Tálknafjörður Samgöngumál eru efst á baugi hjá íbúum svæðisins.
Tálknafjörður Samgöngumál eru efst á baugi hjá íbúum svæðisins. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Kosið verður í dag, laugardag, til sameiginlegrar sveitarstjórnar og heimastjórnar Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, en sameining þessara tveggja sveitarfélaga tekur gildi 19. maí nk. Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri segir nýtt heiti…

Kosið verður í dag, laugardag, til sameiginlegrar sveitarstjórnar og heimastjórnar Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, en sameining þessara tveggja sveitarfélaga tekur gildi 19. maí nk. Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri segir nýtt heiti sameinaðs sveitarfélags verða „Sameinað sveitarfélag Tálknafjarðar og Vesturbyggðar“. Óskað hefur verið eftir tillögum frá íbúum um framtíðarheiti og verður það hlutverk nýrrar sveitarstjórnar að taka ákvörðun um heitið.

Tveir framboðslistar í kjöri

Á kjörskrá er 1.001 einstaklingur. Yfirkjörstjórn Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar úrskurðaði framboðslista Sjálfstæðisflokksins (D) og Nýrrar sýnar (N) löglega til framboðs. Oddviti Sjálfstæðisflokksins er Friðbjörg Matthíasdóttir frá Bíldudal og oddviti N-listans er Páll Vilhjálmsson frá Patreksfirði.

Hvenær og hvar á að kjósa?

Á Patreksfirði og Tálknafirði verður kjördeild opnuð kl. 10.00, en á Bíldudal og Krossholtum kl. 12.00.

„Ekki hafa verið gerðar skoðanakannanir um fylgi framboðslistanna en sameiginlegir framboðsfundir hafa farið fram að undanförnu. Það eru því spennandi kosningar fram undan,“ segir Þórdís Sif í samtali við Morgunblaðið.

Upphaf sameiningarferilsins má rekja til valkostagreiningar á sameiningarkostum þar sem niðurstaðan var sú sama hjá báðum sveitarfélögum. Efst á lista íbúa voru bættar samgöngur á milli þéttbýliskjarna sveitarfélaganna með göngum undir Mikladal og Hálfdán. oskar@mbl.is