Kópavogur Húsið við Nýbýlaveg.
Kópavogur Húsið við Nýbýlaveg. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Móðir sem lá undir grun um að hafa ráðið sex ára gömlum syni sínum bana í janúar sl. og gert tilraun til þess að svipta eldri son sinn lífi hefur játað ætlaða sök. Þetta gerðist á heimili fjölskyldunnar við Nýbýlaveg í Kópavogi

Móðir sem lá undir grun um að hafa ráðið sex ára gömlum syni sínum bana í janúar sl. og gert tilraun til þess að svipta eldri son sinn lífi hefur játað ætlaða sök. Þetta gerðist á heimili fjölskyldunnar við Nýbýlaveg í Kópavogi. Konan, sem er nærri fimmtugu, var ákærð fyrir manndráp og stórfellt brot í nánu sambandi. Einnig fyrir tilraun til manndráps við sömu aðstæður.

Í ákæru segir að konan hafi svipt son sinn lífi með því að setja kodda yfir andlit hans og með báðum höndum þrýst koddanum yfir vit hans og þrýst á háls hans og efri hluta brjóstkassa og ekki sleppt tökum fyrr en drengurinn hafði kafnað.

Þá er hún sögð hafa farið inn í svefnherbergi eldri drengsins þar sem hann lá sofandi, tekið fyrir vit hans og í hnakka. Þrýsti hún svo andliti hans niður í rúmið. Drengurinn náði að snúa sig út úr takinu.

Mál þetta var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Þinghald var lokað. Greint hefur verið frá því að konan játi sök en beri við ósakhæfi á verknaðarstundu.

Fyrir hönd eldri drengsins er farið fram á að móðirin greiði honum 10 milljónir króna í bætur auk þess sem faðirinn vill átta milljóna króna bætur.