Töffarar FBI-fulltrúar eru miklir töffarar.
Töffarar FBI-fulltrúar eru miklir töffarar.
Í New York-borg hefur alríkislögreglan greinilega nóg að gera, ef marka má sjónvarpsþættina FBI sem sýndir eru í Sjónvarpi Símans. Hópur velþjálfaðra alríkisfulltrúa eltir uppi morðingja, mannræningja og hryðjuverkamenn eins og ekkert sé

Ásdís Ásgeirsdóttir

Í New York-borg hefur alríkislögreglan greinilega nóg að gera, ef marka má sjónvarpsþættina FBI sem sýndir eru í Sjónvarpi Símans. Hópur velþjálfaðra alríkisfulltrúa eltir uppi morðingja, mannræningja og hryðjuverkamenn eins og ekkert sé. Í hverjum þætti er eitt mál tekið fyrir og er sama formúlan í hverjum þætti. Morð, sprengjuhótun eða mannrán á sér stað í borginni og allt fer á fullt í höfuðstöðvunum. Þar er fjöldi sérfræðinga sem finna yfirleitt skúrkana í gegnum eftirlitsmyndavélar og eru þá lið send á vettvang. Yfirleitt sleppur skúrkurinn fyrst því ekki má svíkja áhorfandann um góðan eltingarleik, annaðhvort á hlaupum eða á bílum. Oftar en ekki er sá fyrsti sem handtekinn er saklaus en áður en varði finnst hinn seki eða hin seku.

Í þáttunum er líka drama en við fáum auðvitað að kynnast aðalpersónunum sem eiga í alls kyns innri baráttu. Einn er múslimi sem hefur barist í Afganistan, annar á barn með hvítblæði, ein missti vinkonu sína og er að ala upp barnið hennar. Og ekki vantar spennuna; oft munar bara hársbreidd að sprengja springi í borginni eða að gjörvöll heimsbyggðin smitist af óþekkri veiru. En FBI reddar hlutunum og bjargar deginum! Og stundum heiminum.