[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Átján einstaklingar í Síerra Leóne unnu hörðum höndum í fjóra mánuði við gerð lyklakippa sem nú lenda í höndum Íslendinga, og fengu ríkulega greitt fyrir vinnu sína. Ágóðinn af sölunni á þessum litríku lyklakippum verður notaður til að styðja við…

Átján einstaklingar í Síerra Leóne unnu hörðum höndum í fjóra mánuði við gerð lyklakippa sem nú lenda í höndum Íslendinga, og fengu ríkulega greitt fyrir vinnu sína. Ágóðinn af sölunni á þessum litríku lyklakippum verður notaður til að styðja við vernd gegn ofbeldi á börnum hér á landi en einnig til að valdefla og styðja fjölskyldur sem búa við kröpp kjör í Síerra Leóne. Framkvæmdastjórinn Tótla, sem tók við starfinu í janúar, segir frá því góða starfi sem starfsfólk Barnaheilla vinnur.

Heillavinir styrkja mánaðarlega

Tótla er grafískur hönnuður með MBA-gráðu, hefur unnið á fréttastofu í áratug og var fræðslustýra Samtakanna ‘78 áður en hún tók við hjá Barnaheillum í byrjun árs.

„Mér líst mjög vel á nýja starfið. Við erum alþjóðahreyfing og erum að vinna að mörgum verkefnum hér heima og víðs vegar um heim,“ segir Tótla.

„Við erum málsvari barna og stuðlum að heilbrigði og velferð þeirra. Við rekum fjögur verkefni í Afríku sem snúa að ofbeldisforvörnum, í Síerra Leóne og Líberíu og í Kongó vinnum við með götubörnum sem hafa meðal annars sloppið úr klóm vígahópa,“ segir hún og segir að starfsmenn alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children vinni vinnuna þar en þau sjái um fjármögnun og skipulag.

„Í Síerra Leóne erum við með þróunarverkefni sem miðar að því að útrýma kynbundnu ofbeldi í og við skóla. Þar vinnum við með barnaverndaryfirvöldum og komum m.a. af stað tilkynningarkerfi þar sem hægt er að tilkynna ofbeldi gegn börnum. Skólabörn geta þá látið vita ef þau verða fyrir ofbeldi, en sem dæmi var tekið viðtal við unglingsstúlku sem vissi ekki að kynferðisofbeldi væri glæpur. Þetta voru hlutir sem voru áður ekki ræddir,“ segir Tótla og segir að utanríkisráðuneytið styðji fjárhagslega við starfið sem fer fram erlendis á móti fjármagni sem Barnaheill safna í gegnum fjáraflanir.

„Við erum með fólk sem styrkir okkur mánaðarlega og kallast þá Heillavinir. Aðrir styrkja okkur á annan hátt,“ segir Tótla og segir þessa söfnun núna koma til með að hjálpa mikið í fjármögnun fyrir starfið.

Þar sem neyðin er mest

Vorsöfnun Barnaheilla í gegnum sölu lyklakippa hófst 2. maí og verða söluaðilar víða um land á næstu dögum.

„Ég er einmitt að fara til Síerra Leóne til að taka út verkefnið og sjá hvernig gengur,“ segir Tótla og segir Barnaheill starfa í suðausturhluta Síerra Leóne. Lyklakippuverkefnið er unnið í samstarfi við Regínu Bjarnadóttur hjá Aurora Foundation.

„Það er mikilvægt að vita hvaðan þetta kemur og að verkefnið skapar atvinnu á þeim svæðum sem við störfum á. Það voru búnar til sex þúsund lyklakippur og verða seldar á þrjú þúsund krónur stykkið, bæði á sölustöðum og á heimasíðu okkar,“ segir Tótla en hún hyggst einnig skoða forvarnarverkefni Barnaheilla í Síerra Leóne sem gengur afar vel.

„Ofbeldi í skólum þar er nú nánast horfið eftir að tilkynningarkerfið var sett á. Það vill enginn vera tilkynntur, þannig að þetta virkar og við erum gríðarlega stolt af því,“ segir hún en mjög hátt hlutfall ungra stúlkna og ungra mæðra verður fyrir kynferðisofbeldi í landinu.

„Við vorum beðin um aðstoð og því var komið á þessu samstarfi við okkur. Við erum í sambærilegu verkefni í Líberíu og verkefnin ganga út á ofbeldisforvarnir,“ segir hún og nefnir að fleiri verkefni séu í gangi í Senegal og Kongó.

„Við erum líka alltaf að safna fyrir viðbragðasjóði alþjóðasamtakanna og nú er fókusinn á Palestínu. Fókusinn er þar sem neyðin er mest.“

Öll börn vilja öryggi

Heilmikið starf er unnið innanlands hjá Barnaheillum í þágu barna. Meðal annars hefur verið í mótun nýtt verkefni um kynheilbrigði og forvarnir gegn kynferðisofbeldi.

„Þetta er Evrópusamstarfsverkefni og hefur verið í mótun í tvö ár. Í mánuðinum hófum við verkefnið hér heima og hittum 200 börn sem fengu þá kynheilbrigðisfræðslu,“ segir hún.

„Verkefnið gengur út á kynheilbrigði, mörk og að bera virðingu fyrir hvert öðru. Við kennum börnum leiðir til að láta vita ef þeim finnst eitthvað óþægilegt eða ef einhver fer yfir mörk,“ segir Tótla.

Tótla hefur nýlega sótt ráðstefnur í Rúmeníu og Litháen en þau lönd standa nú frammi fyrir miklum straumi flóttamanna frá Úkraínu, þar af fjölda barna.

„Við heimsóttum líka þing umboðsmanna barna í mars með börnum frá Grindavík til að sjá hvað við getum gert til að vera til staðar fyrir þau. Þau hafa upplifað að þurfa að flýja heimili sín og yfirgefa öryggið sitt. Það þarf að taka utan um þennan barnahóp. Fólk flýr ekki bara fátækt eða stríð heldur líka náttúruhamfarir. Ég hlustaði á þessi börn og sama hvort þau voru sex ára eða sextán, þá vildu þau öll eiga öruggt heimili.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir