið vel á móti honum Lalla sínum og þau lögð af stað í sína fallegu siglingu.

Ég kveð ykkur elsku tengdaforeldrar mínir, við eigum ykkur svo margt að þakka, við erum full þakklætis fyrir ykkar mikla kærleik, væntumþykju og gleði sem þið gáfuð mér og fjölskyldunni. Ég verð ykkur ævinlega þakklát fyrir allar okkar stundir og þá opnu arma sem þið gáfuð mér, og ekki síst þá ást sem þið gáfuð okkur og barnabörnunum. Ykkar verður sárt saknað.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Takk fyrir allt, ykkar tengdadóttir,

Kolbrún Ýr.

Elsku besti afi Lalli okkar, við eigum erfitt með að trúa því að þú sért farinn en við vitum að amma Haddý hefur tekið vel á móti þér. Við munum minnast þín elsku afi með miklum söknuði og hlýhug en jafnframt gleði í hjarta fyrir allar dýrmætu stundirnar okkar saman. Við erum svo þakklát þegar við rifjum upp hversu heppin við erum að hafa átt svona yndislegan afa, fyndinn og kærleiksríkan.

Elsku afi, þú elskaðir ekkert meira en að búa til ævintýri með okkur og varst einstaklega laginn við að fá okkur til þess að gera hluti með þér, og skilyrðislaust gafstu okkur alltaf þinn tíma og athygli þegar við vorum í heimsókn. Það sem þú gast stjanað við okkur út í eitt og elskaðir ekkert meira en að smíða fyrir okkur dót, lítinn leikkofa, barnarúm, upphafsstafina okkar með sérstökum ljósum sem þú hannaðir sjálfur, fuglahús og margt margt fleira. Langir göngutúrar sem enduðu oftast úti á róló og svo má ekki gleyma badminton sem var í miklu uppáhaldi. Dönsku dagarnir í Hólminum og jólin voru ávallt í okkar uppáhaldi líka, því það var svo gaman að vera með þér í undirbúningi. Þú varst sérlegur skreytingastjóri og hjálpuðum við þér að skreyta Tjarnarhólmahúsið að innan sem utan, enda amma Haddý mikill fagurkeri og leiðbeindi okkur og afa vel við að skreyta. Að hlusta á afa spila á gítarinn og kenna okkur var mikil gleði.

Elsku afi og amma, þegar við hugsum til baka um þær yndislegu stundir sem við áttum með ykkur fyllast hjörtu okkar af óendanlegu þakklæti, hlýju og ást. Við eigum eftir að sakna mikið ykkar en minningarnar lifa að eilífu.

Ykkar ástkæru barnabörn,

Laufey María, Mikael Ingi og Elín Rós.

Minning um Lárus Pétursson er fæddist í Stykkishólmi 30. nóvember 1944, þriðji í röð sjö systkina og bjó uppvaxtarárin á Þvergötu 1 í Stykkishólmi. Foreldrar voru Pétur Jónsson stýrimaður og Vilborg Lárusdóttir húsfreyja. Systkin, Jósefína, Svanur, Hreinn, Lárus, Sigurður, Þórey og Rakel, voru mjög náin, mikið leikið og brallað. Á neðri hæð bjuggu amma og afi, Þórey og Lárus og Benedikt er bjó enn heima og setti mikinn brag á heimilið. Benni var mjög músíkalskur, góður harmonikkuleikari og spilaði einnig á trompet. Því var mikil tónlist í fjölskyldunni.

Þarna ólst Lárus upp við mikið ástríki sem setti svip sinn á hann alla ævina. Þetta var stórt heimili, stór smíðaskúr Lárusar afa sem Lárus átti góðar stundir með. Benni gaukaði að honum Andrési Önd og Popular mechanics-blöðum. Sem krakki var Lárus einfari og í framhaldi grúskari og safnari. Hann fór ófáar ferðir á ruslahauginn í Hólminum til að viða að sér alls kyns efni og drasli sem varð kveikjan að áræðnum hugmyndum og undirstaða að tilraunum, m.a. hannaði og smíðaði hann einstakan kassabíl sem var tilkeyrður á Aðalgötunni, nýsteyptri. Þá hannaði Lárus flugvél og smíðaði hana og átti að setja á loft eftir Aðalgötunni, þrátt fyrir góða aðstoð tókst flugtak ekki.

Vegna frábærra hugmynda var Lárus oft kallaður Georg geirlausi, Lárus smíðaði skíði úr tunnustöfum fyrir sig og systkinin. Lárus byggði kofa við hlið smíðaskúrsins hans afa og setti á laggirnar bíóhús og rukkaði inn 25 aura fyrir sýningu. Hann hannaði myndefnið og lék öll hlutverkin.

Lárus var skáti og undi sér vel við ævintýri skátanna. Lárus byrjaði snemma í tónlist, stofnaði m.a. nokkrar hljómsveitir, fyrst Júnó. Lárus upplýsti að hljómsveitin héti eftir saumavél móður hans. Hann tók þátt í nokkrum öðrum danshljómsveitum sem héldu uppi fjörinu á Snæfellsnesi.

Lárus giftist Hafdísi Knudsen 1965, þau eignuðust Sigurð Þór 1965 og Knút Loga 1972. Lárus byggði þeim hús, Silfurgötu 43. Hafdís og Lárus voru mjög náin hjón. Lárus fékk snemma nafnbótina fornhúsasmiður Stykkishólms og kom að endurbyggingu margra húsa í Stykkishólmi, þ.m.t. Norska húsið. Vinnubrögð hans voru mjög metnaðarfull. Lárus efldi tónlistarhæfileika sína og kláraði nám til að verða tónlistarkennari. Heimkominn kenndi hann í Tónslistarskóla Stykkishólms allt fram undir sjötugt, eftir það kenndi hann á gítar heima í Tjarnarhólma. Mörg börn fengu tækifæri til þess að læra á gítar hjá Lárusi í Stykkishólmi eða Grundarfirði.

Þau hjón stofnuðu veitingahúsið Knudsen en Lárus byggði húsið undir veitingastaðinn, stóð þar vaktina sjálfur, bakaði pítsur og afgreiddi þyrsta gesti og keyrði jafnvel suma þeirra heim eftir lokun. Lárus var hæverskur og heilsteypt fyrirmynd, jákvæður og bar ríka virðingu fyrir öðrum og nærumhverfi sínu, ósérhlífinn og óeigingjarn. Lárus var einn af stofnendum golfklúbbsins Mostra. Hvíl þú í friði, kæri bróðir og mágur.

Sverrir Kristjánsson.

Elsku Lárus hefur kvatt okkur.

Honum var margt til lista lagt, lærður húsasmíðameistari og tónlistarkennari. Spilaði á gítar og kenndi við Tónlistarskólann í Stykkishólmi. Auk þess kenndi hann áhugasömum nemendum á gítar heima í Tjarnahólma.

Það var yndislegt að koma í heimsókn og hlusta á hann spila. Fyrir utan að vera góður gítarspilari var hann líka mjög flottur söngvari.

Við kynntumst Lárusi og Hafdísi þegar dóttir okkar Kolbrún kynntist syni þeirra, honum Knúti. Það var alltaf jafn yndislegt að koma í heimsókn í Tjarnarhólmann, alltaf heitt kaffi á könnunni. Mikið fjör á Dönskum dögum í Stykkishólmi, mikill gestagangur þar á bæ.

Lárus byggði heilsárshús með Knúti, rétt fyrir utan Stykkishólm. Í gegnum árin erum við búin að vera þar mjög mikið með okkar yndislegu barnabörnum, Laufeyju Maríu, Mikael Inga og Elínu Rós. Þar voru Lárus og Hafdís alltaf mætt í gleðskapinn.

Fyrir utan að byggja heilsárshúsið með Knút byggði hann Tjarnarhólmann. Endurbyggði mörg eldri húsin í Stykkishólmi, sem gerir bæinn einstakan. Má segja að hann hafi verið snillingur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur.

Hafdís okkar kvaddi þennan heim 2. mars 2024. Það er með mikilli virðingu og söknuði sem við kveðjum þessi elskulegu hjón. Minningin í gegnum allar góðu stundirnar í gegnum árin lifir og þakklæti fyrir þá vissu að guð geymi ykkur vel.

Elsku Knútur og fjölskylda og Sigurður og fjölskylda. Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð, megi guð vera með ykkur í sorginni.

Svanhildur, Jón Stefán og fjölskylda.

Lárus Pétursson húsasmíðameistari og tónlistarkennari verður kvaddur frá Stykkishólmskirkju laugardaginn 4. maí nk. Við Lárus áttum margvíslegt samstarf í Stykkishólmi. Ég kunni að meta áhugamál hans, tónlistina, húsasmíði og endurgerð gamalla húsa. Ungur að árum heimsótti ég fjölskyldu Lárusar í Stykkishólmi og var kynntur fyrir frændfólki mínu á Þverveginum en Þórey Ólína Nikulásdóttir amma Lárusar var systir afa míns Bjarna Nikulássonar í Böðvarsholti í Staðarsveit. Eftir það fylgdist ég með Lárusi þegar hann var farinn að spila á gítar í hljómsveitum frá Stykkishólmi sem léku á sveitaböllum á Snæfellsnesi. Þessar hljómsveitir sem Lárus spilaði í voru mjög vinsælar og þar var hópur frábærra hljóðfæraleikara og söngvara.

Tónlistin var sérstakt áhugamál Lárusar og fljótlega eftir að ég tók við starfi sem bæjarstjóri í Stykkishólmi var Lárus ráðinn kennari við Tónlistarskólann. Hann lagði sig fram við að fræðast um tónlistarkennslu og sótti námskeið sem efldi hann sem tónmenntakennara. Hann kenndi á gítar, blokkflautu og tónfræði. Á þessum árum var rík áhersla lögð á að byggja upp Tónlistarskólann sem efldi mjög tónlistarlífið í bænum og þá ekki síst lúðrasveitina sem var öflug og hefur í dag verið starfandi í heil áttatíu ár. Lárus starfaði við skólann allt til ársins 2015.

