Gátan er sem endranær eftir eftir Pál Jónasson í Hlíð: Hún á skipum öllum er, oft í bókum skrautleg hér, líka er hún sunnlensk sveit, sjaldan fæst hún reykt af geit. Þá er það lausnin, segir Helgi R

Gátan er sem endranær eftir eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Hún á skipum öllum er,

oft í bókum skrautleg hér,

líka er hún sunnlensk sveit,

sjaldan fæst hún reykt af geit.

Þá er það lausnin, segir Helgi R. Einarsson:

Skipshlið, sunnlensk sveit,

sem og hluti' af geit,

soldið sem menn fletta,

SÍÐA kallast þetta.

Úlfar Guðmundsson leysir gátuna:

Heitir síð' á bæði borð.

Bókarsíða fagurskreytt.

Frábær Síða fögur storð.

Fæst sú síða varla reykt.

Guðrún B. svarar:

Á mynd sé ég síðu á báti

á síðu í bók, vel teiknað.

Á Síðu kokkurinn káti

skar kjöt, síðu af geit, útreiknað.

Ráðning Sigmars Ingasonar:

Síðulöng skríða skip um mar.

Skreyttar í bókum síðurnar.

Silung hef ég á Síðu veitt.

Síða af geit ei freistar neitt.

Sjálfur skýrir Páll gátuna:

Síða á skipum alltaf er

einnig bókarsíða hér.

Líka er hún Síða sveit

síða stundum reykt af geit.

Þá er ný gáta eftir Pál:

Á fæti mínum ónýt er

efsta frosið lag í snjó.

Lítið svona bátur ber,

barnagull hún var úr sjó.

Limran Veðurspá í Grafarvoginum eftir Anton Helga Jónsson:

Nú líður mér þannig í lendinni

að lægð hygg ég vera í grenndinni,

sagði konan á túr

en karlinn varð súr

og kippti undan pilsinu hendinni.

Jóhann frá Flögu skrifar: Starkaður frá Stóruvöllum í Bárðardal á unnustu í Gnúpverjahreppi, fer að finna hana, verður úti undir steini og kveður síðan á glugga yfir unnustu sinni (þjóðsögn):

Angur og mein fyrir auðar rein

oft hafa skatnar þegið:

Starkaðar bein und stórum stein

um stundu hafa legið.

Þannig voru mið ákveðin frá Snæfellsnesi:

Langt er út af Lúðuklett,

legið getur þar bátur,

Bjarnarfoss undir Búðaklett,

breiðan Gölt í Látur.