Eins og að framan er getið þá var Lárus húsasmíðameistari. Ég kynntist þeirri hlið starfa hans þegar vinna hófst við endurgerð Norska hússins sem var í eigu sýslusjóðs og hýsir nú byggðasafn Snæfellinga. Við endurgerð gamalla húsa fann hann sig vel enda frábær smiður og hafði mikinn metnað fyrir því að gömlu húsin í Stykkishólmi væru varðveitt og endurgerð svo sem margir Hólmarar höfðu hug á eftir að húsakönnun Stykkishólms var unnin og fjöldi húsa var friðaður með traustum stuðningi margra áhugamanna um húsagerð. Eftir að Lárus var ráðinn í fasta stöðu við Tónlistarskólann vann hann við smíðar yfir sumartímann og þegar færi gafst frá kennslunni. Lárus naut þess að byggja falleg hús sem sjá mátti þegar þau hjónin Lárus og Hafdís Knudsen byggðu hús í miðbænum og settu þar upp veitingahús. Sú framkvæmd sýndi vel virðingu hans fyrir byggingararfinum í Stykkishólmi og áhuga þeirra fyrir því að efla atvinnulífið í bænum en á þeim tíma var ferðaþjónustan að eflast og því þörf fyrir veitingahús. Þegar hjúkrunarheimilið Systraskjól var opnað í húsinu sem áður var St. Fransickussjúkrahúsið voru þau Lárus og Hafdís í þeim hópi sem fyrst settist þar að sl. haust, en heilsufar þeirra gaf þeim ekki tækifæri til þess að dvelja lengi á þeim góða stað og hafa nú bæði kvatt. Ég minnist Lárusar frænda míns með þakklæti fyrir samstarf og góð samskipti og votta ættingjum hans og fjölskyldu samúð okkar Hallgerðar.

Sturla Böðvarsson.

Í dag, laugardaginn 4. maí, er kvaddur frá Stykkishólmskirkju Lárus Pétursson, tónlistarmaður og smiður. Ég var ekki búin að búa lengi í Stykkishólmi þegar hann bar fyrir augu þar sem hann stóð fremst á sviði hótelsins, spilaði á rafgítar og söng fyrir dansi við hlið Hafsteins Sigurðssonar og fleiri poppara úr Hólminum. Þeir Lalli og Haddi (ekki Halli og Laddi) störfuðu mikið saman í gegnum árin, ekki bara í dansmúsíkinni, heldur störfuðu þeir í áratugi hlið við hlið í Tónlistarskóla Stykkishólms þar sem ég kom einnig við sögu um tíma.

Lárus Pétursson, Lalli Pé, kenndi í áratugi í gítardeild tónlistarskólans, bæði klassískan gítar, rafgítar og rafbassa og kom einnig við sögu í tónfræðikennslu og blokkflautukennslu eins og gerist og gengur í litlum tónlistarskólum. Hann náði einstöku sambandi við nemendur sína sem sýnir sig í þeirri tryggð sem þeir tóku við hann, virðingu og væntumþykju á báða bóga. Og ljúfari samstarfsmann er ekki hægt að hugsa sér, hvort sem var við fagleg störf eða þegar brugðið var á leik utan vinnutíma. Og til að gera nemendum sínum sem mest gagn stundaði hann sjálfur nám í klassískum gítarleik í einkatímum árum saman.

Góður smiður var Lalli, þess bera vitni verkin hans vítt um bæinn, en hann stundaði smíðar gjarnan fyrir hádegið en eftir hádegið tóku kennslustörfin við. Hann tók m.a. að sér ýmis smíðaverkefni fyrir okkur hjónin og var alltaf gaman og glatt á hjalla þegar þau stóðu yfir. Þá var gott að geta treyst á smekkvísi Lalla og gott smiðsauga.

Enn eru óupptalin fjölmörg tónlistarverkefni sem Lalli tók þátt í, hvort sem reyndi á klassískan gítarleik, popp, rokk eða djass, þar sem gjarnan komu við sögu fyrrnefndur Hafsteinn og aðrir kennarar tónlistarskólans, Jón Svanur bróðir Lalla, Jósep læknir og fleiri. Þar ber að nefna söfnunar-, heiðurs- og minningartónleika ýmiskonar, leikfélagið og kirkjuna svo eitthvað sé nefnt.

Já, hver bær er lánsamur sem á svona fjölhæfa menn í sínu samfélagi og nú er mál að kveðja góðan vin og félaga með virðingu og þökk. Þykir mér afar leitt að hafa ekki tök á að fylgja honum síðasta spölinn. Synirnir tveir, Sigurður og Knútur, og fjölskyldur þeirra fá innilegar samúðarkveðjur, en nú hafa foreldrar þeirra, hjónin samhentu Lárus Pétursson og Hafdís Knudsen, kvatt með fárra vikna millibili. Megi minning þeirra lifa.

Jóhanna Guðmundsdóttir.